Kótilettur í raspi og kakósúpa með hagldabrauði

Ég er með barnabarn númer eitt í kvöldmat þessa dagana því foreldrar hennar, bróðir og hundurinn eru í sumarbústað. Stúlkan er að vinna tvöfaldar vaktir í bakaríinu og lesa undir þýskupróf og er auk þess þrælkvefuð svo ég ákvað að vera góð og elda handa henni ekta ömmumat. Kótilettur í raspi og kakósúpu með hagldabrauði (hún vildi reyndar frekar tvíbökur).

Image

En ekki Paxo, neei, það eru nú takmörk fyrir hvað ég vil vera ömmuleg. Ég reif niður þrjár sneiðar af grófu brauði, setti í matvinnsluvélina og lét hana ganga þar til það var orðið að frekar fínni mylsnu. Setti svo blöð af tveimur rósmaríngreinum, einn vorlauk, pipar og salt saman við og lét ganga þar til kryddjurtirnar voru líka orðnar að mylsnu.

Image

Hér áður fyrr hefði maður nú barið kótiletturnar í drasl með buffhamri en ég á ekki einu sinni svoleiðis tæki og sleppti öllum barsmíðum. Ég hitaði dálitla olíu á pönnu, setti smjörklípu út í og lét hana bráðna, setti raspið á disk og sló tvö lítil egg saman á öðrum. Velti svo kótilettunum upp úr egginu, þrýsti þeim vel niður í raspið og brúnaði þær við góðan hita í svona 2 mínútur á hvorri hlið.

Image

Þá hellti ég svona 200 ml af vatni á pönnuna, lækkaði hitann, lagði lok lauslega yfir og lét malla rólega í 6-8 mínútur, þar til vatnið var allt gufað upp og kótiletturnar vel meyrar.

Image

Og bar kótiletturnar svo fram með grænum baunum (Ora, nema hvað), salatblöðum, tómötum og sítrónubátum. Og  bráðnu kryddsmjöri (smjör brætt með fersku timjani, hvitlauk, pipar og salti).

Þetta var alveg töluvert ömmulegt. Og ekki finnst mér það nú slæmt. Barnabarninu ekki heldur.

Image

Og svo var það kakósúpan, sem af einhverjum ástæðum hefur á síðustu árum fengið á sig slæmt orð sem hún á alls ekki skilið. Ekki mín kakósúpa allavega. Mér finnst þvert á móti að það ætti að halda heiðri þessarar sérstöku íslensku súpu á lofti.

Ég var bara að gera súpu fyrir okkur tvær svo ég setti 300 ml af vatni í pott og hitaði að suðu. Á meðan blandaði ég 1 1/2 msk af kakódufti, 2 msk af sykri, 1/2 tsk af kanil og ögn af salti saman í lítilli skál, hellti svo dálitlu sjóðandi vatni út í og hrærði þar til blandan var kekkjalaus. Hellti henni saman við vatnið í pottinum og þegar fór aftur að sjóða hellti ég 350 ml af mjólk út í, hitaði að suðu og lét malla 2-3 mínútur. Á meðan hrærði ég 1 1/2 tsk af kartöflumjöli út í dálitlu köldu vatni, tók svo súpupottinn af hitanum og hrærði kartöflumjölsblöndunni saman við (fram og aftur, ekki í hringi). Og hún má ekki sjóða aftur.

Image

Mér finnst alltaf best að fá hagldabrauð út í súpuna mína (harðar kringlur, ef þið vissuð það ekki) en það má líka nota tvíbökur, kornflex, niðurrifið franskbrauð eða hvað sem þið viljið. Eða þeyttan rjóma ef því er að skipta.

Image

Og ég vil hafa mína kakósúpu svolítið þykka og lítið sæta. En það er nú smekksatriði. Þessi súpa kláraðist allavega upp til agna og ég fékk bara einn disk …

2 comments

  1. Vildi bara þakka þér kærlega fyrir skemmtilegan póst, ég hlakka alltaf til að fá sendingu frá þér. Verst er að ég verð svo svöng við lesturinn, en vona að ég fari að taka mig til og elda meira fyrir sjálfa mig, hef verið ósköp löt síðan börnin fóru að heiman. En s.s. kærar þakkir fyrir að leyfa okkur að fylgjast með.
    Kærar kveðjur Sigrún.

  2. Takk fyrir það. – Já, ég kannast svosem við þetta, nenni ekki alltaf að elda fyrir mig eina en eins og sést hér er ég oft að elda frekar litla skammta sem henta einum (oftasr þó tveimur, því það þýðir að ég get tekið afganginn með mér í nesti í vinnuna eða breytt réttinum eitthvað og haft hann aftur daginn eftir).

    Eitt aðalvandamálið er kannski að það er oft erfitt að fá hráefni í nógu litlum skömmtum fyrir einn og þess vegna er ég oft með svipað hráefni (aðalhráefni, grænmeti eða annað) í réttum tvo daga í röð eða með mjög stuttu millibili.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s