Brúnkur þurfa ekkert að vera dísætar

Elstu uppskriftir að brúnkum (brownies) eru frá árinu 1904. Þær eru bandarískar að uppruna og það er sagt að kaupsýslukonan Bertha Palmer hafi átt hugmyndina að þeim, eða þær hafi verið skapaðar samkvæmt fyrirmælum hennar. Ekki veit ég hvað er til í því en ef það er rétt á Bertha hrós skilið (jæja, eða bakarinn sem hún skikkaði til að baka þær). Mér þykja brúnkur alveg ljómandi góðar, svo framarlega sem þær eru ekki of sætar eða of þurrar (sem er oft vegna þess að þær hafa verið bakaðar of lengi).

Þegar ég var á Gestgjafanum setti ég saman uppskrift fyrir kynningu á muscovado-sykri fyrir Dansukker (eða innflytjandann) sem þóttu svo góðar að ég kallaði þær Heimsins bestu brownies. (Annars er ég ekki vön að taka mjög stórt upp í mig þegar ég gef uppskriftum nafn.) Uppskriftina má finna á nokkrum stöðum á netinu. Í smáréttabókinni minni er uppskrift sem er næstum eins nema þar er ekki muscovadosykur. Þar er líka ansi góð uppskrift að hindberjabrúnkum.

Brúnkurnar sem ég bakaði áðan eru töluvert öðruvísi en mér þóttu þær nokkuð góðar. Ég notaði pistasíuhnetur og þurrkuð trönuber af því að ég átti það til en svo má líka nota einhverjar aðrar hnetur og t.d. rúsínur (þó helst ljósar).

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum á 170°C og setti svo 100 ml af mjólk, 200 g af smjöri, 250 g af suðusúkkulaði og 200 g af púðursykri í pott við vægan hita og lét bráðna og samlagast; hrærði nærri stöðugt á meðan.

Tók pottinn af hitanum um leið og allt var bráðið, lét blönduna aðeins kólna en hellti henni svo í hrærivélarskál. Tók fjögur egg, braut þau í bolla eitt af öðru og þeytti þeim saman við súkkulaðiblönduna. Ég brýt egg næstum alltaf í bolla eða skál áður en ég hræri þeim saman við deig; gerði það ekki hér áður fyrr en þegar maður hefur einu sinni lent í að þeyta verulega mögnuðu fúleggi saman við fínt tertudeig, þá …

Svo blandaði ég saman 200 g af hveiti, 2 msk af kakódufti, 2/3 tsk af kanil og 1/4 tsk af salti, sigtaði yfir súkkulaðiblönduna og hrærði saman við. Best að hræra ekki mikið samt. – Ekkert lyftiduft, það þarf ekki í þessar brúnkur. Eggin sjá alveg um lyftinguna.

Að síðustu blandaði ég saman 100 g af pistasíuhnetum og 100 g af þurrkuðum trönuberjum og hrærði saman við deigið með sleikju.

Ég penslaði ferkantað form, 23 cm á kant, með örlítilli olíu  og klippti tvær 24 cm breiðar lengjur af bökunarpappír og lagði í kross yfir formið (olían er til að festa pappírinn). Svo hellti ég deiginu í formið. Það er svo þunnt að það þarf ekkert að jafna yfirborðið neitt.

Svo bakaði ég kökuna neðst í ofni í um 25 mínútur (hún þarf aðeins styttri tíma ef formið er stærra um sig og kakan þar af leiðandi þynnri. Hún á að vera með skorpu að ofan en blaut að innan eins og sést á hnífsblaðinu. Ég skar hana í sextán jafna bita.

Þetta urðu bara alveg ágætis brúnkur. Jújú, þær eru sætar, mikil ósköp, en ekki eins dísætar og margar frænkur þeirra. Kanilbragðið gerði þær svolítið spes, ég kunni að meta það en það má minnka kanilinn eða jafnvel sleppa honum alveg, brúnkurnar yrðu vel ætar samt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s