Ég rakst á mynd af súkkulaðiböku á netinu um daginn. Hún var ferlega girnileg. En það var ýmislegt í uppskriftinni sem ég var ekkert hrifin af eða taldi ekki henta svo að ég ákvað að gera hana ekki. Mig langaði samt til að gera súkkulaðiböku af massívara taginu svo að ég fletti í bókum og skoðaði fleiri uppskriftir. Fann ekkert sem mér fannst hitta alveg í mark svo að ég lagði súkkulaðibökuáformin á hilluna í bili.
Svo fór ég að hugsa um áðan hvort ég ætti að gera eitthvað gómsætt og gleðja vinnufélagana á morgun (þeir eiga það skilið, ég á frekar góða vinnufélaga). Og ég fór að hugsa um hvað ég ætti til – súkkulaði, jú, rjómi, jú, mascarponeostur, heslihnetur, jújú, jarðarber, jú … heyrðu, þetta var nú bara alveg hreint upplagt hráefni í súkkulaðiböku. Og best að hefjast handa á meðan enn væri nógu bjart til að taka myndir af öllu saman.
Ég kveikti á ofninum á 190°C og fínmalaði 100 g af heslihnetum í matvinnsluvélinni.
Svo bætti ég við 150 g af hveiti, 1 msk af sykri, svolitlu salti og 125 af köldu smjöri, skornu í litla bita. Lét vélina ganga þar til þetta var allt vel samlagað og bætti smátt og smátt við ísköldu vatni (2-3 matskeiðum alls) þar til auðvelt var að hnoða deigið og fletja það út.
Svo flatti ég deigið frekar þunnt út á hveitistráðu borði, þar til það var orðið nokkru stærra um sig en formið sem ég ætlaði að nota (sem var reyndar fremur lítið). Það er langbest að nota lausbotna bökuform ef það er til.
Það er auðveldast að færa deigið yfir í formið með því að vefja því lauslega utan um kökukeflið og leggja það svo yfir formið og þrýsta því mjög létt niður út við barmana.
Svo eru kantarnir snyrtir og það er einfaldast að gera með því að renna bara kökukeflinu yfir og láta þrýstinginn af því sjá um að skera umframdeigið af. Ég hnoðaði afskurðinn svo í kúlu og notaði hann í smákökur, sjá seinna.
Svo klippti ég út hring úr bökunarpappír og setti yfir deigið og svo setti ég farg þar ofan á – þetta eru þartilgerðar leirkúlur en það má alveg eins nota þurrkaðar baunir eða hrísgrjón. Setti þetta svo í ofninn (neðstu rim) og bakaði í 15 mínútur.
Þá tók ég bökuskelina út, lyfti pappírnum með farginu úr henni, setti hana svo aftur í ofninn og bakaði hana í fimm mínútur í viðbót. Tók hana svo út aftur og lét kólna í forminu. Á meðan gerði ég fyllinguna.
Ég byrjaði á að bræða 300 g af suðusúkkulaði í vatnsbaði. Eða í tvöföldum potti í þessu tilviki. Sonur minn gaf mér þennan pott fyrir mörgum árum og ég elska hann. Það er bara einn smágalli: Hann er fyrir örvhenta. Ég er löngu búin að læra á að nota hann þrátt fyrir það – en ef þið vitið um einhvern örvhentan sem á svona potti fyrir rétthenta, þá er ég til í að skipta …
Svo setti ég 250 g af mascarponeosti, 100 ml af rjóma, 4 msk af púðursykri, 3 msk af ljósu sírópi og 1 tsk af vanilluessens í matvinnsluvélina og þeytti saman þar til blandan var alveg slétt.
Svo hellti ég bráðnu súkkulaðinu út í og þeytti saman við.
Og hellti blöndunni í bökuskelina og sléttaði úr henni. Bakan gæti svosem alveg verið svona. Ekkert að því.
En ég átti þessi jarðarber sem þurfti að nota … Svo fór bakan í kæli og verður þar til morguns.
Annars var ég að átta mig á að planið mitt um að gera mig enn vinsælli hjá vinnufélögunum mun örugglega klikka. Það eru svo margir þeirra í aðhaldi og verða örugglega bara fúlir ef ég mæti með bökuna á morgun. Svo nú er spurning hvort ég geri þá bara fúla eða hvort ég fer bara ekkert með bökuna og sit ein að henni.
Þú ert heimsins besti vinnufélagi og þessi baka var unaðsleg!
Æ, takk fyrir það. En spurning hvort ég þarf ekki að sukkjafna aðeins og koma með eitthvað rosalega heilsusamlegt og hitaeiningasnautt næst …
Ef vinnufélagar þínir eru í aðhaldi þá býð ég mig fram til að borða það sem þeir vilja ekki 😉
Takk, en þeir ákváðu allir sem einn að fórna sér fyrir mig …