Kaka skreytingarinnar vegna

Stundum koma þeir dagar að mig langar ósköpin öll að baka köku þótt mig langi ekkert endilega mikið til að borða köku. Eða það er allavega ekki ástæðan. Þetta getur verið vegna þess að ég hef nýlega rekist á einhverja uppskrift sem mig langar til að spinna út frá, séð mynd í blaði eða munað eftir einhverri gamalli köku úr fortíðinni. En það getur líka verið vegna þess að ég á eitthvert hráefni sem mig langar ósköpin öll að nota í köku. Og sú var einmitt raunin núna.

Þegar ég var búin að þurrka perurnar á sunnudaginn datt mér í hug að það gæti verið gaman að nota þær í kökuskreytingu. Eiginlega var ég með allt öðruvísi köku í huga og það er vel líklegt að ég geri hana seinna. En ég var búin að ákveða að gera köku í dag og svo kom ég seint heim og hafði lítinn tíma svo það varð úr að ég stytti mér leið, bakaði einfaldan svampkökubotn og setti súkkulaði-mascarponekrem á hann og svo perurnar.

Eins og oftar þegar ég þarf svampkökubotn notaði ég glasatertuuppskriftina sem mamma er búin að baka frá því í desember 1964 (það var þá sem uppskriftin birtist í Mogganum) og við dæturnar lærðum í kringum tíu ára aldurinn og höfum bakað síðan. Nema fyrir nokkrum árum kom í ljós að ég notaði alltaf eina teskeið af lyftidufti, Gunna systir þrjár en mamma tvær (eins og stendur reyndar í Moggauppskriftinni). Ég fór í töluverða tilraunastarfsemi í framhaldi af þessu og niðurstaðan varð að síðan hef ég alls ekki notað neitt lyftiduft, það er óþarfi. Eggin sjá um lyftinguna.

En allavega, maður tekur þrjú jafnstór glös, brýtur þrjú egg í eitt, hellir sykri í annað svo hann nái jafnhátt og eggin og í það þriðja setur maður tvær matskeiðar af kartöflumjöli, lyftiduft eftir smekk (eða sleppir því eins og ég geri) og fyllir svo upp með hveiti, jafnhátt og eggin og sykurinn. – Það er reyndar hægt að nota bara hveiti. En ástæðan fyrir kartöflumjölinu er þessi: Í þessa botna og annað svipað bakkelsi er best að nota kökuhveiti, sem er próteinminna en venjulegt hveiti. Það fæst hins vegar ekki hér og þess vegna er gott að lækka próteinhlutfallið með því að blanda kartöflumjöli saman við. Eins má nota maíssterkju (maizenamjöl).

Ég hitaði ofninn í 180°C. Setti svo eggin og sykurinn í hrærivélarskál og bætti við 1 tsk af vanilluessens (er ekki í upprunalegu uppskriftinni en mér þykir það betra) og þeytti þetta mjög vel saman.

Á meðan penslaði ég meðalstórt smelluform með olíu og klippti út hring úr bökunarpappír og setti í botninn.

Svo sigtaði ég hveitið og kartöflumjölið yfir deigið …

… og blandaði því gætilega saman við eggjahræruna með sleikju. Ekki hræra meira en svo að hveitið rétt blandist saman við og svo er um að gera að hella deiginu strax í form og setja í ofninn – annars er hætt við að kartöflumjölið sökkvi til botns í kökunni og það er ekki sérlega girnilegt. Þetta er semsagt ekki kaka sem maður setur í kaldan ofn, hann þarf að vera orðinn alveg heitur áður en hún er sett inn á neðstu rim og bökuð í – tja, svona 23-25 mínútur, eða þar til botninn er svampkenndur og hefur lyft sér vel.

Á meðan bjó ég til kremið. Í það fara 125 g af linu smjöri, 150 g suðusúkkulaði, 250 g mascarpone-ostur, 5 msk ljóst síróp, 3 eggjarauður og 1 tsk vanilluessens.

Ég byrjaði á að bræða súkkulaðið í vatnsbaði og tók það svo af hitanum og lét kólna aðeins. Á meðan setti ég smjör, mascarpone-ost, síróp og vanillu í hrærivélarskálina og þeytti vel saman.

Svo þeytti  ég eggjarauðunum saman við, einni í einu, og skóf vel niður hliðarnar á skálinni á milli.

Svo hrærði ég súkkulaðinu saman við. Þetta er nú svolítið girnilegt (og alls ekki svo sætt). Ef maður vill hafa kremið dekkra má líka hrærða kakódufti saman við.

Þegar botninn var orðinn kaldur smurði ég kreminu á hann með spaða, bæði ofan á og utan á hliðarnar. Þarna má alveg láta staðar numið, eða þá skreyta kökuna til dæmis með söxuðu súkkulaði, hnetum eða öðru slíku, sælgætismolum, skrautsykri eða bara hverju sem manni dettur í hug og passar við súkkulaði (og það er nú ekki fátt sem passar við súkkulaði, ef út í það fer).

En ég var nú að baka kökuna spes til að skreyta hana með þurrkuðum perum svo að það var það sem ég gerði. Raðaði perusneiðum í hring utan með kökunni …

… og ofan á hana. Þetta eru  ekki nógu góðar myndir en það var eiginlega orðið dimmt þegar ég lauk við að skreyta kökuna. Svo setti ég hana í kæli þar sem hún verður til morguns, þá kemur í ljós hvort þurrkuðu perurnar þola snertinguna við rakt kremið eða hvort þær blotna allar upp.

Ég er semsagt ekki búin að smakka kökuna. En ég hef nú fulla trú á að hún sé æt.

Ég er reyndar ekki alveg ánægð með kökuna og er nokkuð viss um að innan tíðar þurrka ég fleiri perur og prófa upphaflegu hugmyndina sem ég var með. En það verður sennilega um helgi.
Smáviðbót: Nú er ég búin að smakka (og vinnufélagarnir líka) – og kakan er fín, botninn í lagi, kremið býsna gott (nema maður vilji dísætt krem) en það mætti minnka smjörið svolítið – og perurnar mjög góðar – en eins og mig grunaði er þetta ekki alveg rétta samsetningin. Hreint ekki slæm svosem, en gæti verið betri. Þarf að gera fleiri tilraunir seinna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s