Það er alveg óhætt að opna ofninn …

Það var steinbítur í matinn aftur í kvöld en það var eiginlega óvart. Ég keypti flak í gær, skipti því í tvennt og eldaði úr helmingnum en ætlaði svo að frysta hitt og eiga. En gleymdi því þangað til í morgun og fannst þá eins gott að elda bara úr því, bara allt öðruvísi rétt. Meira á Miðjarðarhafsnótum í þetta skipti, eins og planið hafði verið, en samt ekki það sama og ég var að hugsa um í gær.

Ég ákvað að baka fiskinn í ofni í þetta skipti. Kannski var það fyrir áhrif af því að ég var að lesa grein í blaði í dag þar sem því var haldið fram að það tapaðis svo mikill hiti í hvert skipti sem ofn væri opnaður að hann væri 10 mínútur að ná fyrri hita og þeim tíma þyrfti svo að bæta við eldunartímann, semsagt ef maður opnaði ofninn tvisvar þyrfti að lengja tímann um 20 mínútur.

Þvílík og önnur eins vitleysa.

Hugsið bara málið: Þegar þið opnið ofninn kviknar yfirleitt ljós eftir stutta stund til merkis um að hitinn sé kominn niður fyrir það sem hann er stilltur á. Svo lokar maður ofninum aftur og líða þá 10 mínútur þar til ljósið slökknar? Óekkí. Og er ofninn ískaldur þá stuttu stund sem líður þar til hann hefur náð fullum hita? Onei, hitinn er nokkrum gráðum lægri. Hættir maturinn að eldast og byrjar ekki aftur fyrr en fullum hita er náð? Nei, ég held nú síður.

Harold McGee, sem hefur skrifað merkilegt undirstöðurit um eldhúsvísindi, On Food and Cooking: The Science and Lore of the Kitchen, athugaði þetta einu sinni – hann sagðist sjálfur hafa verið vanur, þegar hann þurfti að opna ofninn, að hafa hann opinn eins stutt og mögulegt var og flýta sér ógurlega og það hefði stundum leitt til óhappa og mistaka. Hann gerði því vísindalegar tilraunir sjálfur og komst að því að ef ofn sem er stilltur á 175°C eða hærra er hafður opinn í eina mínútu getur hitatapið vissulega verið um 40°C. En hitinn var kominn aftur í fyrra horf um mínútu eftir að ofninum var lokað að nýju.

Nú eru ofnar auðvitað svolítið misjafnir – en þetta er alveg í takt við minn ofn. Svo ég opna ofninn óhikað, oft og mörgum sinnum ef á þarf að halda. Nema þegar ég baka soufflé og svoleiðis – en reyndar hefur annar matarvísindamaður, Peter Bareham, sýnt fram á að það er vel hægt að baka soufflé í galopnum ofni, eða opna ofninn upp á gátt í miðju kafi og skella hurðinni aftur ef því er að skipta – en ég hef ekki prófað.

Ef ég hefði trúað greininni sem ég las í dag hefði ég þurft að baka fiskinn í nærri 50 mínútur í staðinn fyrir þær 18 sem hann var í ofninum því ég opnaði ofninn (maður hlýtur að eiga að telja með fyrsta skiptið, þegar maður opnar ofninn til að setja matinn inn, það þýðir jú hitatap líka …). Ég er nú ekki viss um að það hefði komið vel út.

En ég byrjaði allavega á að stilla ofninn á 200°C og setja nokkrar litlar kartöflur í pott og sjóða því ég ætlaði að hafa kramdar kartöflur í réttinum.

Ég var búin að ákveða að hvað sem ég gerði í kvöldmatinn yrði basilíka í því. Ég er með sex tegundir af basilíku (áttu að vera sjö en ein sálaðist af óþekktum orsökum) í vatnsræktargarðinum (Aero-Garden) og þær eru að vaxa upp í ljósin sumar hverjar og blöðin sviðna svo það var um að gera að taka eitthvað af þeim. Ég notaði basilíku í gær en á allt annan hátt.

Reyndar tók ég í þetta skipti bara fjögur blöð af Marseille-basilíkunni. En þau eru lófastór, ég lýg því ekki (og ég er ekki með neitt sérstaklega litla lófa sko). Auðvitað má nota venjulega basilíku – það þarf bara fleiri blöð.

Svo setti ég svört piparkorn og Maldon-salt í mortél og steytti og bætti svo við einum hvítlauksgeira, niðurskornum, og maukaði hann saman við. Setti 2 tsk af ólífuolíu og 1/2 tsk af herbes de provence (mætti líka vera t.d. ítölsk kryddjurtablanda eða bara timjan eða óreganó) út í og gerði úr þessu dökkt mauk.

Ég átti tvær sneiðar af ítalskri hráskinku og setti þær á borðið og lét þær skarast örlítið. Þær hefðu eiginlega þurft að vera þrjár en ég átti semsagt bara tvær svo þær urðu að duga … Ofan á þær setti ég tvö af basilíkublöðunum. Ef ég hefði verið með venjulega basilíku hefði ég bara dreift nokkrum blöðum yfir miðjar sneiðarnar.

Svo smurði ég helmingnum af kryddmaukinu á aðra hliðina á fiskinum, lagði hann á basilíkublöðin með krydduðu hliðina niður og smurði afganginum af maukinu á hina hliðina, lagði hin basilíkublöðin ofan á (þau huldu fiskinn alveg svo sást hvergi í hann, vafði skinkunni utan um og lagði vefjuna í lítið, eldfast mót sem ég var búin að smyrja með ögn af ólífuolíu.

Ég skar eina litla, fræhreinsaða papriku í bita og setti í formið ásamt nokkrum litlum tómötum – þeir voru svo litlir að það þurfti ekki að skera þá niður.

Nú voru kartöflurar akkúrat soðnar (eða kannski rétt tæplega) og ég hellti vatninu af þeim og kramdi þær svo létt með gaffli. Ekki stappa þær eða neitt svoleiðis, bara þrýsta gafflinum einu sinni á hverja. Ég læt hýðið vera á þeim en það má náttúrlega afhýða þær, ef maður nennir. Mér þykja þær betri með hýði. Svo dreifði ég þeim í fatið, blandaði þeim lauslega saman við tómatana og paprikuna, ýrði svolítilli olíu yfir og kryddaði með ögn af pipar og salti.

Svo setti ég fatið í ofninn (opnun nr. 1) og stillti klukkuna á 15 mínútur en eftir 2-3 mínútur ákvað ég skyndilega að setja nokkrar ólífur út í svo að ég tók fatið út (opnun nr. 2), dreifði ólífunum yfir og setti það svo aftur í ofninn.

Eftir 15 mínútur tók ég fatið út (opnun nr. 3), stakk hnífsoddi í fiskinn miðjan, ákvað að hann gæti þurft 3 mínútur í viðbót og stakk honum aftur inn. En þá var hann líka tilbúinn.

Þetta var mjög ólíkt steinbítnum í gær – en hreint ekki síðra.

En veriði ekkert að bæta við 10 mínútum fyrir hverja opnun á ofninum, sko.

2 comments

    • Já og nei. Stórefa að hann borgi sig nokkurntíma peningalega (dýr og töluverður rekstrarkostnaður) en það er afskaplega þægilegt að eiga þetta – ég reyndar er yfirleitt bara með basilíkur í mínum og það er gaman að hafa mismunandi tegundir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s