Það er beikonhátíð á morgun og ég er mikill beikonaðdáandi svo mér fannst ég yrði nú eitthvað að gera af því tilefni. Eitthvað úr beikoni alltsvo. Og þá varð mér hugsað til beikonsultunnar sem ég gerði nokkrum sinnum fyrir fáeinum árum og var til dæmis mjög vinsæl á Þorláksmessuhlaðborðinu mínu eitt árið en ég hef eiginlega gleymt að gera síðan.
Svona sulta varð vinsæl í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum en enginn virðist vita hvaðan hún kom þótt einhverjir hafi giskað á að hana megi kannski rekja til austurríska beikonmauksins Verhackert, sem er þó ósætt. En það væri svosem eftir Bandaríkjamönnum að taka eitthvað svoleiðis og gera það sætt, þeir eru dálítið fyrir sætt bragð … Allavega, það er hægt að finna fullt af uppskriftum út um allt sem eru meira og minna eins, innihalda beikon, lauk og stundum hvítlauk, púðursykur, edik (oftast eplaedik) og kaffi. Svo má bæta ýmsu við þetta og það gerði ég.
Ég átti 550 grömm af beikoni úr þýsku svíni, frekar mögru (beikonið allltsvo, og ég geri ráð fyrir að svínið hafi ekki verið sérlega feitt heldur). Það þarf að byrja á að steikja beikonið og þetta var það mikið að ég tók stóru stóru pönnuna mína af króknum þar sem hún hangir venjulega.
Hún er nógu stór til að ég gat steikt beikonið í tveimur skömmtum. Svona rétt. Ég brúnaði sneiðarnar á báðum hliðum við góðan hita.
Setti hvorn skammt um sig á tvöfalt lag af eldhúspappír þegar ég tók sneiðarnar af pönnunni, lagði annað lag af pappír yfir og setti farg ofan á til að pressa fituna úr. Lét þetta hálfkólna svona.
Á meðan saxaði ég einn vænan lauk og þrjá hvítlauksgeira og lét krauma í beikonfeitinni þar til laukurinn var glær. – Það var ekkert mikið af feiti á pönnunni; ef svo hefði verið hefði ég hellt meiripartinum af. Svo skóf ég þetta af pönnunni yfir í þykkbotna pott (Le Creuset-pottinn sem ég fann í Góða hirðinum á 1900 krónur, það er sparnaður upp á rúm 35 þúsund miðað við búðarverð), 50 ml af púðursykri, 50 ml af hlynsírópi, 70 ml af hvítvínsediki (ætti eiginlega að vera eplaedik en ég átti það ekki til og það var rigning svo ég nennti ekki út í búð), 150 ml af sterku kaffi og smávegis pipar. Hitaði þetta að suðu og hrærði þar til sykurinn var uppleystur.
Ég saxaði beikonið frekar smátt og setti það út í. Setti þétt lok á pottinn og lét þetta sjóða við minnsta mögulega hita í – ja, ég hef líklega soðið þetta í svona klukkutíma en flestar uppskriftir gera ráð fyrir lengri tíma. Klukkutími dugir óþolinmóðri manneskju eins og mér. En það þarf að hræra í öðru hverju og umfram allt að fylgjast vel með því ég held að það sé frekar slæmt að þetta fari að brenna við. – Eftir svona hálftíma bætti ég við einni teskeið af reyktri papriku sirka tveimur matskeiðum af Calvados. En það er nú bara af því að ég á umtalsverðar Calvadosbirgðir og hef fulla trú á að Calvados bæti næstum allan mat. Rétt eins og beikon. En það má sleppa bæði paprikunni og áfenginu.
Þetta ætti að vera tilbúið þegar næstum allur vökvinn er gufaður upp. (Það er minni vökvi í pottinum en sýnist á myndinni, það glampar svo á hann.) En ef það gerist á minna en klukkutíma er uppgufunin of hröð og þá þarf að bæta einhverjum vökva – vatni eða jafnvel eplasafa – út í svo ekki brenni við.
Ég lét þetta kólna í nokkrar mínútur og setti það svo í matvinnsluvélina og maukaði vel.
Það verða nú engin ósköp úr þessu, passar í eina frekar litla krukku.
Gott bara eintómt á góðu brauði. Kannski eplasneið með? Og ég tala nú ekki um ef ég ætti gorgonzola – ætti kannski að verða mér úti um góðan ost á morgun til að borða með.
Mér skilst að svona sulta geymist í allavega viku í kæli (það hefur ekki reynt á það hjá mér). Svo má frysta hana.