Afgangamatreiðsla

Ég átti náttúrlega töluverðan afgang af svínasíðunni sem ég steikti á föstudaginn og þurfti að fara að nota hana. Ég er ekki vön að henda mat og reyni að nota alla afganga – annaðhvort í nestið í vinnuna eða bý til eitthvað allt annað úr þeim eftir einn eða tvo daga. Þrjá í þessu tilviki. Auðvitað henta afgangar misvel til slíks en ef maður hefu sæmilegt hugmyndaflug er alltaf hægt að gera eitthvað … Og svínasíðubita er reyndar hægt að nota í ansi margt.

Ég ákvað að gera eitthvað í wokpönnunni minni. Ég var reyndar í Pipar og salt á laugardaginn með Úlfi að skoða ýmiss konar eldhúsdót (keypti þó ekkert) og sá þar meðal annars sams konar wokpönnu og þá sem ég átti einu sinni og var miklu betri en þessi sem ég er með. En þá pönnu lét ég syninum eftir einhvern tíma, hann eldar miklu meira af austurlenskum mat en ég og yfirleitt í stærri skömmtum, svo að hún er í góðum höndum. Þessi sem ég á dugir mér svosem alveg til að elda fyrir mig eina. Og þegar ég var að hugsa þetta rann upp fyrir mér að það er líklega ansi langt síðan ég notaði wokpönnuna síðast. Kominn tími til.

Reyndar hef ég frekar lítið gert af því að elda kínverskt síðustu árin; var á miklu Austurlandatímabili fyrir tíu árum eða svo en það hefur dregið úr því. Kannski kemur svona tímabil aftur.

Allavega, ég tók afganginn af svínasíðunni, byrjaði á að skera pöruna af og leggja til hliðar, skar svo fitulagið af (það var ansi þykkt) og henti því (ég nota þó ekki alla afganga), skar rifin frá og hreinsaði kjötið sem var á milli þeirra og skar svo allt kjötið í litla bita.

Ég skar niður svona fimmtán sentímetra bút af blaðlauk (græna/ljósgræna hlutann) og hálfa rauða papriku og saxaði hálft chilialdin, tvo hvítlauksgeira og dálítinn engiferbita frekar smátt.

Ég hitaði wokpönnuna á kraftmestu hellunni á gasvélinni, setti svona tvær matskeiðar af olíu á hana (hefði eiginlega átt að vera jarðhnetuolía en ég átti hana ekki svo að repjuolía varð að duga) á pönnuna og setti svo hvítlauk, chili og engifer á pönnuna og veltisteikti við háan hita í svona hálfa mínútu. (Veltisteiking er orð sem ég hef notað um stir-fry; það er allavega skárra en hræristeiking, sem ég hef séð notað. Sérstaklega þega stendur,,hræristeiktur kjúklingur“, ég les það alltaf sem hræsteiktur kjúklingur og það hljómar ekki vel.)

Þá setti ég papriku og blaðlauk á pönnuna og veltisteikti áfram í 2-3 mínútur. Hafði hitann háan en gætti þess að grænmeti brynni ekki.

Þá setti ég kjötið á pönnuna (það var satt að segja aðeins meira en mér fannst þegar ég var að skera niður grænmetið, hefði kannski átt að hafa aðeins meira af grænmetinu) og steikti í 2-3 mínútur en þá hrærði ég 1 msk af ostrusósu, 1 msk af hunangi, 1 msk af ediki (hvítvíns) og 2 tsk af sojasósu saman við. Lét sjóða hressilega í 2 mínútur eða svo og hrærði þá 1/2 tsk af maizenamjöli, hrærðu út í svolitlu köldu vatni saman við.

Svo hrærði ég handfylli af spínatblöðum saman við ásamt dálítilli steinselju. Og skar pöruræmurnar sem eftir voru í bita og henti ofan á. Smakkaði og var sátt.

Dreifði hrísgrjónum sem ég var búin að sjóða í hring á fat og hellti öllu saman í miðjuna, skreytti með svolítilli steinselju og bar á borð fyrir sjálfa mig.

Þetta var reyndar alltof stór skammtur, meira en ég tek með í nestið á morgun. Kannski nota ég afganginn í eitthvað gjörólíkt annað kvöld …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s