Ofurberjamúffur

Ég man satt að segja ekki hvort ég hef sagt frá því hér (en allavega á Facebook) að undir lok mánaðarins á að koma út ný bók eftir mig, matreiðslubók nema hvað – eða bakstursbók öllu heldur. Bókin heitir Múffur í hvert mál og er, merkilegt nokk, eingöngu um múffur. Muffins ef þið viljið svo hafa. Ekki bollakökur, þetta er tvennt ólíkt. Þarna eru hollustumúffur (eða svona bærilega hollar, allavega) til að borða í morgunmat eða með morgunkaffinu, múffur til að hafa í nestið, í brönsinn eða með súpunni, múffur til að borða í kvöldmatinn jafnvel, sætar múffur, bæði sparilegar og hversdags, og svo bakaði ég múffur handa hundinum Bangsa og Forlagsköttunum Randver og Nóa og þær komust í bókina líka. Svo þetta er eitthvað fyrir alla.

Mig langaði í eitthvað með kaffinu áðan og á eldhúsbekknum lágu verulega vel þroskaðir bananar sem eiginlega kölluðu á að láta baka úr sér. Og svo er rigning, ég veit ekki hvort það er tilviljun en ég er löngu búin að sjá að það er samhengi á milli þess að það rignir og ég baka úr banönum. Veit ekki hvernig á því stendur.

Þessi uppskrift er ekki í nýju bókinni en það eru ekkert ósvipaðar uppskriftir þar. Hún er allavega auðveld og einföld eins og allar múffurnar í bókinni. Eiginlega er múffubakstur alveg ótrúlega einfaldur.

Þessir þrír bananar voru farnir að dökkna verulega, voru linir viðkomu og bananailmurinn fannst fram á gang. Einhverjir hefðu kannski hent þeim en svona eru þeir bragðmestir og bestir í bakstur.

Ég hitaði ofninn í 185°C. Flysjaði banana og setti þá í matvinnsluvélina ásamt 150 ml af hreinni jógúrt (má vera súrmjólk eða AB-mjólk), 100 g af púðursykri, 85 ml af olíu og 1 eggi. Matvinnsluvélin er ekkert nauðsynleg, það má stappa bananana með gaffli og hræra svo öllu hinu saman við þá í skál með sleif eða sleikju.

 

Ég maukaði þetta og hellti því svo í skál. Blandaði 300 g af hveiti, 2 !/2 tsk af lyftidufti, 1(2 tsk af matarsóda og 1/4 tsk af salti saman í annarri skál, sturtaði því yfir bananablönduna og hrærði allt saman með sleikju – bara rétt til að deigið yrði kekkjalaust, það á alls ekki að hræra múffudeig mikið og helst sem allra minnst, annars geta múffurnar orðið seigar. Ég hefði getað hrært hveitið saman við í matvinnsluvélinni en þá er hætt við að ég hefði fengið seigar múffur.

Já, þetta eru einhver ofur-heilsuber. Goji-ber og hvaðeina. Nei, ég er ekki komin á eitthvert hollustutripp. Mér þykja bara þurrkuð ber góð upp til hópa og þetta var skemmtileg tilbreyting. Einn poki (80 g) af berjablöndu (goji-ber, múltuber, bláber, blæjuber) frá Góðu fæði. En það mætti alveg eins nota eitthvað annað – trönuber, rúsínur, eða sleppa berjunum og nota e.t.v hnetur. Eða súkkulaðibita. Eða láta bananana bara duga.

En ég notaði semsagt þessa berjablöndu og blandaði henni saman við með sleikju.

Image

Ég tók málm-múffuformið mitt, sem einu sinni átti að heita viðloðunarfrítt en er það allavega ekki lengur, og setti í það tólf sílikonmúffuform. Sem eru mikil snilld; það má nota pappírsform til að klæða málmformið en þá má alltaf búast við að eitthvað af múffunni sitji eftir á pappírnum (nema sé þeim mun meiri feiti í deiginu) og svo má auðvitað nota pappírsform eingöngu og raða þeim á bökunarplötu en þá er yfirleitt ekki hægt að setja mikið í formin og múffurnar renna meira og minna út.

Reyndar hugsa ég að það sé ekki heppilegt að baka þessar múffur í pappírsformum engöngu því deigið er frekar þunnt. Ég vildi fá frekar stórar múffur svo ég fyllti formin alveg en ég hefði líka getað fyllt þau að 2/3 eða jafnvel bara að hálfu og bakað múffurnar í tvennu lagi.

Ég bakaði múffurnar á næstneðstu rim í ofninum í um 18 mínútur. Þær lyftu sér ansi vel eins og sjá má; góður ,,muffin top“.

Þetta voru hinar ágætustu múffur. Ábyggilega alveg óskaplega bráðhollar út af öllum þessum ofurberjum en ég var nú meira að hugsa um bragðið og það var bara alveg ljómandi. Bananar og ber, það virkaði vel saman.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s