Framlag mitt til makríldeilunnar

Sko.

Ég veit svosem ekkert um makríldeiluna og hef enga sérstaka afstöðu í henni, þannig séð.

En það er bjargföst skoðun mín að fyrst við erum á annað borð að veiða þennan makríl eigum við allavega að borða eitthvað af honum. Mér skilst að Íslendingar fúlsi við makríl upp til hópa. Til allrar hamingju er þó af sem áður var að nánast allt fari í bræðslu, ég held að meirihlutinn sé núna frystur og hafður til manneldis. Bara ekki fyrir Íslendinga, þetta er nógu gott í útlendingana … En þetta er afbragðs matfiskur þegar hann er glænýr (hann er hins vegar dálítið fljótur að slappast). Bestur þykir mér hann þó reyktur.

Ég fór út í Nóatún að kaupa í matinn.  Var eiginlega með alltannað plan en það sem ég ætlaði að kaupa var ekki til og þar sem ég stóð og hugleiddi hvernig Plan B ætti að vera mundi ég eftir heitreyktum makrílflökum sem ég átti, keyptum í Frú Laugu á dögunum. Samdi uppskriftina í huganum þarna við mjólkurkælinn í Nóatúni og komst að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti líklega ekki að kaupa neitt nema sítrónu og ólífuolíu. Sem ég gerði.

 

Ég byrjaði á að sjóða nokkrar kartöflur þar til þær voru meyrar og hita ofninn í 200°C. Á meðan setti ég 2-3 msk af smjöri í lítinn pott, bræddi það, reif börk af svona hálfri sítrónu og setti út í og kreisti svona 2 tsk af sítrónusafa út í líka.Tók þetta af hitanum þegar smjörið var alveg bráðið.

 

Ég tók svo makrílinn – þetta voru tvö lítil flök, 75-80 g hvort – setti þau á álpappírsörk, kryddaði þau með grófmöluðum pipar og hellti sítrónusmjörinu yfir. Braut svo álpappírinn yfir þannig að þau voru alveg innilokuð og smjörið rann ekki út og setti þau í ofninn í svona 5 mínútur, bara til að hita þau alveg í gegn.

 

Ég setti svo 3 msk af ólífuolíu í skál ásamt 1 tsk af dijon-sinnepi, 1 tsk af kapers (skoluðum í köldu vatni), pipar, ögn af salti og svona 1 msk af sítrónusafa. Hrærði þetta saman og saxaði svo 1/2 lítinn rauðlauk og blandaði saman við.

 

Svo flysjaði ég kartöflurnar, skar þær í bita, setti þær í skál og hrærði sósunni saman við heitar kartöflurnar. Tók svo væna lófafylli af salatblöðum, saxaði gróft og blandaði saman við. Setti þetta svo á lítið fat.

 

Nú var makríllinn tilbúinn og ég opnaði álpappírinn (varlega) og lagði flökin ofan á kartöflusalatið. Svo hellti ég sítrónusmjörinu í litla skál og bar það fram með.

 

Eins og ég sagði: Makríll, og sérstaklega reyktur makríll, er hinn besti matur.

 

Þetta er ljómandi gott volgt en reyndar líka kalt og ef er afgangur er tilvalið að losa makrílinn sundur í flögur, blanda saman við salatið og borða kalt með brauði.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s