Hefðir klæddar í lit

Það var nú eiginlega aldrei spurning hvað yrði í matinn í kvöld eftir sláturgerðina í gær. Afkomendur mínir eru ekkert sérlega duglegir við sláturát, satt að segja – nema Úlfur, en það var heill blóðmörskeppur eftir og ég ákvað að steikja hann. Eða helminginn af honum.

Ég heyri stundum á fólki að því finnst gamall íslenskur matur ekki sérlega freistandi útlits, jafnvel þótt því líki bragðið. En rétt eins og það er lítið mál að gefa þessum mat meira eða ögn öðruvísi bragð (eins og ég gerði t.d. við blóðmör og lifrarpylsu í gær), þá er ekki síður einfalt að klæða hann í nýjan búning og gera hann litríkari. Ég er mikið fyrir liti og ekki síst sterka liti, eins og þeir vita sem þekkja mig, og það gildir ekki síður um matinn en fötin …

Ég var einhvers staðar nýlega að tala um matartísku og klisjur. Ein slík klisja sem varð afar vinsæl í Englandi fyrir nokkrum árum og er það sennilega enn var black pudding (sem er blóðmör þeirra) og hörpuskel. Ágætt ef það er vel gert en annars ekki … og mér fannst um tíma eins og það væri varla hægt að horfa á breskan kokkasjónvarpsþátt (sérstaklega þætti eins og Masterchef) svo ekki væri einhver sem kokkaði blóðmör og hörpuskel.

Blóðmör og epli er enn algengari samsetning en er aftur á móti ekki klisja, heldur aldagömul hefð’ (nema ekki hérlendis) sem einfaldlega má rekja til þess, eins og ég nefndi í gær, að þetta er bara akkúrat hárrétt samsetning. Sýran og sætan í eplunum er mótvægi við fituna og ,,þyngslin“ í blóðmörnum og þetta smellpassar saman.

 

Eplin duga nú samt ekki alveg sem meðlæti. Ég átti eina litla rófu en fannst hún ekki duga (og svo var hún ekki nægilega litrík heldur, gulrófur eiga að vera gular en ekki gulhvítar) svo að ég tók fjórðung af butternut-kúrbít sem ég átti og svo voru til nokkur blöð af grænkáli. Og tvö Pink Lady-epli. Það má auðvitað nota önnur epli en Red Delicious eru of mjölkennd og bragðlítil til steikingar og Granny Smith of þétt og súr, svo ég nefni tvær algengar tegundir.

 

Ég byrjaði á að flysja rófuna og skera hana í litla bita og svo skóf ég fræin úr butternut-kúrbítnum, flysjaði hann og skar hann líka í bita (því minni, þeim mun styttri suðutími). Setti hvorttveggja í pott ásamt vatni og sauð í um 15 mínútur, eða þar til þetta var meyrt.

 

Þá hellti ég vatninu af grænmetinu, lét gufuna rjúka úr pottinum í svona eina mínútu og setti svo 1 msk af ólífuolíu út í. Venjulega nota ég smjör í svona stöppu en þar sem ólífuolíuflaskan var við hliðina á mér en smjörið ekki ákvað ég að prófa það í þetta skipti. Það var í fínu lagi en mér finnst smjörið þó betra. Ég kryddaði með pipar, salti og kummini og stappaði þetta vel saman.

 

Á meðan grænmetið sauð flysjaði ég eplin, kjarnhreinsaði þau og skar þau í báta. Skar stönglana úr grænkálsblöðunum (notaði þá ekki) og saxaði kálið smátt. Svo bræddi ég svolítið smjör á pönnu, skar blóðmörinn í svona 1 1/2 þykkar sneiðar (tók vömbina utan af) og setti þær á pönnuna og setti eplabátana á milli. Steikti þetta í 2-3 mínútur við meðalhita en sneri þá blóðmörssneiðunum og eplunum …

 

Svo setti ég grænkálið á pönnuna og steikti áfram í nokkrar mínútur.

 

Hrærði oft í grænkálinu og eplunum á meðan. Stráði svolitlum kanil og ögn af salti yfir.

 

Ég dreifði stöppunni í hring á fat og setti blóðmörinn, eplin og grænkálið í miðjuna.

 

Sko, þetta er nú dálítið litríkara en hefðbundinn blóðmör með rófustöppu og kartöflum. Og bragðaðist alveg hreint ágætlega.

3 comments

  1. Þetta verð ég að prófa einhverntíman, ég nota alltaf kanil á steikta blóðmör, en næst verða eplin með!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s