Súkkulaðikúrbítskaka – er það ekki eitthvað hollt?

Einhverntíma í sumar hafði ég ætlað mér að baka súkkulaðikúrbítsköku en það strandaði á því að Bónus átti ekki til kúrbít þann daginn, svo ég bakaði eitthvað allt annað. Svo hef ég öðru hverju verið með þetta í huga síðan en það hefur ekkert orðið af því vegna þess að þegar ég hef verið stödd í verslun og munað eftir þessu hefur mér aldrei litist nógu vel á kúrbítana sem til voru. Þeir hafa nefnilega verið of stórir, ég er ekki hrifin af stórum kúrbítum. Veit ekki af hverju svosem …

En í gær sá ég kúrbít sem rétt skreið undir mörkin, hann var 325 grömm. Í allra stærsta lagi fyrir minn smekk en mig langaði í köku. Og ég var nýbúin að finna súkkulaðihnappa í eldhússkápnum sem ég vildi endilega fara að nota í eitthvað (já, það kemur nokkuð oft fyrir að ég finn eitt og annað matarkyns sem ég var búin að gleyma að ég ætti, bæði í eldhússkápum, ísskáp og frysti).

Svo að um leið og ég kom heim kveikti ég á ofninum og stillti á 165. Hefði stillt á 175 ef ég hefði ætlað að nota silíkonformið eða gamla álformið en nýja viðloðunarfría formið mitt er svart (eða dökkgrátt reyndar) og það þýðir tíu gráðum lægri hiti. Kökur brenna frekar í dökkum formum, ef þið vissuð það ekki.

Ég skal ekki segja hvað kúrbíturinn skilar miklu af hollustu í kökuna en hún er nú örugglega í hollari kantinum af súkkulaðikökum að vera.

Ég skar endana af kúrbítnum og reif hann á grófu rifjárni. Ég reikna með að þetta hafi verið rétt um 300 grömm að endunum frátöldum en það þarf svosem ekki að vera nákvæmt.

Svo setti ég 150 g af púðursykri, 125 ml af ólífuolíu og 3 egg í hrærivélarskálina og hrærði vel saman. Það þarf ekkert að vera ólífuolía svosem, má nota einhverja aðra matarolíu, en mér þykir gott að  hafa ólífuolíu í svona köku.Síðan vigtaði ég 250 g af hveiti og 50 g af kakódufti og bætti í skálina 1 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk af salti og 1 1/2 tsk af skyndikaffidufti. Kaffiduftið er ekkert bráðnauðsynlegt og hreint engin ástæða til að rjúka út í búð og kaupa það ef þið notið aldrei skyndikaffiduft, en það dregur betur fram súkkulaðibragðið. En reyndar er alveg ágætis súkkulaðibragð af kökunni þótt því sé sleppt … Svo má líka nota 1 tsk eða svo af vanillu til að fá aðeins annað bragð.

Svo sigtaði ég þetta út í deigið og hrærði saman við. Ekki hræra mikið, bara eins og þarf til að blanda þessu vel saman. Deigið verður mjög þykkt en það er allt í lagi því það kemur svo mikill raki úr kúrbítnum í bakstrinum.

Svo setti ég kúrbítinn út í ásamt 150 g af súkkulaðdropum. (Eins og ég sagði voru súkkulaðidroparnir á óvissum aldri en hvítu blettirnir þarna eru samt hveiti …)

Svo hrærði ég þessu saman við með sleikju – ekki mikið, bara nóg til að kúrbítur og súkkulaði dreifist jafnt um deigið – og setti  það svo í fremur stórt jólakökuform og jafnaði yfirborðið.

Ég var ekki viss hvað kakan þyrfti langan tíma svo ég stillti ofnklukkuna fyrst á 50 mínútur. Tók hana þá út og stakk í hana prjóni en það var töluvert af deigi á honum svo að hún þurfti greinilega eitthvað lengri tíma. Ég setti hana því aftur í ofninn og bakaði hana í 15 mínútur í viðbót.

Nú var hún greinilega nógu mikið bökuð. Það var örlítið deig á prjóninum en það er eðlilegt með köku sem er frekar rök og safarík eins og þessi.

Ég lét hana kólna smástund í forminu og setti hana svo á fat.

Rauðbrún, rök kaka með þéttu og miklu súkkulaðibragði – ansi hreint góð. Þarna sést í smábita af kúrbít en annars ,,bráðnar“ hann að mestu leyti inn í kökuna.

2 comments

  1. […] súkkkulaðikaka https://nannarognvaldar.wordpress.com/2012/10/03/sukkuladikurbitskaka-er-thad-ekki-eitthvad-hollt/ (þessari samt þarf ég að breyta töluvert því ég vil ekki nota hvítt hveiti eða […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s