Múffur í hvert mál

Það er verið að dreifa nýju bókinni minni í dag. Hún heitir eins og ég hef áður sagt frá Múffur í hvert mál og er – já, hún er um múffur, hugsa sér. Hollar, minna hollar, frekar óhollar, sætar (en ekki dísætar), ósætar, morgunverðarmúffur, nestismúffur, hádegis- og brönsmúffur, kaffiboðsmúffur, kvöldverðarmúffur og múffur fyrir svefninn (með grænu tei, örugglega mjög róandi). Já, og múffur fyrir hund og kött.

En engar hráfæðismúffur, sorrí. Bara hráskinkumúffur.

Image

Þetta er hún semsagt. Alexandra Bühl hannaði útlitið og ég er mjög ánægð með það.

Bara svo þið vitið það: Það er ekki ein einasta múffa með kremi í bókinni, enda eru þetta múffur en ekki bollakökur (já, það er munur, ég fer nánar út í það í formálanum).

Í tilefni af dreifingunni bakaði ég múffur núna í morgunsárið og fór með í vinnuna; ákvað að baka ósætar múffur og hráskinkumúffurnar urðu einmitt fyrir valinu. Þær eru mjög auðveldar (eins og reyndar allar múffurnar í bókinni, múffubakstur er um það bil einfaldasti bakstur sem hægt er að hugsa sér).

Þær eru tiltölulega hollar en ég ákvað að gera smátilraun á vinnufélögunum og gera þær enn hollari með því að sleppa allri feiti (annars eru 75 ml af olíu í uppskriftinni). Sko, ég get ekki einu sinni farið eftir mínum eigin uppskriftum … Það virkaði alveg. Deigið varð dálítið þykkt en ég setti 1-2 matskeiðum meira af mjólk en átti að vera. Þetta svínvirkaði og féll í góðan jarðveg.

Þetta er einmitt einn kosturinn við múffubakstur, það er svo auðvelt að breyta uppskriftunum og spinna út frá þeim.

Image

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 190°C. Svo reif ég 100 g af cheddarosti (má vera sterkur gouda eða annar frekar bragðmikill ostur) á grófu rifjárni. Tók eitt bréf af hráskinku (um 80 g) og tók eina sneið frá en skar og reif hinar smátt niður. Saxaði líka tvo vorlauka og fjallasteinselju sem ég átti (má sleppa steinseljunni eða nota aðrar kryddjurtir ef þær eru til, t.d. basilíku).

Image

Svo setti ég ostinn, 200 g af kotasælu, 150 ml af mjólk og 1 egg í skál og hrærði saman með sleikju. Þarna hefðu líka átt að koma 75 ml af olíu en henni sleppti ég eins og áður segir.

ImageS

Svo blandaði ég steinseljunni saman við. Þetta var lítil lófafylli – ef ég hefði notað basilíku hefði það verið eitthvað minna.

Image

Í annarri skál blandaði ég svo saman 250 g af hveiti, 2 1/2 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af salti og 1/4 tsk af pipar.

Image

Setti þetta saman við ,,blautefnin“ ásamt hráskinku og vorlauk og blandaði með sleikju. Eins og ég sagði varð þetta mjög þykkt af því að ég sleppti olíunni svo ég bætti við smáskvettu af mjólk. En  þið farið náttúrlega eftir uppskriftinni og notið olíu og þá þarf þess ekki …

Image

Ekki reyna að baka múffurnar í pappírsformum, síst af öllu ef olíunni er sleppt. Ég nota málmform og fóðra þau með sílikonformum eða bökunarpappír (þá klippir maður bara ferninga eða hringi úr bökunarpappír og setur einn í hverja holu í málmforminu). Og ef þið eigið málmform sem er í alvöru viðloðunarfrítt er auðvitað hægt að nota það eintómt. Mín eru löngu hætt að vera það, enda mikið notuð.

Deigið passar í 12 form. – Svo reif ég niður sneiðina sem ég hafði tekið frá og setti einn bita ofan á hverja múffu.

Image

Bakaði þær á næstefstu rim í 20 mínútur. Lét þær kólna í fáeinar mínútur í sílikonformunum og tók þær svo úr (óþarft ef notaður er bökunarpappír, þá má bara geyma þær í pappírnum).

Image

Fór svo með þær volgar í vinnuna.

Bókin er alltsvo komin í búðir og í henni eru múffur til að hafa við flest tækifæri.

12 comments

  1. Heppnir þeir sem eru vinnufélagar þínir! 🙂 Til hamingju með þessa glæsilegu bók, ég hlakka til að eignast hana!

    • Já og eitt enn. Ég sé að þú ert með silikonform ofan í sjálfu múffuforminu, er það nauðsynlegt?

  2. Takk fyrir það.

    Bara til áréttingar: Nei, það er ekki nauðsynlegt að hafa sílikonform ofan í málmforminu nema það sé orðið gamalt eins og mín og múffurnar séu farnar að festast í því. Og svo mætti auðvitað líka nota bökunarpappír.

    Ef maður er að baka múffur sem hætta er á að klessist mikið eða brenni við formið (t.d. með karamellu, súkkulaibitum eða ávöxtum eins og bláberjum) er alltaf betra að klæða málmformin innan, þótt þau eigi að vera viðloðunarfrí.

  3. Jújú, auðvitað. Ég nota pappírsform fyrir flestar sætar múffur, nema helst ef þær innihalda mikið af ávöxtum (þeir vilja klessast við pappírsformin) og sumar ósætar líka – það fer eftir innihaldinu.

  4. Mig langar hrikalega mikið í þessa bók (og væri sko meira en til í að vera vinnufélagi þinn líka 😉 )
    Þetta lítur hrikalega vel út – og innilega til hamingju með bókina!

  5. Ég bakaði þessa snilld í gær, takk fyrir uppskriftina, ég set bókina á jólagjafaóskalistann. Ég fann reyndar ekki hráskinku í búðinni (og var pínu hrædd um að hún yrði dýr þannig að ég leitaði ekki vel) og keypti því bara eitt bréf merkt „reykt skinka“, svona skörinni ofar brauðskinku. Það fór pínu illa í OCD-ið mitt að það stæði ekki nákvæmlega hvað laukurinn væri þungur (því sá sem ég var að rækta á svölunum var frekar aumingjalegur) eða steinseljan en ég tók á stóra mínum og slumpaði, bætti smá graslauk við og allt fór vel. Ég notaði olíuna og svo setti ég heilhveiti til helminga við venjulegt hveiti.

    Gaf sængurkonu múffurnar í bökunarpappírnum en hitt borðuðum við hjónin, börnin voru ekki spennt fyrir þessu en við fullorðnu gefum toppeinkunn 🙂

  6. Gaman að heyra af því. Eins og ég er alltaf að segja er einn kosturinn við múffubakstur að það er svo auðvelt að breyta flestum uppskriftunum, bara eftir því hvað maður á til, tímir að kaupa eða langar í … Ég skil alveg þetta með vorlaukinn en málið er að ég slumpa alltaf á svonalagað sjálf og nota gjarna bara þær kryddjurtir sem ég á hverju sinni.

  7. Sæl Nanna og takk fyrir skemmtilega sidu og godar bækur. Mer list vel a tessar muffur og langar til ad profa. Hvad væri best ad nota i stadin fyrir kotasælu? Er i Norge og tar er til cottage cheese sem ad gæti verid tad sama og kotasæla og svo eitthvad sem heitir Kesam.
    Kvedja Inga Kjartans.

Skildu eftir svar við Inga Kjartansdottir Hætta við svar