Súpa í húfulitum

Haust og rigning. Ég náttúrlega gleymdi regnhlíf þegar ég fór út í morgun, kom aftur heim (ekki reyndar til að sækja regnhlífina, skipti um (blautan) jakka og (blauta) skó, fór aftur út regnhlífarlaus og kom aftur heim seinnipartinn í blautum jakka og blautum skóm. Það getur vel verið að það hafi stytt upp einhverntíma í dag en það fór þá framhjá mér (ég vinn hvergi nærri glugga).

Svonalagað þýðir bara eitt.

Súpa.

Ég var reyndar með ákveðna súpu í huga en sú kallaði á að ég tæki kjúklingabringu úr frysti og því gleymdi ég náttúrlega. Svo að ef rignir áfram verður hún kannski í matinn á morgun (ef ég man eftir að taka bringuna úr frysti sko). En ég athugaði hvað ég átti og þarna var nóg hráefni í eðalsúpu. Kartöflu- og vorlaukssúpu með þrílitu útáláti.

Hljómar undarlega? Neinei.

 

Ég tók tvær bökunarkartöflur, flysjaði þær og skar þær í frekar litla bita. Ég notaði grænu blöðin af nokkrum vorlaukum í annað í gær og ákvað að nota hvítu og ljósgrænu blaðhlutana í súpuna en annars hefði ég kannski bara notað blaðlauk. Svo tók ég reyndar tvo heila vorlauka, geymdi grænu blöðin en skar hitt niður.

Ég setti hvorttveggja í pott ásamt 750 ml af vatni, einu lárviðarlaufi, hálfri teskeið af þurrkuðu timjani, pipar og salti. Það mætti alveg setja grænmetiskraft út í en mér finnst það óþarfi. Svo hitaði ég þetta að suðu og lét malla undir loki í 15 mínútur.

Þegar kartöflurnar voru orðnar meyrar slökkti ég undir pottinum og lét súpuna kólna í nokkrar mínútur en þá hellti ég henni í matvinnsluvélina og maukaði hana fínt. Svo hellti ég henni aftur í pottinn.

Ég hellti 150 ml af rjóma út í og hrærði. Það mætti líka nota mjólk en ég átti þennan rjóma til. Súpan á að vera þykk en ef maukið er of þykkt má bæta smávegis vatni út í (eða meiri rjóma eða mjólk). Ég smakkaði súpuna, bætti við pipar og salti – hún er betri ef hún er vel pipruð – og lét hana malla á mjög vægum hita í nokkrar mínútur.

Súpan er alveg ágæt svona og það má alveg setja punkt hér – kannski má segja að nú byrji spariútgáfan.

Á meðan súpan mallaði útbjó ég útálátið: Ég saxaði græna vorlaukinn sem eftir var, reif gróft niður svona 50 g af cheddarosti (það má alveg vera annar ostur en cheddarosturinn er bæði bragðmikill og hefur rétta litinn) og skar niður þrjár sneiðar af Serranoskinku. Það má auðvitað vera önnur hráskinka. Það mætti líka vera beikon sem þarf þá að steikja fyrst en mér fannst að beikonbragðið yrði of frekt í þessari súpu svo ég valdi hráskinkuna frekar.

Svo hellti ég súpunni í tarínu og stráði mestöllu útálátinu yfir. Skildi þó eftir smávegis og bar fram með í skál. (Það er samt óþarfi, það er bara til að skreyta diskinn ef útálátið blandast allt saman við súpuna svo að hún verður ekki nægilega litskrúðug og hugguleg.)

Hún er nú frekar hugguleg, er það ekki? Og svo er hún reyndar bara ansi hreint góð líka. Eða það finnst mér. Og svo átti ég ciabattabrauð frá í gær til að hafa með. Súpan er það matarmikil og þykk að það þarf ekki annan kvöldmat.

 

Svo breytist hún aðeins við það að standa í nokkrar mínútur því að cheddarosturinn byrjar að bráðna í hitanum og vorlaukurinn og skinkan ,,eldast“ líka dálítið.

Ég heklaði mér einu sinni húfu í þessum litum. Einhvernveginn held ég að ég mundi ekki ganga með þá húfu núna ef hún kæmi í leitirnar. En þetta eru ágætir súpulitir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s