Blálanga og bankabygg

Þegar ég fór í búðina áðan var ég með einhverjar óljósar hugmyndir um hvað ég ætlaði að hafa í matinn en þær breyttust snarlega þegar ég rak augun í álitlegt blálönguflak sem mig langaði allt í einu að gera eitthvað við. Svo að ég keypti það en eiginlega ekkert annað því ég hafði grun um að ég ætti ýmislegt í skápunum sem gæti passað með löngunni. Sem reyndist rétt.

Reyndar er ansi margt sem passar með blálöngu, það er mikill afbragðsfiskur. En ef hún fæst ekki mætti örugglega nota marga aðra hvíta fiska í þennan rétt, til dæmist steinbít eða þorsk.

Ég var fyrst að hugsa um að elda eitthvað marokkóskt en eftir skoðunarleiðangur um ísskápinn og eldhússkápana skipti ég um skoðun (næstum því) en tók bankabygg frá Eymundi og Eygló í Vallanesi og sauð það í saltvatni í svona 40 mínútur. Kveikti svo á ofninum og stillti hann á 225°C.

Image

Svo tók ég nokkra mjög vel þroskaða plómutómata sem voru búnir að standa í skál á eldhúsbekknum dögum saman, þrjá vorlauka, nokkrar timjangreinar, svona rúma teskeið af kapers, 15-20 svartar, steinlausar ólífur og eina sítrónu.

Image

Skar vorlaukinn og tómatana niður og setti þetta ásamt ólífum, kapers og timjani í eldfast mót og kryddaði með pipar og salti. Ýrði svona tveimur-þremur matskeiðum af ólífuolíu yfir og hrærði og kreisti svo safa úr um það bil þriðjungi af sítrónu jafnt yfir.

Image

Ég skar svo lönguflakið í stykki og lagði ofan á. Svo tók ég krukku af sítrónu-tagine-sósu sem ég átti – það var marokkóska elementið – og smurði svona hálfri teskeið á hvert stykki. Það má alveg nota einhverja aðra sósu, sterka eða milda, til dæmis bara rautt pestó.

Image

Ég jós dálitlu af grænmetinu yfir fiskinn, lagði nokkrar þunnar sítrónusneiðar ofan á og setti þetta í ofninn í 8-10 mínutur, eftir þykkt flakanna.

Image

Á meðan var bankabyggið fullsoðið og ég hellti því í sigti og lét renna af því og hvolfdi því svo í skál, hrærði ögn af ólífuolíu og pipar saman við og saxaði svo nokkur basilíkublöð og blandaði saman við.

Image

Ég hélt satt að segja þegar ég tók fiskinn út að ég hefði litið vitlaust á klukkuna og ofeldað hann af því að það var svo mikið soð í fatinu.

Image

En það var nú aldeilis ekki, safinn hefur mestallur verið úr grænmetinu og sítrónunum. Og tilvalið að ausa soðinu yfir byggið.

Þetta var alveg ljómandi góð blálanga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s