Tíl á tíu mínútum

Ég ætlaði eiginlega að elda þennan kjúklingarétt í gær en lenti þá í mat á Steikhúsinu að lokinni afmælisveislu og var svo södd eftir þær hremmingar að ég var ekkert viss um að ég þyrfti neitt að elda í kvöld – en auðvitað var ég orðin svöng aftur og einhverntíma þurfti að elda kjúklinginn (og ætli hinn helmingurinn af bakkanum verði ekki í matinn á morgun í einhverju formi?).

Ég átti semsagt bakka af kjúklingalundum, sem mér hefur reyndar alltaf þótt óskaplega asnalegt nafn því ekki eru þetta nú lundir, öðru nær. En það verður nú lítið við því gert héðan af. Það er svosem hægt að gera ýmislegt gott úr þeim og þær eru fljóteldaðar. Verst bara að þær skuli ekki fást í minni skömmtum; þegar ég kaupi þær dugir bakkinn mér í raun fjórum sinnum í matinn, þ.e. tvisvar í kvöldmat og tvisvar í nesti í hádeginu. En jæja, ekkert við því að gera.

Image

Ég byrjaði á að setja upp pott með saltvatni til að sjóða perlukúskús, sem ég hef áður talað um hér. En í staðinn má til dæmis hafa eitthvert pasta með þessu. Og svo setti ég dálitla olíu á pönnu og hitaði hana.

Á meðan vatnið hitnaði að suðu og olían hitnaði á pönnunni blandaði ég saman 2-3 matskeiðum af hveiti, salti, pipar, dálitlu þurrkuðu timjani, ögn af kanil og svolítilli sterkri ungverskri papriku, sem hann sonur minn elskulegur færði mér úr The Spice Shop í Notting Hill þegar hann kom frá London á dögunum. Ef þið hafið aldrei komið í The Spice Shop skuluð þið endilega gera ykkur ferð þangað þegar þið eruð í nágrenninu, nema náttúrlega ef þið hafið ekki nokkurn minnsta áhuga á kryddi. En það höfum við mæðginin.

Image

Ég setti svo kúskúsið í pottinn og stillti eldavélarklukkuna á 10 mínútur. Velti svo kjúklingalundunum upp úr krydduðu hveitiblöndunni og setti þær á heita pönnuna og steikti við meðalhita. Sneri þeim eftir svona fimm mínútur.

Image

Ég ákvað að hvíla matvinnsluvélina. En ég á töfrasprota líka þótt ég muni ekki alltaf eftir honum og það fylgir honum svona míni-mixer, sem kemur alveg í stað matvinnsluvélarinnar í smotterí eins og basilíkusósu (ég vil ekki kalla þetta pestó, það væri rangnefnI). Ég setti knippi af basilíku í skálina, svona tvær matskeiðar af heslihnetum, tvo hvítlauksgeira, safa úr um það bil fjórðungi af sítrónu, salt og pipar.

Image

Lét vélina ganga þar til allt var komið í spað og þeytti þá 4 msk af ólífuolíu saman við.

Image

Það stóðst á endum að akkúrat þegar eldavélarklukkan hringdi til að láta vita að kúskúsið væri til var sósan tilbúin og kjúklingalundirnar steiktar. Ég hellti kúskúsinu í sigti og lét renna af því, hrærði einni matskeið af basilíkusósunni saman við til að krydda það aðeins.

Image

Skar niður tómat og tíndi til nokkur salatblöð og sítrónubáta og þá var kvöldmatuirinn tilbúinn – á rúmum 10 mínútum. Og nestið fyrir morgundaginn tilbúið um leið.

Image

Svo fékk ég mér eftirmat sem ég átti til í ísskápnum, vill einhver giska?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s