Komið nóg af sætmeti og kökum í bili. Nú er það kjötið.
Ég keypti á dögunum bita af svínasíðu af því að ég átti hálfpartinn von á matargesti sem varð svo ekkert úr að kæmi og ég hef verið að fresta því að elda þetta oní mig eina en þegar ég kom heim og var að gá hvað til væri í ísskápnum varð mér litið á dagsetningar á bitanum og sá að annaðhvort væri að elda þetta núna eða setja það í frysti þar sem ég mundi örugglega gleyma því langalengi. Svo að ég ákvað þá bara að elda pörusteik handa sjálfri mér.
Ég veit að fyrir mörgum er það stórmál að fá stökka pöru á steikina en ég hef aldrei átt í vandræðum með það; einhverntíma kom fram sú tilgáta að það væri af því að þegar ég byrjaði að elda pörusteik hefði ég ekki vitað að það ætti að vera vandamál.
Ég byrjaði á að þerra pöruna vel með eldhúspappír og skera svo í hana djúpa skurði með beittum hníf. Alveg niður í gegnum pöruna og fitulagið og að kjötinu. Hnífurinn er að vísu blaðmjór en blaðið hvarf alveg í skurðina. Svo kryddaði ég kjöthliðarnar vel með salti og pipar og neri því inn í kjötið.
Ég tók svo lítið eldfast form, sem passaði eiginlega akkúrat fyrir síðubitann, og setti rósmaríngrein, nokkrar timjangreinar og einn lítinn rauðlauk, niðurskorinn, á botninn og lagði kjötið ofan á.
Ég neri pipar og grófu salti ofan í pöruna og í skurðina, stakk svo nokkrum hálfum lárviðarlaufum (þetta eru fersk lauf, það er ekki nauðsynlegt) í skurðina og lagði litla rósmaríngrein ofan á. Lét þetta standa svona á meðan ég hitaði ofninn í 230°C.
Kjötið var í ofninum í hálftíma við þennan hita. Þá var paran orðin svona. Ég tók það út, hellti sjóðandi vatni í formið meðfram kjötinu, lækkaði hitann í 160°C, stakk kjöthitamæli í síðuna og setti hana aftur í ofninn.
Það var ekki liðið nema korter þegar mælirinn sýndi 72°C og þá tók ég kjötið út, hellti soðinu af því í pott, breiddi álpappír lauslega yfir og lét steikina standa í 10-15 mínútur á meðan ég lauk við meðlætið, sem var nú eiginlega bara soðnar kartöflur, sósa og svo ung spínatblöð og tómatar, svona til að hafa þó eitthvert grænmeti … Sósan var bara soðið, þykkt með dálitlum hveitijafningi (verður eiginlega að vera í svona sósu) og svolítil rjómaskvetta út í rétt í lokin. Hér þurfti sko engan kjötkraft eða neitt slíkt, þetta var býsna bragðmikil sósa.
Dálítið retró kannski. En ansi gott bara. Skidegodt. Ég er viss um að þetta hefði fallið í kramið hjá Olsen-banden.
[…] hef reyndar haft hér uppskrift að svínasíðu með stökkri pöru áður og þessi er svosem ekki svo mikið öðruvísi. En góð vísa er aldrei of oft kveðin. Og […]