Sit hérna heima í mínu síðbúna sumarfríi og það er sól þótt það sé ekkert sérlega hlýtt og allt í einu langaði mig svo í ís í hádegismatinn. Svoleiðis getur maður leyft sér í sumarfríi. Allavega geri ég það. Og ég átti einmitt dálítinn vanilluís í frysti.
En mig langaði í eitthvað út á hann. Ekki ávexti eða ávaxtasósu, ekki súkkulaði (merkilegt nokk), ekki karamellusósu … en kannski eitthvað með karamellubragði. Og allt í einu vissi ég nákvæmlega hvað mig langaði í: Frauðkaramellu. Sem ég hef ekki gert í mörg ár.
Reyndar gæti það tengst því að í gær fékk ég tölvupóst um að nú ætlaði árgangur 1957 af Króknum að fara að hittast og þá fór ég að rifja upp barnaskólagöngu mína (sem var stutt, ég var að verða 11 ára þegar ég byrjaði í skóla) og mundi meðal annars eftir öllum karamellunum sem við stelpurnar vorum alltaf að gera. Ætli krakkar stundi karamellugerð mikið nú til dags? En við gerðum reyndar aldrei neinar frauðkaramellur, ég kynntist þeim ekki fyrr en löngu seinna.
Svo að ég ákvað að gera frauðkaramellu. Var reyndar ekkert að vanda mig sérstaklega því það átti hvort eð er að mola hana smátt; eiginlega ætti hún að vera þynnri og með stærri holum, þá er hún flottari. En þetta dugði til þess sem átti að nota það.
Ég byrjaði á að vigta 200 g af sykri, gerði svo dálitla laut í miðjuna (ekki ofan að botni á skálinni þó) og hellti ljósu sírópi í hana þar til vigtin sýndi 275 grömm. Með því að gera þetta svona er mjög auðvelt að vigta þessi 75 g af sírópi sem þarf því það kemst aldrei í snertingu við skálina og klessist þar af leiðandi ekkert við hana.
Það má líka nota hunang í staðinn fyrir ljóst síróp.
Setti þetta í pott ásamt 3 matskeiðum af vatni og hitaði. Það má ekki hræra í þesu en ég velti pottinum fram og aftur við og við þar til sykurinn var uppleystur. Svo lét ég þetta sjóða á fremur vægum hita. Hrærði aldrei en var með glas af köldu vatni og pensil hjá mér og ef sykurkristallar hefðu farið að myndast innan á hliðum pottsins hefði ég penslað þær með vatni, alveg niður að yfirborði sykurlagarins, til að losna við kristallana. En það gerðist nú ekki.
Ég tók til það sem þarf að hafa tilbúið: form klætt með bökunarpappír (ef ég hefði viljað hafa karamelluna þunna hefði ég bara breitt pappír á bökunarplötu, sykurhitamæli (mjög gagnlegur en ekki alveg bráðnauðsynlegur), pískur og 2 teskeiðar af matarsóda.
Ég setti sykurhitamælinn í pottinn og sauð karamelluna við fremur vægan hita. – Þessi sykurhitamælir er gamall og traustur en orðinn nokkuð ellilegur, enda notaður bæði í sykur og djúpsteikingarfeiti. Ég átti annan sem var bara fyrir sykursuðu en hann var úr gleri og brotnaði. Þyrfti líklega að fara að fjárfesta í nýjum.)
Svo sauð ég karamelluna þangað til mælirinn sýndi 150°C (eða 151°C, sýnist mér þarna …). Ef ekki er notaður sykurhitamælir þarf að vera með ískalt vatn í glasi og prófa karamelluna með því að taka örlítið af henni í skeið og láta drjúpa í glasið; ef myndast kúla sem flýtur upp er hitastigið rétt.) Allavega er um að gera að taka pottinn strax af hitanum þegar þessu stigi er náð …
… skella matarsódanum út í og byrja strax að hræra rösklega með pískinum, þar til hann hefur blandast vel saman við. En ekki hræra of lengi (ég gerði það reyndar, þess vegna eru holurnar í karamellunni ekki stærri). Karamellan freyðir mikið þegar matarsódinn kemur saman við en það er einmitt það sem hún á að gera.
Á þessu stigi má líka setja ýmislegt út í karamelluna, til dæmis jarðhnetur eða aðrar hnetur.
Svo hellti ég þessu strax í formið. Ekki skafa of vandlega innan úr pottinum í formið og ekki fara að slétta yfirborðið með sleikju eða neitt slíkt. Lautin sem er þarna í karamelluna er af því að ég rak óvart annað eyrað á pottinum í yfirborðið.
Svo þarf hún bara að kólna – það tekur ekki langan tíma en ef maður er óþolinmóður má setja formið í kæli – og síðan má hvolfa henni úr forminu og brjóta hana í bita.
Svona. Það er auðvitað hægt að borða þetta sem nammi en þetta er náttúrlega nærri hreinn sykur – vissulega með karamellubragði ..
… svo að ég tók minn sérlega karamelluhamar, sem mér áskotnaðist óvart fyrir mörgum árum (það má vel nota önnur verkfæri ef maður á ekki sérlegan karamelluhamar) og braut hluta af karamellunni frekar smátt.
Þessi fyrirsögn hefði getað verið bókarheiti á áttunda áratugnum eða svo.
Þú segir nokkuð – ég fór að hugsa um hvort það hefði verið glæpasaga en karamelluhamarinn er varla nógu burðugur til að geta verið morðvopn …