Sítruspundkakan sem þurfti ekki skreytingu

Ég var ekkert að elda kvöldmat, borðaði á Kolabrautinni í hádeginu (þorsk, sem var ágætur en ööörlítið ofeldaður) en langaði hins vegar að baka köku. Ekkert fansí, bara einfalda pundköku. Sítrónupundköku nánar til tekið. Eins og ég nefndi um daginn sá ég fram á að fjárfesta í nýju jólakökuformi. Nú er það komið og ég þurfti að vígja það.

Pundkaka dregur nafn af því að upphaflega að minnsta kosti var í henni eitt pund af hverju meginhráefnanna – hveiti, sykri, smjöri og eggjum – og svo bragðefni. En þegar lyftiefni komu til sögunnar þurfti ekki lengur að hafa mikið af eggjum og þeyta þau í hálftíma eða svo, þannig að hlutföllin fóru eitthvað að raskast og nú orðið sér maður ýmis hlutföll í kökum sem kallaðar eru pundkökur.

Ég ákvað reyndar að halda mig við þessi klassísku hlutföll en minnka alla skammta – tæplega tveggja kílóa kaka er fullstór fyrir mig. Þessi gæti kannski heitið 250 gramma kaka …

Image

Ég byrjaði semsagt á að hita ofninn í 160°C og svo vigtaði ég 250 g af sykri. Það má alveg nota hvítan sykur en mér þykir betra að nota demerara-sykur í svona köku, hann er bragðbetri. Hollari? Nah … Hrásykurinn frá Dansukker (ekki Danfoss eins og ég skrifaði um daginn) er demerara-sykur svo það má auðvitað nota hann.

Image

Setti sykurinn í hrærivélarskálina ásamt 250 g af linu smjöri og hrærði vel saman. Það þarf að stoppa vélina einu sinni eða tvisvar og skafa niður með hliðunum með sleikju.

Image

Svo braut ég fjögur egg (sem vigtuðu einmitt akkúrat 250 g) í bolla (en bara eitt í einu) og þeytti þeim saman við deigið. Það er gott að stoppa og skafa niður með skálinni eftir að fyrsta eggið er komið út í en eftir það ætti þess ekki að þurfa.

Image

Það er mjög líklegt að deigið mærni (skilji sig) eitthvað. Don’t worry. Það jafnar sig þegar hveitið kemur út í. En áður en að því kom reif ég börk af einni sitrónu fínt út í skálina. Passa að rífa bara gula hlutann af berkinum, hvíti hlutinn er of beiskur.

Maður á náttúrlega að nota ósprautaðar lífrænt ræktaðar sítrónur þegar börkurinn er notaður en þær eru rándýrar, fást bara nokkrar saman þegar mann vantar bara eina og þær sem ekki eru notaðar mygla alltaf. Svo að stundum nota ég bara venjulegar en þvæ þær vel úr volgu vatni og þerra þær. Hvort sem er nú gagn í því eða ekki.

Image

Hér ættu að koma 250 g af hveiti en í rauninni ætti að vera glútenlítið kökuhveiti í svona köku. Það fæst ekki hér svo að ég byrjaði á að vigta 50 g af kartöflumjöli og bætti svo 200 g af hveiti í skálina, ásamt 2 1/2 tsk af lyftidufti. Þetta sigtaði ég yfir deigið í skálinni og blandaði saman við með sleikju, bara rétt þangað til hvergi sást í hvítt. Það er um að gera að hræra sem minnst í deiginu eftir að hveitið kemur út í og það þarf líka að fara fljótt í ofninn. Svo að ég setti það beint í nýja formið, sléttaði yfirborðið aðeins og setti svo kökuna á neðstu rim og bakaði í 40 mínútur.

Image

Ég var með ákveðnar hugmyndir um skreytingu á kökuna (sem gengu reyndar þegar til kom ekki upp) svo að ég tók hálfa sítrónu, eina límónu og bát af blóð-greipaldini og skar í sneiðar og svo í geira. Það má auðvitað líka hafa bara sítrónu. Eða ekki neitt (sjá síðar).

Image

Svo setti ég 200 g af hvítum sykri í pott, ásamt safanum sem hafði runnið úr sítrusávöxtunum þegar ég skar þá niður, safa úr hálfri sítrónu eða svo og svona þremur matskeiðum af vatni. Hitaði þetta, hrærði þar til sykrurinn var uppleystur og lét svo sjóða í nokkrar mínútur, þar til sírópið var örlítið farið að þykkna og kannski rétt farið að örla á smávegis litarbreytingu – en það á ekki að byrja að brúnast samt.

Image

Þá tók ég pottinn af hitanum, setti ávextina út í, hrærði í og lét standa og kólna þar til kakan var bökuð.

Image

Sem hún var eftir 40 mínútur eins og til stóð. Ég stakk prjóni í hana til að prófa. Svo tók ég hana út og stakk aftur prjóni á bólakaf í hana á þónokkrum stöðum, en ekki til að prófa í þetta skipti, heldur til að sírópið sem ég ætlaði að fara að hella í hana rynni betur ofan í hana.

Image

Ég semsagt hellti 100 ml af sítrussírópinu í litla könnu og dreypti því jafnt yfir heita kökuna í forminu. Lét hana svo kólna en losaði hana þá úr forminu og setti hana á fat.

Image

Ég dreifði sítrusávaxtabitunum eftir endilangri kökunni. Það setti vissulega litríkan svip á hana en þegar ég var búin að horfa á hana smástund og taka nokkrar myndir var ég samt ekkert ánægð með skreytinguna og fannst hún líka óþörf. Kosturinn við svona skreytingu fram yfir ýmsar aðrar er að maður getur skipt um skoðun vandræðalítið.

Image

Svo að ég tók bara ávaxtadótið. Kakan er bráðhugguleg án þess.

Image

Hún er alveg ágæt bara ein og sér. En það má líka taka dálítið af því sem eftir er af sítrussírópinu, hræra saman við 150 g eða svo af grískri jógúrt og hafa með kökunni. – Mér fannst þetta síróp betra, eða öllu heldur passa betur við þarna, en eintómt sítrónusíróp. Svo að límónan og greipið komu þá að einhverju gagni þótt skreytingin væri látin fjúka.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s