Þrjár sætar

Þemað fyrir 2013 á árlegri matarráðstefnu í Oxford, sem ég hef farið á nokkur síðustu árin og kem örugglega til með að gera áfram, er Food and Materal Culture. Ég er svolítið að reyna að átta mig á því hvað það þýðir og hvort ég get sett það í eitthvert íslenskt samhengi. Veit það ekki ennþá en mig langar að athuga hvort ég get fundið einhvern flöt á því.

Ég fór samt að hugsa um það áðan að það væri kannski ákveðin tenging í því sem ég var að gera í dag, þannig séð. þótt íslenska sjónarhornið vantaði. Það kemur fyrir að ég bý til mat bara til að nota einhvern tiltekinn borðbúnað, eldunartæki, ílát, eitthvað slíkt. Og það gerði ég einmitt í dag. Ég forvitnaðist nefnilega inn í búð á Laugaveginum um daginn og rak þar augun í hjartalaga grind með þremur glerflöskum, sem mig langaði allt í einu ógnarlega í svo ég keypti þær.

Og svo langaði mig svo til að gera eitthvað gott til að setja í þessar flöskur. Ekki saft eða eitthvað slíkt, þetta eru ekki geymsluflöskur, þær eru tappalausar – reyndar á ég tappa sem passa í þær en það var ekki það sem mig langaði að gera. En ég átti von á fjölskyldunni í kvöldmat og ég ákvað að hafa ís í eftirmatinn (vanilluís frá Emmess) og búa til þrenns konar ávaxtasósur með og setja í flöskurnar. Ég bjó til töluvert meira en ég hefði þurft en það gerir ekkert til, sósurnar geymast í kæli nokkra daga og eru fínar til að bragðbæta jógúrt eða skyr, til dæmis.

Image

Ég byrjaði á bláberjasósu. Setti 2 msk af smjöri og 2 msk af ljósu sírópi í pott, hrærði þar til smjörið var bráðið og lét svo krauma aðeins við meðalhita en ekki brúnast.

Image

Setti svo 300 g af frosnum bláberjum í pottinn ásamt 80 g af sykri, hitaði að suðu og lét malla í nokkrar mínútur, þar til berin voru farin að skila úr sér safanum. Hrærði í öðru hverju.

Image

Þá setti ég sigti yfir skál, hellti berjunum í hana og pressaði þau með sleif til að ná sem mestu af safanum úr þeim. Ég henti ekki hratinu, heldur setti það í litla skál og geymdi. Sósuna lét ég kólna örlítið og hellti henni svo í eina flöskuna gegnum trekt.

Image

Þá var það hindberjasósan. Ég setti 4 msk af appelsínusafa og 2 msk af ljósu sírópið í pott, hitaði og lét sjóða þar til þetta freyddi vel.

Image

Þá setti ég 300 g af frosnum hindberjum og 80 g af sykri út í og lét þetta sjóða í nokkrar mínútur, þar til hindberin voru komin í mauk. Þessi sósa var heldur þynnri en bláberjasósan svo að ég hrærði 3/4 tsk af kartöflumjöli (má líka vera maísenamjöl) út í 2-3 msk af köldu vatni, tók pottinn af hitanum og hrærði jafningnum saman við sósuna (ef notað er maísenamjöl þarf ekki að taka pottinn af hitanum).

Image

Ég hellti þessu svo í sigti og pressaði eins og við bláberin. Hratið setti ég í sömu skál og bláberjahratið og blandaði þessu saman, það er fínt á kex eða ristað brauð. Sósunni hellti ég svo í flösku.

Image

Þriðja sósan var aftur á móti ekki soðin. Ég skar svona 1/3 af ananas og afhýddi tvo banana (þetta reyndist vera fullmikið, mér hefði dugað 1/4 ananas og 1-1 1/2 banani til að fá sama magn og af hinum sósunum) og skar þetta í bita, setti í matvinnsluvélina og maukaði vel.

Image

Ég kreisti safa úr einni mandarínu út í (það má líka nota appelsínusafa) og bætti við 2 msk af sykri – en reyndar er ekki víst að þess þurfi því ávextirnir eru svo sætir. Um að gera að smakka.

Image

Svo tók ég trektina og hellti ananas-bananasósunni í síðustu flöskuna.

Image

Þetta voru nú bara aldeilis ljómandi góðar sósur. Ég gæti lent í vandræðum með hverri þeirra ég á að blanda saman við jógúrtina mína i fyrramálið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s