Þegar mig langar í súkkulaðismákökur …

Sumir baka smákökur bara fyrir jólin, ef þeir baka þá nokkurntíma smákökur yfirhöfuð. Það er út af fyrir sig alveg ljómandi en þá er allt fullt af sætindum og gúmmulaði hvort eð er.

Ég baka smákökur þegar mig langar í þær. Eins gott að það er nú ekkert rosalega oft.

En í dag langaði mig í smákökur. Til að halda upp á að ég ætla að vera í sumarfríi næstu daga (en á samt örugglega eftir að mæta í vinnuna sirka daglega – til dæmis er nýja bókin mín væntanlega að koma til landsins á morgun og verður dreift mjög fljótlega) og ætla helst að eyða því í tóma leti og ómensku. Og kannski einhvern kökubakstur.

Nánar tiltekið langaði mig í súkkulaðismákökur. Með miklu súkkulaði. Ekki súkkulaðibitakökur, þær eru ágætar líka, en ég vildi súkkulaðikökur, bitalausar. Og þá mundi ég eftir uppskrift sem ég hafði einnverntíma bakað og verið nokkuð ánægð með. En ég fann hana hvergi svo að ég bakaði þessar kökur eftir minni. Þær eru örugglega ekki eins og þær sem ég mundi eftir – ég er til dæmis alveg viss um að það voru engar hnetur í þeim fyrri. En þetta gekk nú allt upp og ég fékk súkkulaðismákökurnar mínar.

Image

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla á 180°C. Svo setti ég 50 g af smjöri og 200 g af suðusúkkulaði í pott og bræddi við mjög vægan hita, eins vægan og hægt var.

Image

Ég hrærði nærri stöðugt og tók pottinn af hitanum áður en súkkulaðið var alveg fullbráðið; vildi ekki hætta á að það brynni við.

 Image
Ég lét súkkulaðiblönduna kólna aðeins á meðan ég þeytti 1 egg, 1 eggjarauðu og 80 g af sykri mjög vel, þar til blandan var þykk, ljós og froðukennd. Þeytti svo súkkulaðiblöndunni saman við ásamt 1 tsk af vanilluessens.
 Image
Svo fínmalaði ég 25 g af heslihnetum í matvinnsluvélinni og blandaði saman við 75 g af hveiti, 3/4 tsk af lyftidufti og 1/4 tsk af salti. Upphaflega planið var að hafa 50 g af hnetum og 50 g af hveiti en ég átti bara ekki meiri hnetur.
(Einu sinni birtist fræg mynd af silfurgljáandi tekatli á Ebay. Myndasmiðurinn hafði ekki varað sig á því að hann speglaðist í katlinum og því sáu allir sem myndina skoðuðu berrassaðan þéttvaxin karl með myndavél fyrir andlitinu. Eins og sjá má var ég í fötum. Sem er reyndar vissara við bakstur.)
Image
Ég blandaði þurrefnunum saman við súkkulaðideigið með sleikju. Þetta á að vera fremur þykkt, svo að það haldi nokkurn veginn lagi en renni þó pínulítið út.
Image
Ég setti bökunarpappír á tvær bökunarplötur og mótaði kökur með tveimur matskeiðum. Stærðin getur auðvitað verið með ýmsu móti og það mætti líka nota teskeiðar og fá minni kökur.
Image
Þetta urðu í kringum 30 kökur á tveimur plötum. Það þarf að vera gott bil á milli þeirra því þær renna út í ofninum (aðeins of lítið bil á stöku stað hér). Ég setti svo aðra plötuna i ofninn á efstu rim (hin var bökuð á eftir, kökurnar mega alveg bíða smástund óbakaðar).
Image
Ég var ekki viss hvað þær þyrftu langan tíma af því að ég var jú að baka eftir minni – stillti klukkuna fyrst á 7 mínútur en sá svo að þeim tíma liðnum að þær þyrftu aðeins lengri tíma svo ég bætti við tveimur mínútum og bakaði þær í 9 mínútur. Lét þær bíða í 2-3 mínútur á plötunni áður en ég tók þær af með spaða og setti á grind.
Image
Svona kökur kalla beinlínis á mjólkurglas.
Image
Þetta eru sko alminlegar súkkulaðikökur.

5 comments

  1. Gledur mig sérlega ad thú sért farin ad blogga aftur og ekki spillir ad thad séu myndir med blogginu! Kann vel ad meta ad thad er aldrei neitt vesen í uppskriftunum thínum;O) Bestu kvedjur

  2. Takk. Ég er voða lítið fyrir vesen, hvort sem er í matargerð eða annars staðar. Og ég er svoddan letiblóð að ég vil sjálf helst hafa frekar lítið fyrir hlutunum og reyni þá að skila því áfram til annarra …

  3. mmm…þessar eru ótrúlega girnilegar, á eftir að prófa þær. Segi það sama og Sesselja það er frábært að þú skulir vera farin að blogga aftur og taka myndir af krásunum 🙂

  4. Þessar eru alveg ómótstæðilegar – verða bakaðar um helgina fyrir nammidaginn 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s