Lambasteik með fræþekju (rosalega hollt örugglega)

Ég get alveg farið eftir uppskriftum.

Eða nei, ég get það nú eiginlega ekki en ég reyni stundum. En það er alveg sama þótt ég viti að eitthvað verður rosagott ef ég fer nákvæmlega eftir uppskriftinni, ég stoppa yfirleitt einhversstaðar á leiðinni og hugsa nei, ég vil frekar hafa þetta svona, nota þetta grænmeti eða þetta krydd en ekki þetta, steikja þetta aðeins skemur en uppskriftin segir, gera sósuna svona en ekki svona … Ég hef alltaf átt voðalega erfitt með að fara eftir fyrirmælum annarra og það gildir líka í eldhúsinu.

Mér finnst líka svo miklu skemmtilegra að skapa hlutina sjálf eða gera mína útgáfu en að endurskapa nákvæmlega eitthvað sem annar hefur gert. Þótt ég viti að það sé gott og jafnvel þótt ég hafi grun um það innst inni að það sé kannski eina rétta leiðin …

Eiginlega finnst mér oft skemmtilegast að elda þegar ég kem í eldhúsið og veit ekkert hvað ég ætla að gera. Jú, stundum er eitthvert aðalhráefni sem verður grunnurinn í réttinum en svo er bara að fara í skápana, gá hvað er til og fá hugmyndir. Sem breytast stundum í miðri eldamennsku. Sumar takast mjög vel, aðrar bara þokkalega, sumar klúðrast – en ég er nú sérfræðingur í að redda svoleiðis. Og yfirleitt verður þetta allt vel ætt á endanum.

Í dag átti ég lambaframhryggjarfillet  sem ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera við. Svo ég gáði í ísskápinn.

Image

Ein gulrót, hálf paprika, einn lítill rauðlaukur, hálft lítið eggaldin, nokkrar litlar kartöflur, nokkrar timjangreinar, tveir hvítlauksgeirar (nei, þeir voru nú ekki í ísskápnum reyndar). Jú, það má gera eitthvað úr þessu.

Image

Ég kveikti á ofninum á 220°C. Svo skar ég grænmetið smátt niður og fínsaxaði hvítlaukinn, hitaði 3 msk af olíu á pönnu og lét lauk, hvítlauk, gulrót, kartöflur og papriku krauma í nokkrar mínútur. Setti svo eggaldin og timjan á pönnuna, ásamt 10-15 heilum möndlum (þeim má líka sleppa, eða nota t.d. kasjúhnetur), kryddaði með pipar og salti, lét krauma aðeins lengur og tók þetta svo upp með gataspaða, setti í lítið eldfast mót, kreisti ögn af sítrónusafa yfir og stakk í ofninn.

Image

Svo bætti ég dálitlu smjöri á pönnuna (og smáolíu ef ekkert er eftir af henni), kryddaði kjötið með pipar og salti og brúnaði það á báðum hliðum við góðan hita. Tók kjötið svo af pönnunni og slökkti undir henni.

Image

Mér hafði dottið í hug að setja fræblönduþekju á kjötið og reyndi að þrýsta því bara ofan í fræin á diski en þau vildu ekki tolla svo að ég smurði bara dálitlu sinnepi á aðra hliðina á kjötbitunum …

Image

… þrýsti sinnepshliðinni vel ofan í fræblönduna, tók svo fatið með grænmetinu út, lagði kjötbitana þar ofan á (fræjum sem ekki festust við kjötið má svo strá í kring) og setti aftur í ofninn og setti aftur í ofninn í 12-15 mínútur. Best er að líta á þau eftir svona 8-10 mínútur og ef fræin virðast ætla að verða of dökk má leggja álpappír lauslega yfir.

Image

Á meðan gerði ég sósuna: kveikti aftur undir pönnunni og hellti rauðvínsafgangi á hana  (reyndar sá ég eftir á að þeta var kannski fullmikið rauðvín, skil ekkert í mér að hafa ekki drukkið meira af því á dögunum), lét sjóða vel niður og skóf botninn á pönnunni vel til að losa um skófir og fá bragðið úr þeim í sósuna. Bætti svo við ögn af kjötkrafti, nokkrum kornum af sykri og svolitlum pipar og salti. Þegar sósan var soðin vel niður tók ég hana af hitanum og hrærði matskeið af smjöri saman við. Hún var góð en jafnvel of bragðmikil og fulldökk.

Image

Ég setti svo grænmetið á fat (gott að tína timjangreinarnar frá í leiðinni) og kjötið ofan á.

Image

Jú, sósan var aðeins of dökk og bragðmikil. En annars var hreint ekkert upp á þetta að klaga.

Image

Ég hef notað þessa fræblöndu (furuhnetur, sólblómafræ, graskersfræ) til ýmissa hluta, í salöt, brauð og fleira, en hún virkaði líka fínt þarna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s