Mitt daglega brauð

Ég hitti einkasoninn þegar við vorum bæði búin að vinna, við þurftum að spjalla aðeins saman og fórum á Bergsson og fengum okkur alveg ágæta kjúklingasúpu, svo ég ákvað að sleppa því að elda kvöldmat. – Svo var ég líka að fara að baka einar sex tegundir af múffum (þær síðustu eru í ofninum núna) svo ég hafði svosem annað að gera.

En eitthvað þurfti ég þó og það voru hæg heimatökin því eins og ég sagði frá í fyrradag bjó ég til deig þá og meirihlutinn af því var enn í ísskápnum. Svo ég ákvað að baka mér eitt ciabatta-brauð.

Image

Ég leit ofan í deigkrukkuna. Það fór vel um deigið þar en ég dýfði báðum höndum í hveiti, teygði mig ofan í krukkuna og sleit upp dálítinn bút af deiginu.

Image

Teygði hann og togaði og lagði á pítsuspaðann minn, sem ég var búin að strá maísmjöli á. – Það er ekkert alveg einfalt að meðhöndla svona blautt deig og í rauninni er það eitthvað sem maður lærir bara á smátt og smátt. Um að gera að dýfa höndunum í hveiti til skiptis á meðan og vera bara frekar fljótur. Og svo gerir ekkert til þótt brauðið sé ekki sérlega fallegt í laginu …

Ég lét það lyfta sér í 40 mínútur og hitaði á meðan ofninn í 240°C og leirdiskinn sem ég baka á með með (það má líka alveg nota bökunarplötu en pítsusteinn eða leirplatti er betri).

Image

Mig langaði í ídýfu með brauðinu – ekki hummus en eitthvað svipað. Ég opnaði dós af smjörbaunum sem ég átti í jarðskjálftabirgðunum og hellti vökvanum af þeim. Setti þær svo í litlu skálina sem fylgir með töfrasprotanum og tíndi til hvítlauk, basilíku, salt, pipar, kóríanderfræ, 3 msk af ólífuolíu, hálfa sítrónu og reykta papriku (má vera venjuleg).

Ég maukaði baunirnar, hvítlaukinn og basilíkuna gróft, hellti olíunni saman við og kryddaði með steyttu kóríanderfræi, nýmöluðum pipar og salti og maukaði þetta fínt.

Image

Svo kreisti ég safann úr sítrónunni út í og kryddaði með dálítilli reyktri papriku. Smakkaði maukið og bætti við ögn af pipar og salti og setti það svo í skál og skreytti með basilíkulaufi og nokkrum furuhnetum (en það var bara skraut og má sleppa).

Image

Nú var ofninn orðinn heitur og leirdiskurinn líka og ég renndi brauðinu yfir á hann af spaðanum (það má e.t.v. teygja það svolítið meira í leiðinni) og stráði ögn af hveiti á það. Svo hellti ég sjóðandi vatni í málmbakka sem ég setti á botninn á ofninum og bakaði brauðið á næstneðstu rim í um 22 mínútur.

Image

Ég tók brauðið út, setti það á grind og lét það kólna alveg áður en ég skar í það.

Image

Jújú, þetta er eins og það á að vera. Nema náttúrlega ef maður vill helst holulaust íslenskt bakarísbrauð með mjúkri skorpu.

Image

Og þarna er smjörbaunaídýfan komin.

Image

Dugir mér alveg sem kvöldsnarl.

8 comments

  1. Það er alltaf jafn skemmtilegt að lesa bloggfærslurnar þínar (og skondnu fyrirsagnirnar)! Þetta lítur út fyrir að vera afar ljúffengt og ég tæki sko þetta brauð fram yfir bakarísbrauð! 🙂

  2. mjög anægð með hvað þu ert dugleg að skrifa, svo skemmtilegt að lesa færslurnar þinar, kær kveðja fra Italiuhreppi

  3. Takk fyrir það. – Annars er ekki ólíklegt að færslurnar verði eitthvað strjálli í vetur, fyrst og fremst kannski vegna þess að það verður orðið of dimmt til að taka myndir þegar ég kem heim á virkum dögum (vil ekki nota flass).

  4. Hæhæ, ótrúlega girnilegt hjá þér – held ég fari beint heim og geri svona brauð mmm…

    en ég skil ekki af hverju þú settir sjóðandi vatn í málmbakka á botninn á ofninum?

    • Það er til að fylla ofninn af gufu og fá góða, stökka skorpu sem mér finnst eiginlega besti parturinn af svona brauði.

      En það er auðvitað ekki bráðnauðsynlegt og stundum vil ég mýkri skorpu og sleppi þessu þá alveg. Í gærkvöldi bakaði ég mér til dæmis fáeinar bollur úr deiginu og þá vildi ég hafa skorpuna mýkri og sleppti þessu.

  5. Frábært uppskrift:) Hvernig gerirðu pizzu með deiginu? Það sama bara teygir það eða dregurðu fram kökukeflið ?

    • Svolítið misjafnt. Venjulega teygi ég það bara og toga en stundum nota ég kökukeflið a.m.k. að hluta og þá þarf að strá töluverðu hveiti bæði á borðið og á deigið því það er svo lint að það klessist annars við keflið.

Skildu eftir svar við Kristín Theodóra Nielsen Hætta við svar