Lífið er … grænkál, furuhnetur og rúsínur …

Ég er búin að sitja í fimm mínútur og reyna að finna einhverja leið til að byrja þessa færslu á einhverju öðru en ,,Lífið er saltfiskur“ en tekst það engan veginn. Halldór Laxness hefur margt á samviskunni.

Næstelsta fiskmatreiðslubók sem út kom á íslensku er 160 fiskréttir Helgu Sigurðardóttur, sem kom út 1934 (sú fyrsta var Ódýr fæða, sem Fiskifélagið gaf út 1915, minnir mig). Þar eru heilar fimm saltfiskuppskriftir. En ein er að soðnum saltfiski með kartöflum, rófum og hamsatólg og hinar fjórar eru að leifum af soðnum saltfiski.

Ég átti saltfisk en langaði ekki í soðinn saltfisk og þaðan af síður hamsatólg (sem ég kann þó vel að meta einstöku sinnum).  Svo að ég gerði eitthvað við fiskinn sem Helgu hefði aldrei dottið í hug. Sennilega hefði hún fórnað höndum. Og þó, hún var reyndar alltaf opinn fyrir nýjum hugmyndum, blessunin.

Þetta er tilbrigði við spænska uppskrift, byggð á því sem ég átti í skápunum.

Ég tók saltfiskinn, sem hafði þiðnað í ísskápnum – 465 grömm, frá Ektafiski, afvatnaður til steikingar – skolaði hann snöggvast og þerraði með eldhúspappír. Svo tíndi ég til 1 rauðlauk (þessi er reyndar bara hálfur en hann var stór), rósmaríngrein (má alveg sleppa), svona 2 msk af furuhnetum og aðeins meira af ljósum rúsínum (mega vera venjulegar en mér þykja þessar betri), 2 hvítlauksgeira, 4 fremur litlar kartöflur, nokkur grænkálsblöð og setti svo 2 msk af hveiti og nýmalaðan svartan pipar í skál. – Já, og nokkrar ólífur. Hefði viljað hafa svartar en reyndist bara eiga grænar fylltar ólífur. Jæja, þær urðu að duga …

Ég roðfletti saltfiskbitana (þeir voru fjórir) og leitaði að beinum (fann engin). Svo velti ég þeim upp úr kryddaða hveitinu. Ég saxaði líka laukinn og hvítlaukinn og skar kartöflurnar í litla teninga.

Hitaði 3 msk af ólífuolíu á pönnu og brúnaði fiskbitana á báðum hliðum við góðan hita, í svona 1-2 mínútur á hvorri hlið, en tók svo fiskinn af pönnunni og setti á disk.

Svo setti ég lauk, hvítlauk og kartöfluteninga á pönnuna ásamt rósmaríninu, lækkaði hitann dálítið og lét krauma í svona 8-10 mínútur, eða þar til laukurinn var glær og kartöflurnar næstum orðnar meyrar (ef maður nennir ekki að skera kartöflurnar nógu smátt má líka sjóða þær og skera þær svo niður og setja á pönnuna um leið og grænkálið, eða bera þær bara fram með réttinum í stað þess að setja þær út í – og ef er verið að elda stærri skammt er sennielga betra að elda þær sér). Það þarf að hræra nokkrum sinnum á meðan þetta mallar.

Á meðan saxaði ég grænkálið gróft. Reyndar byrjaði ég á að skera stönglana úr miðjum blöðunum, skera þá í bita og henda á pönnuna því þeir þurfa lengri tíma en blöðin.

Þegar kartöflurnar voru nærri meyrar setti ég grænkálið á pönnuna og svo rúsínur, furuhnetur og ólífur (skornar i tvennt). Hrærði þessu saman og lét krauma í 1-2 mínútur.

Svo setti ég saltfiskbitana ofan á grænkálskássuna og skar fjórar þunnar sneiðar af sítrónu og lagði eina sneið á hvern fiskbita. Hellti svo svolitlu vatni – svona 4-5 matskeiðum – á pönnuna, lagði lok lauslega yfir og lét sjóða í svona 5 mínútur við vægan hita.

Ég bar þetta fram á pönnunni og jós ögn af grænkálsjukkinu yfir hvern fiskbita af því að það er fallegra …

Þetta var ljómandi gott alveg hreint. En ég veit ekki hvað Helga hefði sagt.

3 comments

  1. Mjög girnileg uppskrift og flottar myndir! Ætla að prófa þetta næst þegar ég elda saltfisk! 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s