Hnetusmjör: Contains lots of peanuts

Ég var svo viss um að það yrði hellirigning í allan dag að ég var búin að plana rigningarsúpu. Mundi eftir að taka kjúklingabringu úr frysti í morgun og allt. En svo rigndi frekar lítið og nú er glampandi sól svo ég gerði enga súpu. Eða öllu heldur: ég hafði hana svo þykka að hún er eiginlega kássa. Eða millistig súpu og kássu. Það er minna rigningarlegt.

Rigningarsúpan mín átti semsagt að vera kjúklinga-sataysúpa með núðlum en varð frekar núðluréttur með sataysósu og kjúklingi. Það var ágætt líka.

Ég ætlaði eiginlega að nota bara tilbúið hnetusmjör í hana en þegar ég var að versla í Bónus í gær var ekkert til nema Euroshopper-hnetusmjör sem mér leist einhvernveginn ekki á og kostaði auk þess fimmhundruð krónur krukkan. Ég keypti í staðinn hálft kíló af ristuðum og söltuðum jarðhnetum á innan við fjögur hundruð og bjó það bara til sjálf. Það tekur 5-10 mínútur og er ekkert mál ef maður á matvinnsluvél.

Á næstum alveg tómri krukku af hnetusmjöri sem ég átti stendur að það innihaldi jarðhnetur (gefið mál), sykur, repju-, sólblóma- og sojabaunaolíu, kornsíróp , salt og eitthvað fleira. Á jarðhnetupokanum stendur að hann innihaldi jarðhnetur, jurtaolíu (óskilgreinda reyndar) og salt. Og svo stendur: May contain nuts. Ok, jarðhnetur eru reyndar ekki hnetur en …

Ég byrjaði á að taka matvinnsluvélina og hella úr jarðhnetupokanum (500 g) í hana. Svo setti ég hana af stað og lét hana ganga í svona mínútu. – Ég notaði ristaðar og saltaðar hnetur af því að ég fann ekki aðrar í Bónus í fljótu bragði en ef ég hefði verið með ,,hráar“ hnetur hefði ég byrjað á að léttrista þær í ofni með dálitlu salti. Það er reyndar alveg hægt að gera hnetusmjör úr óristuðum jarðhnetum en ristunin losar um olíurnar í hnetunum svo þær maukast betur og bragðið verður líka annað (og betra, finnst mér, en veit reyndar að það er smekksatriði).

Þá voru hneturnar orðnar grófmalaðar. Ég skóf aðeins niður hliðarnar og setti svo vélina aftur af stað.

 

Á meðan vélin gekk hellti ég svona 3 matskeiðum af jarðhnetuolíu saman við (það má nota einhverja bragðmilda olíu í staðinn). Svo má bæta aðeins meiri olíu við seinna ef hnetusmjörið er mjög þykkt.

Ég lét vélina ganga áfram og hellti svona 1 1/2 msk af akasíuhunangi út í. Það mætti líka nota annað hunang og það má nota minna eða meira, allt eftir smekk. Ef ég hefði verið með ósaltaðar hnetur hefði ég líka sett eitthvað af salti út í en þess þurfti semsagt ekki.

 

Nei, þetta er ekki alveg orðið nógu fínmalað. Ég lét vélina ganga áfram nokkra stund – ætli hún hafi ekki gengið svona 5-7 mínútur í allt.

En þarna er þetta komið. – Hnetusmjörið er frekar þykkt; ef þið viljið hafa það þynnra má halda áfram að þeyta olíu saman við, nokkrum matskeiðum í viðbót.

 

Ég setti hnetusmjörið svo í krukkur, þetta var ein alveg full 400 ml krukka og slatti í annarri. Þetta geymist í mánuð eða svo í kæli. Ef það er of þykkt þegar það er tekið úr kæli má velgja það í örbylgjuofni eða vatnsbaði eða bara láta það standa við stofuhita. Og svo ætla ég að setja miða á krukkuna: Inniheldur fullt af jarðhnetum.

Þetta er aðeins grófara en hnetusmjör úr búð en mér finnst það bragðbetra.

Ég notaði svo það sem var í litlu krukkunni í sataysósuna. En það kemur í sérstakri færslu.

5 comments

  1. Það er ekki mælt með að geyma heimagert hnetusmjör nema nokkra daga utan kælis því það inniheldur (yfirleitt) minna salt en búðahnetusmjör og engin rotvarnarefni. Það er líka hætt við að það skilji sig með tímanum (en þá mundi reyndar duga að hræra bara í því). Eins er ekki mælt með að búa til stóra skammta í einu.

  2. Alltaf jafn gaman að skoða uppskriftirnar þínar 🙂

    Sérstaklega eins og þessi – að fá upplýsingar um hvernig hægt sé að gera sitt eigi hnetusmjör og komast þannig frá því að kaupa þau sem eru útí búð og innihalda oftar en ekki þvilikt magn af rotvarnar efnum og öðrum óþægindum

  3. Takk.

    Já, það er nefnilega svo margt sem maður er að kaupa en er ótrúlega lítið mál að gera heima hjá sér. Ekki endilega ódýrara -þótt oft sé það líka – en maður veit þá allavega hvað er í því.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s