Kjúklingur á prjónunum

Ég ætlaði að skrifa um allt annað. En ég klúðraði því gjörsamlega (já, það kemur sko fyrir mig líka) – svona útlitslega séð, ekkert að bragðinu, svo að þessvegna skrifa ég bara um kjúkling. Hinn helminginn (tæplega) af kjúklingalundabakkanum sem ég eldaði í gær.

Annars var ég að hugsa um það áðan að það getur svosem vel verið að það fari að hægjast aðeins á bloggfærslunum þegar haustar. Ekki vegna þess að ég eldi minna á haustin, heldur vegna þess að þá minnkar birtan sem ég get notað við myndatökur – ég á ekki almennilegt flass, þaðanafsíður einhverja kastara, ég kann ekki að nota flass og vil ekki nota flass. Og það kemur að því að það verður farið að rökkva þegar ég kem heim úr vinnunni og þá er ekki víst að ég taki neinar myndir nema um helgar. Ég er jú ekki síst að þessu myndanna vegna. En það kemur nú allt í ljós.

Image

Eníveis, það var alveg nógu bjart þegar ég byrjaði að elda – og þar sem þetta var annar tíu mínútna réttur eða rétt rúmlega það entist mér birtan ágætlega. Ég tók lundirnar, þær voru nú ekki nema sex, þetta var minni helmingurin, kryddaði þær með pipar, salti, paprikudufti, svolitlu chili og ögn af karrídufti og brúnaði þær á báðum hliðum í olíu við nokkuð góðan hita. Ég steikti þær heilar en ef ég hefði verið búin að ákveða fyrirfram að ég ætlaði að borða með prjónum hefði ég kannski skorið þær í bita áður en þær fóru á pönnuna.

Image

Ég skar niður hálfa rauða og hálfa appelsínugula papriku og setti á pönnuna ásamt einum eða tveimur vorlaukum og lét krauma aðeins.

Image

Svo setti ég á pönnuna væna kúlu – svona 100-150 ml – af grófu hnetusmjöri, vatn, svolítinn kjúklingakraft, pipar og paprikuduft, hrærði og þynnti með meira vatni þar til mér fannst sósan hæfileg. Vel þykk þó (hún þykknar við suðuna).

Image

Þegar ég smakkaði hana fannst mér vanta bæði sætu og eitthvert ,,kikk“; ætlaði að bæta við hana hunangi og chilipipar en svo mundi ég eftir flösku af sætri mangó-chilisósu sem ég átti uppi í skáp svo að ég hrærði svona tveimur matskeiðum af henni saman við. Og akkúrat þarna var ég búin að ákveða að borða með prjónum svo ég skar kjúklinginn í bita á pönnunni. Notaði þá auðvitað tækifærið til að fullvissa mig um að hann væri steiktur í gegn.

Image

Setti hann í skál og skreytti með nokkrum steinseljublöðum. Þetta tók allt saman rétt rúmar tíu mínútur.

Image

Og var bara alveg ágætt. Mjög ólíkt kjúklingaréttinum sem ég gerði úr hinum hlutanum af lundunum en ekki síðra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s