Hann Úlfur er í kvöldmat og gistingu hjá mér og ég spurði hann hvað hann vildi fá að borða.
– Pastað sem ég verð skítugur af, sagði hann. Og það varð úr. Við gerðum pastað sem Úlfur varð skítugur af þegar hann var yngri en nú er hann orðinn stór strákur og varð ekkert skítugur að ráði.
Hann hjálpaði auðvitað til við eldamennskuna – eða öllu heldur, hann eldaði og ég hjálpaði til. Hann er áhugamaður um matargerð og finnst gaman að láta til sín taka í eldhúsinu.
Við byrjuðum á að skera niður einn rauðlauk, þrjá hvítlauksgeira og eina væna gulrót. Ég skar laukinn og hvítlaukinn því við vorum sammála um að í það þyrfti að nota beitta hnífinn, sem Úlfur er enn ekki farinn að nota. En hann skar niður gulrótina.
Svo hitaði ég dálitla olíu á pönnu og lét lauk og hvítlauk krauma í henni í svona fimm mínútur til að mýkjast, en áð meðan skar Úlfur niður þrjár þykkar pepperónísneiðar (enda) og ég skar svo nokkrar beikonsneiðar smátt.
Úlfur setti svo beikonið, pepperóníið og gulræturnar á pönnuna, og svo rósmaríngrein, nokkrar timjangreinar og eitt lárviðarlauf. Við létum þetta krauma í fáeinar mínútur.
Svo hellti Úlfur hálfum lítra af tómatpassata á pönnuna og bætti við svolitlu vatni, ögn af salti og pipar og einni teskeið af sykri. Við létum sósuna malla á meðan pastað var að sjóða en Úlfur stalst svo oft í að smakka hana (honum fannst hún nokkuð góð) að ég var farin að óttast að hún kæmist aldrei á borðið.
Við hituðum svona fjóra lítra af vatni í stórum potti og settum rúma matskeið af salti út í. Þegar vatnið bullsauð setti Úlfur spaghettíið út í (nei, hann braut það ekki).
Það þarf ekkert að gera við spaghettíið nema hræra nokkrum sinnum í pottinum fyrstu mínúturnar og gæta þess að vatnið bullsjóði allan tímann.
Mig minnir að við höfum soðið spaghettíið í átta mínútur. En við prófuðum allavega suðuna með þessu ágæta tóli, sem góður maður færði mér að gjöf fyrir nokkrum árum. Byrjuðum að prófa rétt áður en við héldum að það væri til og það reyndist akkúrat mátulega soðið. Ég tók frá einn bolla af pastavatninu (ágætt að hafa ef þynna þarf sósuna), hellti pastanu í sigti og sturtaði því svo beint í stóra skál. Ekkert að láta vatn buna á það eða neitt slíkt.
Við helltum svo sósunni (sem búið var að tína lárviðarlaufið og stönglana af rósmaríninu og timjaninu úr) yfir pastað og svo dreifði Úlfur dálitlu af skinku (silkiskorinni hunangsskinku), sem hann var búinn að saxa smátt, yfir sósuna og pastað og blandaði svo öllu saman.
Svo stráðum við nokkrum basilíkublöðum yfir og bárum þetta fram. Fullt af parmesanosti rifið yfir.
Þetta þótti kokkinum gott. En eins og sjá má varð hann ekki skítugur að ráði, orðinn stór strákur.