Þegar maður á ellefu jarðarber …

Ég ætla að hlífa ykkur við því að horfa ofan í skálina á matvinnsluvélinni í þetta skipti, þó notaði ég hana tvisvar. Tók bara enga mynd af því, sá ekki ástæðu til.

Ég fór í Bónus á heimleiðinni og þar voru þessi girnilegu íslensku jarðarber. Ekki gefin náttúrlega, bakkinn á 599 krónur og það voru ellefu ber í honum, sem leggur sig á rúmar fimmtíu krónur hvert ber – en annað eins hefur maður látið eftir sér. Svo að ég keypti einn bakka.

Auðvitað hefði ég bara getað borðað berin beint upp úr bakkanum, kannski með ögn af sykri og rjóma, og það freistaði mín dálítið – en af því að þetta er nú ég varð ég að gera eitthvað með þau. Ég hugsaði málið og rifjaði upp nokkrar klisjur eins og jarðarber og balsamedik, sem ég er löngu orðin leið á – og svo ákvað ég að gera litlar jarðarberjabökur með mascarpone-kremi.

Ég á form fyrir svoleiðis en þau eru ekki til á hverju heimili og það er náttúrlega alveg eins hægt að gera bara eina stóra bóku, en ég gerði sex litlar.

Ég byrjaði á bökudeiginu, vigtaði 200 g af hveiti og 100 g af köldu smjöri sem ég skar í bita. Setti þetta í matvinnsluvélina ásamt matskeið af sykri og ögn af salti og lét hana ganga þar til smjörið var vel saxað saman við. Þá bætti ég við ísköldu vatni smátt og smátt þar til deigið var hæfilegt (ætli það hafi ekki verið svona þrjár matskeiðar). Þegar ég segi hæfilegt meina ég eins og það er á myndinni; nógu blautt til að það hnoðast strax saman í slétt deig þegar maður tekur ögn af því í lófann en ekki svo blautt að það hnoðist saman af sjálfu sér í matvinnsluvélinni.

Image

Ég hnoðaði deigið snöggt saman – best að meðhöndla það sem allra minnst og líka best að það sé ekki of heitt í eldhúsinu – skipti því í fimm hluta og flatti hvern þeirra þunnt út. Ég var með sex form en notaði afskurðinn af hinum í eitt þeirra.

Image

Lagði deigið sem ég var búin að fletja út yfir eitt bökuformið og þrýsti því létt upp að börmunum með fingurgómunum. Svo snyrti ég deigið með hníf, skar það af við barminn allan hringinn. Afskurðurinn var eins og áður segir hnoðaður í kúlu og notaður til að gera síðustu bökuna.

Svo klippti ég litla hringi, aðeins stærri en formin, út úr bökunarpappír, lagði yfir þau og fyllti með þartilgerðum leirkúlum, sem eru notaðar sem farg til að halda deiginu niðri þegar skeljarnar eru bakaðar. En það er líka vel hægt að nota hrísgrjón eða þurrkaðar baunir (og hægt að nota sömu grjónin og baunirnar aftur og aftur). Þetta kallast blindbökun og er auðvitað líka hægt að gera ef maður er með eina stóra böku. Ég setti svo bökumótin í ísskápinn og kældi þau á meðan ég hitaði ofninn í 190°C.

Image

Ég bakaði skeljarnar blint í miðjum ofni í 15 mínútur en tók þær þá út, lyfti pappírnum og farginu með og setti í skál en stakk bökunum aftur í ofninn í 5 mínútur.

Skeljarnar ættu að vera lausar í formunum og ekkert mál að taka þær úr – ég stakk hnífsoddi meðfram barminum til að lyfta þeim aðeins upp og setti þær á grind og lét kólna.

Image

Svo bræddi ég 50 g af súkkulaði (appelsínusúkkulaði frá Nóa Síríus) í vatnsbaði og penslaði bökuskeljarnar að innan.  Það geri ég ekki bara út af bragðinu, heldur líka til að húða bökuskelina að innan svo raki úr fyllingunni mýki hana ekki upp ef hún á að geymast eitthvað að ráði. Ég lét svo súkkulaðið storkna á meðan ég gerði fyllinguna.

Image

250 g mascarpone-ostur, vel mjúkur, 4 msk rjómi (eða mjólk), rifinn börkur af 1 sítrónu, 2 kúfaðar matskeiðar flórsykur og 2 kúfaðar matskeiðar Royal vanillubúðingsduft. Hrærrt vel saman í matvinnsluvél eða með þeytara og skipt á bökuskeljarnar.

Image

Og þá var bara eftir að skipta þessum ellefu jarðarberjum nokkurn veginn jafnt á bökurnar og kæla þær svolítið áður en gesturinn sem ég átti von á kom í kvöldkaffi.

Ef ég hefði átt fleiri jarðarber hefði ég skorið þau í helminga og raðað þeim þannig að þau þektu kremið og svo hefði ég hitað dálitla jarðarberjasultu í potti og penslað berin með henni. En í öllu falli: Namm.

3 comments

  1. Gerði svona í bústaðnum um helgina og vakti mikla lukku. Gerði eina stóra og notaði aðkeypt bökudeig

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s