Ég er búin að vera í haustverkum í dag á milli þess sem ég held áfram með skráningu á matreiðslubókasafninu (er núna búin að skrá 1548 bækur og nóg eftir enn). Ekki að ég sé að fást við neitt sem ég hef ræktað sjálf, neinei, ég rækta ekkert nema basilíku í vatnsræktargarðinum mínum … en það’ tilheyrir nú haustinu að bretta upp húsmóðurermarnar og reyna að vera myndarleg. Ef maður nennir. Og ég nennti því í dag.
Var reyndar búin að ákveða í gær að vera í sláturgerð í dag og fékk barnabarnið til að keyra mér að kaupa þrjú slátur í kassa. En ég var eitthvað óvenju utan við mig og tók kassa með saumuðum keppum og brytjuðum mör, sem ég hafði alls ekki ætlað að gera. Uppgötvaði það ekki fyrr en heim kom. En jæja, það þýddi þá að ég hafði meiri tíma i annað …
Ég hafði keypt epli, meðal annars til að steikja og hafa með blóðmörnum (epli og blóðmör passar fantavel saman) og svo átti ég perur og nektarínur. Og svo átti ég nokkra græna tómata og litlar, safaríkar appelsínur með frekar þunnum berki. Svo ég ákvað að nota minn ágæta þurrkofn fyrir þéttu ávextina (epli, perur, nektarínur) og sjóða marmilaði úr hinu.
Ég byrjaði reyndar á því að skera perurnar í þunnar sneiðar langsum og eplin sömuleiðis í þunnar sneiðar þversum og velti hvorutveggja upp úr sítrónusafa (til að ávextirnir dökkni ekki). Raðaði þeim svo á grindurnar í þurrkofninum og stillti á 70°C. Þegar ég vaknaði (eftir 7-8 klst) voru perurnar tilbúnar …
… og eplin líka. Ég tók eplin og perurnar af grindunum því ég ætlaði líka að þurrka slatta af nektarínum.
Ég skar þær í sundur, fjarlægði steinana og skar þær svo í frekar þunna báta og raðaði á grindurnar (engin þörf á að velta þeim upp úr sítrónusafa). Þurrkaði þær í svona 6-7 klst.
Þá voru þær orðnar svona. Bæði nektarínurnar, perurnar og eplin eru afbragðsgott snakk.
Á meðan nektarínurnar voru í þurrkofninum fór ég í sláturgerðina. Byrjaði á blóðmörnum og blandaði saman blóði, vatni, salti, hafragrjónum (venjulegum) og rúgmjöli.
Ég skipti blöndunni í tvennt, hrærði bara mör saman við helminginn en setti vænan rúsínuhnefa út í hinn helminginn, ásamt kanil, engifer (dufti) og ögn af cayennepipar. Og auðvitað mör. Setti þetta svo í keppi, lokaði þeim og merkti þá krydduðu.
Svo skar ég lifrarnar og helminginn af nýrunum í bita og hakkaði það. Hrærði svo mjólk og salti saman við og síðan hafragrjónum (grófum), heilhveiti og rúgmjöli.
Ég skipti lifrarpylsublöndunni líka í tvennt, hrærði bara mör saman við helminginn en hinn helminginn kryddaði ég með blóðbergi, engifer (dufti), pipar og cayennepipar og hrærði svo mör saman við.
Ég frysti meirihlutann en sauð nokkra keppi í kvöldmatinn handa fjölskyldunni (gikkirnir sem vilja ekki svona mat fengu lambalæri).
Á meðan tók ég til hálft kíló áf litlum, grænum tómötum (einn var reyndar orðinn rauðleitur en hann var enn grjótharður), tvær appelsínur (litlar) og eina sítrónu.
Ég skar tómatana í sneiðar og notaði svo matvinnsluvélina (púlshnappinn) til að grófsaxa þá og hellti þeim í pott.
Eins með appelsínurnar, ég skar þær niður og grófsaxaði þær svo í matvinnsluvélinni og setti þær í pottinn og bætti við 250 ml af vatni.
Ég lét þetta malla rólega við hægan hita í opnum potti í svona klukkutíma, eða þar til appelsínurnar og tómatarnir voru orðin meyr og mestallur vökvinn var gufaður upp.
Þá kreisti ég safann úr sítrónunni út í, bætti við 300 g af sykri og 1 tsk af grófmöluðu kóríanderfræi (má sleppa) og lét sjóða þar til marmilaðið var orðið þykkt – gæti hafa tekið svona hálftíma. Hrærði öðru hverju.
Svo hellti ég marmilaðinu í krukku (þetta er bara ein krukka, eða tvær litlar). Það er mjög fínt á kex eða ristað brauð, til dæmis með osti.
Gaman að lesa að þú fékkst barnabarnið til að „keyra þér“.
Hún er viljug til að keyra mér í ýmsar áttir þegar ég þarf á því að halda – sem er reyndar ekki oft.
Ég þarf að prófa epli með blóðmör. Þegar ég steiki lambalifur (velt upp úr krydduðu hveiti og steikt þangað til ég er ekki alveg viss um hvort hún sé steikt í gegn, þá er hún mátuleg) steiki ég alltaf þykkar sneiðar af grænum eplum í smjöri og hef með. Og steiktan lauk.
[…] mót, velti fiskbitunum upp úr henni og raðaði þeim svo í mótið og dreifði dálitlu af tómat- og appelsínumarmilaðinu sem ég var með uppskrift að hér um daginn yfir. Það má alveg nota ýmislegt annað í […]