Ég er heima um verslunarmannahelgina eins og síðustu þrjátíu ogeitthvað verslunarmannahelgar eftir því sem ég best man. Eða kannski hef ég einhverntíma eytt verslunarmannahelgi í Skagafirði fyrr á árum, en það er nú heima líka. Eða var.
En í staðinn ákvað ég að elda mér eitthvað gott og það lá eiginlega fyrir hvað það yrði, það voru tvær sneiðar af nautainnralæri í ísskápnum sem þurfti að fara að nota – ég greip þær með mér í Krónunni einhverntíma fyrr í vikunni, þær voru á 40% afslætti og því í raun býsna ódýrar, ég gleymdi að líta á vigtina en þessar tvær sneiðar hefðu dugað vel í matinn fyrir tvo (eða eina konu tvisvar) og kostuðu innan við þúsundkall.
Ég tók kjötið úr kæli svona klukkutíma áður en ég ætlaði að elda það, velti því upp úr olíu og kryddaði það með grófmöluðum svörtum pipar og rósmaríni og lét standa. Svo stráði ég Maldon-salti á kjötið skömmu áður en það var eldað. Á meðan sauð ég litlar rauðar kartöflur þar til þær voru meyrar.
Svo hitaði ég grillplötuna mína. Ég er óskaplega ánægð með þessa plötu, sem er úr steypujárni og ég fann einhverntíma á útsölu í Hagkaup fyrir lítið. Og á gaseldavélinni minni er hella sem er akkúrat eins og gerð fyrir þessa plötu. Ég tók fjórar beikonsneiðar, setti þær á helluna og steikti þær á báðum hliðum. Tók þær svo af plötunni, setti þær á eldhúspappírsblað, lagði annað blað ofan á og setti farg (reyndar kartöflupottinn) ofan á það til að pressa úr fitu.
Ég skóf svo mestallt rósmarínið af kjötinu (gerir samt ekkert til þótt eitthvað verði eftir), setti það á vel heita pönnuna og grillsteikti það í svona fjórar mínútur á hvorri hlið. Eða eftir þykkt og smekk.
Þarna sýndist mér það orðið mátulegt (sem var líka rétt) svo ég tók það af plötunni, setti það á disk á hlýjum stað, lagði álpappír yfir og lét standa í fáeinar mínútur.
Á meðan kjötið steiktist setti ég 250 ml af rjóma í pott ásamt rúmlega hálfum veeel þroskuðum Bónus-Kastala sem ég átti til, teskeið af kjötkrafti, matskeið af púrtvíni (má sleppa), hálfri teskeið af dijon-sinnepi og dálitlum pipar. Hitaði þetta og hrærði þar til það var vel samlagað og osturinn bráðinn og bætti þá við svolitlum sósulit og smakkaði sósuna til.
Þá voru það kartöflurnar. Ég hellti vatninu af þeim og setti þær í skál. Skvetti dálítilli ólífuolíu yfir, skar niður 1 vorlauk og smávegis steinselju (fjallasteinselju) og blandaði saman við ásamt smávegis pipar og salti. Svo skar ég beikonið smátt og dreifði því yfir.
Og þá var nú fátt eftir annað en opna rauðvínsflöskuna.
Til hvers ætti maður að vera að fara eitthvað um verslunarmannahelgina þegar hægt er að hafa það svona gott heima hjá sér? – Kjötið var fínt, sósan góð, en beikonkartöflurnar voru alveg meiriháttar.