Fiskur er alvöru skyndibiti

Ég var ekki mikið fyrir steinbít þegar ég var yngri fremur en reyndar annan fisk (sveitastelpa, fiskurinn kom með mjólkurbílnum þá sjaldan hann var á borðum og var kannski ekki alveg glænýr) en nú er hann einn af mínum uppáhaldsfiskum.

Steinbíturinn er nú ekki beint svipfríður fiskur og nöfn hans á ýmsum tungumálum eru í samræmi við það, úlfafiskur (æ, nú móðgaði ég dóttursoninn), sædjöfull, lögfræðingafiskur … en það endurspeglast ekki í bragðinu, sem er milt og ljúft. Og hann er nú yfirlett ekki seldur með sínum ljóta haus svo maður sleppur við að horfa framaní hann.

Ég rak augun í steinbítsflök í fiskborðinu í Nóatúni áðan; þau voru þykk og stór og ég keypti bita sem var tæp 350 grömm. Keypti líka vorlauk og kartöflur en þóttist viss um að ég ætti annað sem þyrfti í góða máltíð heima. Það reyndist rétt.

Ég byrjaði reyndar á að sjóða nokkrar litlar nýuppteknar kartöflur þar til þær voru meyrar.

Image

Ég var fyrst að hugsa um að sterkkrydda fiskinn en skipti um skoðun, saxaði niður svolítið rósmarín og einn hvítlauksgeira og malaði piparkorn og nokkur kóríanderfræ í – ja, ég hef aldrei verið viss hvort ég á að kalla þetta mortél en þetta er frumstæðasta týpa af kvörn sem til er, nánast sama og þegar steinaldarmenn veltu steini fram og aftur á öðrum holum steini til að mala korn og annað. Ég blandaði þessu svo saman ásamt dálitlu Maldon-salti.

Image

Ég skar fiskinn í tvo bita stráði kryddinu vel á báðar hliðar þeirra. Svo hitaði ég smjör og olíu – svona 1 1/2 msk af hvoru – á pönnu. Setti fiskinn á hana með roðhliðina upp og steikti við góðan hita í svona 2 mínútur.

Image

Á meðan saxaði ég tvo vorlauka smátt og skar tvær gulrætur í strimla með grænmetisflysjara.

Image

Ég sneri svo fiskinum, lækkaði hitann dálítið og setti gulrótastrimlana og vorlaukinn á pönnuna. Skar svo kartöflurnar í fjórðunga (þær minnstu bara í tvennt), setti á pönnuna og lét krauma í nokkrar mínútur og hrærði nokkrum sinnum í grænmetinu á meðan.

Image

Svo hellti ég svona 100 ml af vatni á pönnuna, lagði lok (lauslega) yfir og lét malla áfram þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn; þetta voru þykk stykki svo það hefur líklega tekið svona 7 mínútur eftir að ég var búin að snúa þeim (9 mínútur samtals). Vatnið gufaði nær alveg upp og ég bætti smávegis við rétt áður en ég tók pönnuna af hitanum.

Image

Fljótlegt, einfalt, ljómandi gott og tiltölulega heilsusamlegt – er hægt að hugsa sér betri skyndibita?

2 comments

  1. Vildi ég hefði eldað þorskinn í kvöld eftir þessari uppskrift frekar en einhverri flókinni með hveiti og kryddi, eggi og raspi, bölvað vesen og ekkert sérstaklega gott. Þín lítur betur út. Basil/sítrónu majónesið var samt ágætt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s