Nanna gerist grænmetisæta (en bara smástund)

Ég áttaði mig á því að það hefur verið eitthvað lítið – eða nánast ekkert – um grænmetisrétti hér. Það er ekki vegna þess að ég eldi þá ekki, það kemur alveg fyrir – en hitt er vissulega algengara að ég eldi rétti sem eru að uppistöðu grænmeti og/eða kornmeti en svo laumast smávegis af kjöti eða fiski út í þá. Ég er líklega bara svo mikil kjötæta í eðli mínu.

En það kemur líka fyrir að ég elda eitthvað sem kemur mér til að hugsa ,,hmm, ég gæti nú alveg hugsað mér að gerast grænmetisæta …“ en það stendur yfirleitt stutt.

Einn slíkan rétt eldaði ég mér í hádegismatinn áðan. Ég elda nú ekki alltaf hádegismat á sunnudögum – og ef ég geri það er það oftar en ekki úr afgöngum, sem er reyndar ágætt – en núna vildi svo til að ég var í skapi til að gera eitthvað alveg frá grunni.

Og ég átti einmitt þessa álitlegu portobellosveppi. Fylltir portobellosveppir eru upplagður hádegisverður á sunnudegi en þeir gætu líka vel verið aðalréttur í matarboði, kannski með krydduðum hrísgrjónum, grænu salati og nýbökuðu brauði.

Ég byrjaði á hita ofninn í 200°C og skar svo nokkra vel þroskaða kirsiberjatómata í tvennt og steikti þá í ögn af ólífuolíu á lítilli pönnu við góðan hita. Setti þá á pönnuna með hýðið niður til að ekki rynni úr þeim of mikill safi áður en þeir færu að steikjast að ráði.

Image

Á meðan tíndi ég til tvo portobello-sveppi, einn vorlauk, einn hvítlauksgeira, eina eða tvær basilíkugreinar og smábita af rauðri papriku. Skar vorlaukinn og paprikuna fremur smátt og hvítlauksgeirann smærra. Ég tók líka þennan smábita af stilk sem maður fær með sveppunum úr þeim og saxaði smátt.

Þegar tómatarnir voru farnir að mýkjast setti ég hvíta hlutann af vorlauknum og hvítlaukinn á pönnuna, ásamt söxuðu sveppastilkunum og paprikunni. Kryddaði með pipar og salti, lækkaði hitann og lét krauma í nokkrar mínútur, þar til þetta var orðið að grófgerðu mauki.

Image

Á meðan setti ég sveppina í lítið, eldfast mót, hellti svona matskeið af ólífuolíu yfir hvorn og dreifði úr henni með fingurgómunum til að þekja þá alveg. Svo sneri ég þeim við og kryddaði með ögn af pipar og salti.

Ég saxaði nokkur basilíkublöð og setti í hvorn svepp um sig. Svo skipti ég tómatmaukinu jafnt á sveppina – það voru svona tvær kúfaðar skeiðar á hvorn, sem passaði ágætlega.

Image

Ofan á tómatmaukið setti ég svo mulinn fetaost (kubb sem var svona 3×3 cm eða svo) og græna hlutann af vorlauknum og nokkur söxuð basilíkublöð. Svo muldi ég eina tvíböku og stráði yfir (hefði líka getað verið þurrt brauð) og reif að lokum niður dálítinn parmesanost og setti ofan á.

Image

Svo bakaði ég þetta í miðjum ofninum í um 15 mínútur.

Eins og ég sagði, svona kræsingar gætu næstum gert mann að grænmetisætu.

Næstum.

5 comments

  1. Þessi réttur lýtur svaka vel út – og alveg til þess fallinn að gera mann að grænmetisætu í smá stund.

    Annars vildi ég bara segja að bloggið þitt er æðisleg lesning og uppskriftirnar hver öðrum girnilegri

  2. Takk fyrir það. Já, þetta var alveg ljómandi – og ég er nú alltaf hrifnust af grænmetisréttum sem eru ekki að þykjast vera kjöt …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s