Ég bakaði brauð í dag eins og ég geri reyndar mjög gjarna því ég á oftar en ekki deig í krukku í ísskápnum. Ákvað að fá mér bara samloku í kvöldmatinn og þar sem ég átti kjúklingabringu varð úr þessu kjúklingasamloka. Ekki alveg í Sómastílnum þó.
Ég eignaðist bókina Artisan Bread in Five Minutes a Day eftir Jeff Herzberg og Zoe Francois fyrir þremur og hálfu ári og hún gjörbreytti öllum brauðbakstri hjá mér. Eftir að hafa lesið um aðferðir þeirra fór ég að búa til lint, óhnoðað gerdeig og geyma í krukku í kæli – það geymist í allt að tvær vikur (ég hef samt aldrei átt það svo lengi því ég baka svo oft) og þetta er mjög hentugt fyrir einbúa því maður getur bara tekið smáskammt af tilbúnu deigi og bakað smábrauð – eða eina eða tvær bollur ef því er að skipta. Aðferðinni lýsti ég hér og hef fáu breytt síðan.
Ég hafði einmitt klárað síðasta skammt í fyrradag og átti svo ekki hveiti í gærmorgun svo það var ekki fyrr en í dag sem ég gerði nýjan skammt – 750 ml vatn, 1 msk ger, um 1 kg af brauðhveiti og rúmlega matskeið af salti. Annað var það ekki í þetta skipti en ég blanda hveitið stundum með heilhveiti, spelti eða öðru korni og fræjum. Mér finnst svo skemmtilegt að sjá glútenþráðamyndunina í deiginu eftir að maður slær það niður í fyrsta skipti – hér er það eftir tveggja tíma lyftingu við stofuhita.
Ég stráði maísmjöli (polentu) á pítsuspaðann minn (það má líka nota bretti eða aðra plötu), dýfði báðum höndum vel í hveiti, tók svona kannski þriðjung af deiginu og mótaði aflangt brauð – deigið er mjög lint og klesst og það er ekki hægt að taka mikið á því svo brauðið verður kannski ekkert rosalega fallegt.
Krukkuna með afganginum af deiginu setti ég í ísskápinn en lagði fyrst plastdisk lauslega yfir opið. Ég baka svo úr þessu deigi á næstu dögum.
Ég lét deigið lyfta sér í um 40 mínútur. Eftir 20 mínútur kveikt ég á ofninum og stillti á 225¨. Teygði mig svo upp á skáp eftir leirdiskinum sem ég nota fyrir pítsustein og stakk honum í ofninn til að hita hann. Rétt áður en brauðið fór inn hitaði ég svo vatn að suðu og hellti í lítinn málmbakka sem ég hafði sett á botninn á ofninum. Þetta er til að fá gufu í ofninn og þar með góða skorpu á brauðið.
Venjulega sker ég skurði í brauðið með beittum hníf en í þetta skipti ákvað ég að klippa ofan í það með skærum. Svo penslaði ég það með dálitlu vatni.
Ég tók svo heitan leirdiskinn úr ofninum og renndi brauðinu af spaðanum yfir á hann. Það er ekkert mál út af maísmjölinu. Svo setti ég brauðið í ofninn og bakaði það í um 25 mínútur.
Tók það út, bankaði með hnúunum í botninn til að fullvissa mig um að það væri tilbúið og lét það hálfkólna á grind áður en ég skar fyrstu sneiðina af því. Ekki skera í það um leið og það kemur úr ofninum þótt það sé freistandi.
Svo var það kjúklingurinn: Ég lagði bringuna flata á bretti, lagði lófann ofan á og skar svo inn í hliðina á henni með beittum hníf, næstum (en ekki alveg) alla leið.
Svo opnaði ég bringuna og kryddaði hana með pipar, salti, reyktri papriku og óreganói. Hitaði dálitla olíu á pönnu, setti bringuna á hana og steikti hana í fjórar mínútur eða svo.
Þá sneri ég bringunni og steikti hana álíka lengi á hinni hliðinni (fer þó eftir þykktinni). Um leið setti ég tvær brauðsneiðar á pönnuna (þurrkaði hana létt með eldhúsrúllu fyrst) og ristaði þær létt.
Svo tók ég sneiðarnar af pönnunni, setti aðra þeirra á disk, setti nokkur salatblöð ofan á og skar nokkrar þunnar sneiðar af fetaosti og raðaði ofan á. Svo stráði ég dálitlu óvenjulegu kryddi yfir – þetta er blanda af kakó og chili, sem ég keypti í Hagkaup í sumar og hef notað af og til þegar mér finnst hún eiga við. En það má sleppa þessu eða nota eitthvað annað.
Svo lagði ég kjúklingabringuna ofan á, dreifði nokkrum basilíkublöðum yfir og setti hina brauðsneiðina ofan á. Nei, þetta er ekki samloka til að taka bita af; hún kallar á hníf og gaffal.
Þetta var nú alveg hreint ágætis samloka.
Fantalega flott. Ég man eftir brauðuppskrftinni, stal henni skammlaust og hef notað hana síðan með fínum árangri. En var ekki einn tespónn af sykri úti í ylvolga gervatnið nauðsyn, til að ‘kikka’ inn gerjuninni, & saltið bara inn við síðustu hnoðun ?
Ekki í þessari uppskrift, nei, enda er brauðið ekki hnoðað. Hvorttveggja ætti frekar við hefðbundið, hnoðað gerbrauð – þar er gott að setja örlítinn sykur í upphafi, bæði til aö örva gerjunina og gera skorpuna betri. Saltið hægir líka á lyftingunni og þess vegna setja sumir það ekki út í fyrr en í seinni/seinustu hnoðun en ég hef nú ekki gert það, finnst það ekki alltaf dreifast nógu jafnt.
Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef glaðst yfir þessari aðferð síðan þú bloggaðir um hana, Nanna, hún er algjör snilld. Það er hrikalega þægilegt að eiga deigið tiltækt og geta tekið skyndiákvörðun um bakstur og svo finnst mér finnst líka svo gaman að taka af deiginu smám saman í bakstur og finna hvernig það breytist eftir því sem á líður, brauðið verður aldrei alveg eins. Ég á einmitt eiginlega alltaf deig í ísskápnum og get vottað að það geymist a.m.k. í tvær vikur, jafnvel lengur, sérstaklega hreint hveitideig, mér hefur fundist koma betur út að baka innan viku þegar ég er með gróft mjöl í deiginu. Einhvern tíma gleymdi ég deigi í ísskápnum og ætli það hafi ekki verið orðið a.m.k. þriggja vikna þegar ég fann það aftur. Það var ekki sérlega fallegt en ég ákvað að prófa samt að baka það og brauðið varð stórfínt.
Ég nota annars oft minna ger en þú gefur upp og það virkar prýðilega, deigið þarf þá kannski bara eitthvað lengri tíma til að hefast á eldhúsbekknum.
Já, ég hef stundum notað minna ger líka en eins og ég hef oft sagt skiptir germagnið ekki svo miklu því gerið fjölgar sér jú … Þetta er virkilega góð aðferð í öllum sínum einfaldleika og ég mæli eindregið með bók þeirra – ég hef sjaldan ef nokkurntíma séð matreiðslubók fá jafneinróma jákvæða umfjöllun á amazon: http://www.amazon.com/Artisan-Bread-Five-Minutes-Revolutionizes/dp/0312362919
Svo eru þau líka með skemmtilegt og fróðlegt blogg: http://www.artisanbreadinfive.com/
[…] byrjaði á að baka brauð úr deigi sem ég átti í ísskápnum – þetta er deig sem er brauðhveiti og heilhveiti til helminga. Ég mótaði tvö aflöng […]
[…] því líður, þá bakaði ég tvenns konar brauð í gær en þó bara úr einu deigi. Þetta var sama grunndeigið og ég hef nefnt hér nokkrum sinnum áður og er einfaldlega bara vatn, ger, hveiti og salt, en ég […]
[…] ég bakaði semsagt brauð. Þetta er ekki ísskápsbrauð eins og algengast er að ég baki (þótt það mætti svosem alveg geyma deigið), heldur gróft […]
[…] hef oft áður talað um hvað það er þægilegt að eiga yfirleitt brauðdeig í krukku í ísskápnum. Oftast tek ég það út 30-60 mínútum áður en ég baka það og læt það […]
[…] byrjaði á að gera grunndeig eins og ég hef oft lýst áður, til dæmis hér, en bara hálfan skammt, notaði heilhveiti og brauðhveiti til helminga og bætti við 150 g af […]
[…] byrjaði á að gera grunndeig eins og ég hef oft lýst áður, til dæmis hér, en bara hálfan skammt, notaði heilhveiti og brauðhveiti til helminga og bætti við 150 g af […]