Um áhrif strætisvagnaferða á matargerð

Alveg er ég viss um að kvöldmaturinn minn væri oft fátæklegri ef ég væri á bíl. Eða allavega hugmyndasnauðari.

Ekki að ég viti neitt um það vegna þess að ég hef aldrei verið á bíl og reyndar aldrei lært á bíl – en ég geri mér einhvernveginn í hugarlund að ég mundi ekki hafa nægan frið til að hugsa ef ég væri undir stýri. Ekki í Reykjavíkurumferðinni allavega. En í strætó eða á rölti gegnir öðru máli og þá get ég hugsað að vild um kvöldmatinn án þess að nokkuð trufli, velt fyrir mér bragðsamsetningum og aðferðum, prófað bragð í huganum (ég geri það oft), rifjað upp hvað er til heima, ákveðið matinn, skipt um skoðun … jú ég gæti sjálfsagt hugsað um þetta líka ef ég væri á bíl en þá mundi ég annaðhvort alltaf verða fyrir truflunum og týna þræðinum og þurfa að byrja upp á nýtt – eða ég mundi gleyma mér svo í hugleiðingum um krydd og meðlæti að ég mundi steingleyma að ég væri á bil. Og það gæti farið illa.

Ég kom í Nóatún áðan með óljósa eða enga hugmynd um hvað ætti að vera í kvöldmatinn. Sá steinbít í fiskborðinu og langaði í hann svo ég keypti flak. Og sítrónu og Lambhagasalat, en mundi að ég átti tómata og basilíku og kjúklingabaunir og fleira heima og sá fyrir mér eitthvað á Miðjarðarhafsnótum. Gott mál.

Svo fór ég í strætó.

Og þar sem ég sat í makindum og velti fyrir mér nánari útfærslu á kjúklingabaunatómatabasilíku-einhverju með steinbítnum og skoðaði í ísskápinn í huganum mundi ég allt í einu eftir fennikunum. Ég keypti nokkrar litlar fallegar fennikur fyrr í vikunni og hafði ekki gert neitt við þær enn. Þær pössuðu ekki alveg í Miðjarðarhafspælinguna mína, fannst mér, svo að eftir nokkrar vangaveltur sleppti ég tómötunum og baununum úr matseðlinum en hélt basilíkunni. Enda á ég nóg af henni, vatnsræktargarðurinn er nokkuð gróskumikill núna.

Þetta er nú allt frekar grænt. Tvær litlar fennikur, vorlauksknippi (ég notaði reyndar bara tvo eða þrjá) og slatti af basilíku. Þetta eru tvær tegundir, stóru blöðinn þarna eru basilíkublöð líka. Lófastór.

Ég skar bláendana af fennikunum (skar rótina ekki af því ég vildi að blöðin héldust sem mest saman) og skar þær svo í fjórðunga eftir endilöngu. Saxaði vorlaukunn og skar basilíkuna í ræmur.

Ég hitaði 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri í víðum, grunnum potti (eða er þetta panna? ég hef aldrei verið alveg viss um skilgreininguna) og setti svo fennikuna út í og steikti hana við háan hita í nokkrar mínútur; hrærði nokkrum sínnum á meðan.

Þegar fennikan var farin að brúnast svolítið setti ég vorlauk og basilíku á pönnuna, kryddaði með pipar og salti, hrærði og steikti í svona 1 mínútu …

… og þá hrærði ég svona 1/2 tsk af kjúklingakrafti út í 100 ml af vatni, hellti yfir fennikuna, lækkaði hitann og lét malla í næstum alveg lokuðum potti þar til allur vökvi var gufaður upp (eða svo gott sem).

Á meðan skar ég steinbítinn í stykki og blandaði svo 1 msk af hveiti, 2 msk af sesemfræi, pipar og salti saman á diski og velti fiskinum upp úr blöndunni.

Svo hitaði ég 2 msk af olíu á pönnu og steikti steinbítinn í 3 mínútur á hvorri hlið við meðalhita (stirtlustykkið var svo þunnt að ég braut það tvöfalt áður en ég velti því upp úr fræblöndunni og setti á pönnuna svo það þyrfti sama tíma og hin stykkin).

Fennikan var einmitt tilbúin um leið og fiskurinn, meyr og safarík, gljábrúnuð og bragðgóð. – Það er hægt að flýta ögn fyrir gljáanum (karamelliseringunni) með því að bæta svolitlum sykri á pönnuna en mér finnst betra að gefa náttúrulegum sykrinum í fennikunni tíma til að brúnast.

Ég setti steinbítinn og fennikuna á fat ásamt salatblöðum og skreytti með basilíkulaufi og sítrónubátum. Það var örlítill vökvi eftir á fennikupönnunni og ég dreypti honum yfir fiskinn.

Þetta þótti mér nokkuð góður matur. Ég er reyndar viss um að Miðjarðarhafskássan sem ég ætlaði upphaflega að elda hefði verið ágæt líka. En ég elda svo oft eitthvað á þeim nótum svo mér var meira nýnæmi að fennikunni. Sem mér hefði kannski ekki dottið í hug ef ég hefði ekki haft tóm til að hugsa í strætó …

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s