Soutzoukakia. Eða grísk-tyrkneskar kjötbollur – með meiru

Ég fékk börn, tengdabörn, barnabörn og hund (sem þekkir mig sem ,,ömmu“ og telst því kannski til barnabarnanna) í mat í gærkvöldi og ákvað að gefa þeim grískar (eða grísk-tyrkneskar) kjötbollur með sveitasalati og bratwurst-kartöflum (nei, það er nú ekki grísk uppskrift). Og heimabökuðu brauði. Og ís á eftir, en ég sagði nú frá sósunum með honum í gær.

Þessar bollur kallast soutzoukakia og uppskriftin er (með smábreytingum) úr bókinni Food From Many Greek Kitchens eftir Tessu Kiros. Hún segir að þær séu upprunnar í Smyrnu, sem nú heitir Izmir og er í Tyrklandi en var áður grískur bær.

Image

Ég byrjaði á að taka um 100 g af tveggja daga gömlu brauði, rífa niður og setja í skál. Eiginlega átti það að vera skorpulaust en þetta brauð var með frekar mjúkri skorpu svo ég sá ekki ástæðu til þess (og var heldur ekki viss um að eiga nóg af brauði ef ég skæri af því skorpuna). Svo hellti ég mjólk yfir – líklega svona 150 ml en í rauninni skiptir það ekki máli, mjólkin þarf bara að vera nægilega mikil til að bleyta brauðið vel.

Image

Ég hafði keypt 800 g af nautahakki og nú tók ég svona fjórðunginn af því og setti í matvinnsluvélina ásamt 1 eggi, 2 tsk af kummini (hefði viljað nota nýmalað en átti engin fræ), lófafylli af saxaðri steinselju (fjallasteinselju), 3 grófsöxuðum hvítlauksgeirum, pipar og salti. Lét vélina ganga þar til allt var orðið að frekar fíngerðu farsi og þá kreisti ég vatnið úr brauðinu, setti það út í og maukaði saman við.

Image

Svo setti ég farsið í stóra skál, bætti afganginum af hakkinu út í og blandaði saman með höndunum. – Ég geri þetta oft svona, tek hluta af hakkinu og blanda saman við allt hitt hráefnið í matvinnsluvél til að krydd og annað blandist sem best saman við og hnoða svo því sem eftir er af hakkinu saman við með höndunum til að fá réttan grófleika. Set ekki allt hakkið í matvinnsluvélina nema ef ég vil sérlega fínt fars, en yfirleitt finnst mér betra að hafa kjötbollur frekar grófhakkaðar.

Merkilegt annars hvað hendurnar á fólki líta oft asnalega út á svona myndum.

Image

Svo hitaði ég væna skvettu af olíu á þykkbotna pönnu, nokkuð stórri (þetta er samt ekki stóra pannan mín, þið ættuð að sjá hana …) , mótaði bollur (á stærð við golfkúlu) með matskeið og brúnaði þær á þremur hliðum við nokkuð góðan hita.

Image

Ég opnaði tvær dósir af grófsöxuðum tómötum og hellti á pönnuna, lækkaði hitann þegar fór að sjóða, kryddaði með pipar og salti og lét malla í nokkrar mínútur.

Image

Þá opnaði ég dós af kjúklingabaunum, lét renna af þeim í sigti, blandaði þeim saman við og lét þær rétt hitna í gegn áður en ég stráði saxaðri steinselju yfir bollurnar og bar þær fram á pönnunni.

Image

Gríska sveitasalatið: Græn salatblöð, bara þau sem til eru (ég reif niður eitt eikarlaufssalat), hálf gúrka, skorin í stutta stauta, 3-4 mjög vel þroskaðir plómutómatar (við stofuhita, alls ekki kaldir), 1 lítill rauðlaukur, helmingaður og skorinn í þunnar sneiðar, um 20 ólífur, helst svartar (og helst af öllu þurrsaltaðar), safi úr hálfri sitrónu, vænn slurkur af ólífuolíu, e.t.v. smávegis af þurrkuðu óreganói – öllu blandað saman í skál og væn blokk af fetaosti sett yfir – í heilu lagi, skorin í stauta eða bita eða mulin mjög gróft, eins og hér sést.

Image

Bratwurst-kartöflurnar, skal ég játa, voru hugmynd sem ekki var kláruð af tæknilegum ástæðum. Ég sauð nýjar, litlar kartöflur, skar niður þrjár bratwurst-grillpylsur frá Kjötpól, brúnaði þær í olíu og setti svo kartöflurnar á pönnuna, krydaði með pipar og salti og lét krauma dálitla stund. Alls ekki sem verst reyndar, en átti semsagt að vera öðruvísi …

Hundurinn fékk brauð með villisvínapatéi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s