Við Úlfur fórum í Bónus rétt eftir hádegi til að kaupa Toblerone af því að við ætluðum að baka Tobleronemúffur. Ég var að velta fyrir mér að kaupa eitthvað til að elda í kvöldmatinn fyrir sjálfa mig en ákvað svo að taka fisk úr frystinum og elda hann bara.
Og svo gleymdi ég því náttúrlega. Uppgötvaði það þegar það var eiginlega orðið of seint að þíða fiskinn nema með einhverjum drastískum aðferðum sem fara ekkert vel með fisk svo ég fór að skoða hvað ég ætti. Og þá rakst ég á ung spínatblöð (baby spinach) sem ég hafði notað eitthvað af í salat í fyrradag og náttúrlega beikon. Ég á oftar en ekki til beikon. Og þá datt mér samstundis í hug spínat- og beikonsalat, klassískt ameriskt salat sem ég geri af og til í ýmsum útfærslum. Svo að ég ákvað að gera tilbrigði við það; átti reyndar enga sveppi sem oftast eru í salatinu en ég ákvað að nota tómat í staðinn, hef gert það áður. Og steikja rauðlaukinn, sem oftast er saxaður og settur hrár saman við salatið.
Ég hef fulla trú á að hollusta og óhollusta jafnist út í þessu salati. (Hið sama verður líklega ekki sagt um Tobleronemúffurnar.)
Ég byrjaði á að harðsjóða tvö egg (sjóða við mjög vægan hita, ekki láta vatnið bullsjóða) og setja beikonið á pönnuna. Sjö sneiðar sem ég skar reyndar í tvennt svo þær urðu fjórtán.
Ég steikti beikonið þar til það var stökkt á báðum hliðum, tók það svo af pönnunni (tók það með töng og hélt sneiðunum aðeins yfir pönnunni til að láta drjúpa af þeim), setti þær á tvöfalt lag af eldhúspappír og lagði svo annað tvöfalt lag ofan á og setti farg yfir til að pressa sneiðarnar
Hallaði pönnunni svo og tók frá þrjár matskeiðar af beikonfeiti. Það var örlítið eftir og ég lét það vera á pönnunni.
Ég saxaði einn frekar lítinn rauðlauk smátt og lét hann krauma við meðalhita í nokkrar mínútur í því sem eftir var af beikonfeitinni. Þá setti ég einn smátt skorinn plómutómat á pönnuna og lét hann líka krauma í smástund.
Þá var það salatsósan: Ég hitaði beikonfeitina sem ég hafði tekið frá á lítilli pönnu (mætti auðvitað vera pottur líka) og setti svona eina matskeið af hunangi út í og hrærði þar til hunangið var bráðið. Það þarf samt að passa að þetta brenni ekki, best að hafa hitann frekar vægan.
Svo hrærði ég svona rúmri matskeið af ediki (hvítvínsediki af því að það var við höndina en hefði alveg eins getað verið rauðvínsedik eða eitthvað annað) saman við og lét sjóða aðeins niður.
Ég endaði svo á að hræra svona hálfri teskeið af sinnepi saman við. Yfirleitt er notað Dijon-sinnep í þessa salatsósu en ég notaði þýskt grófkorna sinnep.
Svo tók ég beikonið og saxaði frekar smátt. Eggin voru soðin og ég kældi þau og skurnfletti og svo tók ég væna handfylli af spínatlaufi og sleit af því alla þá stöngla sem ég nennti að slíta (nóg eftir samt).
Ég setti spínatið í skál, hellti lauk og tómötum yfir, bætti við beikonbitum og hellti svo salatsósunni yfir allt saman og blandaði vel.
Svo skar ég eggin í sneiðar og raðaði þeim ofan á og þar með var salatið tilbúið.
Og var alveg bara ágætt.
Og ef mig skyldi langa í eitthvað á eftir eru til þessar afbragðsgóðu Tobleronemúffur, sem við Úlfur bökuðum. Uppskriftin er í nýju bókinni minni, sem er á leiðinni til landsins.