The original meal has never been found …

Eitt af því sem mér finnst svo frábært og æðislegt og skemmtilegt og áhugavert  við mat er hvað hann er fjölbreyttur og hvað er auðvelt að breyta honum og hvað er gaman að spinna sig áfram og gera alls konar tilbrigði. Og komast að því hvað sömu hráefnin geta verið undirstaða í ólíkum réttum, með ólíku bragði, ólíkum aðferðum, ólíkri stemmningu og hvaðeina.

Meðal annars þess vegna finnst mér svo gaman að elda úr afgöngum. Að taka einhvern rétt sem var bara alveg ágætur og gera eitthvað allt annað úr honum. Það eru oftar en ekki afgangar þegar ég elda fyrir mig eina en það er ekki vegna þess að ég kunni ekki að elda lítið eða viti ekki fyrirfram hvað ég muni borða mikið sjálf. Öðru nær. Ég elda gjarna viljandi meira en ég borða í einni máltíð og fyrir því eru ýmsar ástæður:

* Það er oft erfitt að kaupa inn fyrir einn, til dæmis kjöt, fisk og kjúkling. Nema þegar ég fer í Nóatún eða einhvern þeirra fáu staða sem enn eru með kjötborð en þangað kemst ég ekki alltaf, bíllaus manneskjan.

* Það er óhagkvæmara að elda litla skammta en stærri.

* Ég reyni helst að eiga eitthvað eftir til að fara með í vinnuna og borða í hádeginu. Annars enda ég kannski á að kaupa samloku í 10-11, sem hvorki er hollt né hagkvæmt.

* En fyrst og fremst finnst mér gaman að elda úr afgöngum og gera þá að einhverju allt öðru en þeir voru daginn áður. Kannski er ég bara svona skrítin.

Allavega veit ég að það eru ekki allir sammála. Líklega ekki til dæmis matarskríbentinn kunni, Calvin Trillin, sem sagði um matargerð móður sinnari: ,,The most remarkable thing about my mother is that for 30 years she served the family nothing but leftovers. The original meal has never been found.“

Þetta er semsagt inngangur að lýsingu á því hvað ég gerði úr afganginum af blálöngunni og bankabygginu sem ég eldaði í gær og var alveg ljómandi. Ég tók reyndar dálítið með í vinnuna í dag en það var slatti eftir. Nóg til að gera fiskibuff úr.

Image

Ég setti þetta í hrærivélarskálina: tvö fiskstykki, slatta af bankabyggi, eitthvað af tómötum, vorlauk og kapers – en ólífurnar voru búnar, annars hefði ég líklega skorið þær smátt áður en ég setti þær í skálina.

Image

Ég tók litla lófafylli af basilíku, tvo hvítlauksgeira og hálft rautt chilialdin (fræhreinsað) og saxaði þetta (hvítlauk og chili smátt, basilíkuna gróft).

Image

Setti þetta út í skálina ásamt einu eggi og tveimur muildum tvíbökum (þetta tvennt er til að halda blöndunni saman), kryddaði með svolitlum pipar og salti (ekki miklum, þetta var jú kryddað fyrir) og setti svo vélina af stað og lét hana ganga rólega þangað til fiskurinn var kominn í gróft mauk.

Image

Ég hitaði svo dálitla olíu, svona 2-3 matskeiðar, á pönnu. Setti svolítið hveiti á disk, mótaði lítil buff úr farsinu, velti þeim aðeins upp úr hveitinu og setit þau svo á pönnuna og steikti við meðalhita í svona 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða þangað til þau voru vel brúnuð og heit í gegn.

Image

Ég setti svo salatblöð á fat (engin sérstök þörf á neinum kartöflum eða kornmeti með þessu, það er svo mikið bygg í buffinu) og raðaði buffunum í miðjuna. Dreifði matskeið eða svo af fræblöndu (graskersfræ, sólblómafræ, furuhnetur) yfir og bætti við nokkrum þunnum sítrónubátum.

Image

Ekki hefði ég viljað missa af þessum afgöngum.

(Og nei, það er ekki afgangur af þessu … nema kannski til að taka með í nestið á morgun …)

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s