Kvöldmaturinn minn í kvöld var líklega ekki fyrir alla. En það er eins gott að barnabörnin mín sjái þetta ekki, þá er ég í vondum málum … (Krakkar mínir, það er afgangur, þið verðið bara að koma í heimsókn á morgun.)
Ég var í Kolaportinu á sunnudaginn og sá þar saltaðar nautatungur. Eða þær voru merktar þannig en voru það litlar (550-700 g stykkið) að líklega voru þær nær því að vera kálfatungur. Mér þykja tungur af flestu tagi ákaflega góðar. Uppáhaldsáleggið mitt þegar ég var krakki var reykt folaldatunga en hana hef ég ekki fengið í 45 ár eða svo. (Ef einhver veit hvar maður getur fengið reyktar folaldatungur væri ég til í að vita af því.) Þegar ég var í sjötta bekk MA og hafði mitt eigið eldhús í fyrsta skipti var sunnudagsmaturinn stundum ungkálfatunga, en þær fengust þá oft í kjörbúðum KEA. Svínatungu hef ég keypt í Kolaportinu og gert sultu úr henni (hér er ég að tala um hlaupsultu en ekki neitt svipað og beikonsultuna). Og söltuð nautatunga er fastur liður á Þorláksmessuhlaðborðinu og næstum það eina af kræsingunum þar sem barnabörnin borða. Allavega það eldra.
Ég keypti tvær tungur en það var ekki fyrr en núna sem ég kom mér að því að gera eitthvað við þær. Ég ætlaði alltaf að gera sultu úr annarri en ákvað að hafa hina í kvöldmatinn. Ég sauð þær þó saman.
Ég skolaði tungurnar úr köldu vatni og setti þær í pott með 1/2 lauk, nokkrum timjangreinum, einni gulrót í sneiðum, einum söxuðum sellerístilk, tveimur lárviðarlaufum og hálfri teskeið af piparkornum. Bætti við köldu vatni svo rétt flaut yfir, hitaði að suðu og lét svo malla undir loki við mjög vægan hita í tæpa tvo tíma (stærri tungur þurfa 2 1/2-3 klst.).
Það má prófa hvort tungan er fullsoðin með því að stinga prjóni í hana; ef hann rennur í gegnum hana nánast eins og smjör er hún tilbúin.
Svo tók ég tungurnar upp úr (geyma soðið!) og lét þær kólna í svona tíu – fimmtán mínútur, þar til hægt var að taka á þeim og flá þær. Skinnið getur veriið dálítið fast á hliðunum og þar sem það er þynnst og þá þarf hníf til að losa það en þar sem það er þykkara er yfirleitt hægt að fletta því af. Það er líka oft sérlega fast undir tungubroddinum.
Svo skar ég aðra tunguna í frekar litla bita og saxaði niður grænu blöðin af tveimur vorlaukum, blöð af einum sellerístöngli (mætti líka nota steinselju, eða sleppa bara) og gulrótina sem ég hafði soðið með tungunum. Tíndi líka blöðin af 2-3 timjangreinum. Svo tók ég hæfilega stórt form, klæddi það innan með plastfilmu og setti tunguna og grænmetið í það í lögum. – Ef ekki á að hvolfa sultunni úr forminu má sleppa plastfilmunni.
Ég lagði fjögur matarlímsblöð í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur. Síaði soðið af tungunum, mældi 400 ml og hitaði í potti – ekki að suðu, bara nóg til að bræða matarlímið í því. Svo hellti ég soðinu yfir tungubitana, breiddi plastfilmu yfir og setti í kæli til morguns. Ég var svolítið efins um hvað ég ætti að hafa hlaupið stíft, þóttist vita að þetta mundi duga til að hægt væri að hvolfa því úr en kannski ekki til að unnt yrði að skera það í sneiðar. En ég er ekki hrifin af mjög stífu hlaupi.
En svo var það kvöldmaturinn.
ohh nautatunga! verð að fara að fjárfesta í einni. Verst þær eru alltaf spændar upp á einum til tveimur dögum hér heima.
Flatkökur með tungu eru ekkert síðri en með hangikjöti. Buðum upp á það í veislu fyrir nokkrum árum, svipurinn á vinkonu elstu dótturinnar (gikki) var óborganlegur þegar henni var sagt hvað hún hefði verið að borða 😀
Unaður. Takk fyrir þetta. Mér finnst þú æði. Kveðja Berglind Björk Jónasdóttir..
Já, ef er afgangur af Þorláksmessutungunni (sem er nú sjaldan mikið, og þó eru þær alltaf tvær núorðið) narta ég í hann yfir jólin með flatbrauði eða rúgbrauði. Miklu betra en eitthvert sætabrauð.