Brauð sem bragð er að

Það er enn sól og sumar og kannski ekki alveg rétti tíminn til að baka brauð en mig langaði nú samt í ávaxtabrauð svo ég bakaði þetta bragðmikla brauð til að fá mér sneið af með kvöldkaffinu. Í rauninni slær hér saman tveimur brauðum, annars vegar ávaxtabrauði og hins vegar timjan- og piparbrauði, en það er bara ansi góð blanda. Finnst mér allavega; brauðið fær sætuna úr ávöxtunum, kraftinn úr piparnum og jarðarilminn úr timjaninu.

Viðvörun samt: Piparinn gefur dálítið mikið kikk í brauðið; ef þú heldur að það sé ekki fyrir þig skaltu minnka hann eða bara sleppa honum.

Image

Ég byrjaði á að setja 250 ml af um 40°C heitu vatni í hrærivélarskálina og strá 1 tsk af hrásykri (má vera venjulegur sykur eða hunang, má líka sleppa) yfir og síðan 2 tsk af þurrgeri. Lét þetta standa í nokkrar mínútur, þar til gerið freyddi, og bætti þá um 300 g af brauðhveiti (bláa frá Kornax) í skálina, ásamt 1 tsk af salti og 2 msk af olíu.

Image

Hnoðaði deigið vel með hnoðkróknum á vélinni og athugaði það svo. Það var aðeins of lint til að hægt væri að taka á því með hveitistráðum höndum svo ég bætti smávegis hveiti (kannski 25-40 grömmum) við og hnoðaði áfram í vélinni. Mótaði deigið svo í kúlui, breiddi viskastykki yfir skálina og lét deigið lyfta sér í rúman klukkutíma. Kannski einn og hálfan, ég var ekkert að líta á klukkuna. Svona deig gerir enga sérstaka heimtingu til þess.

Image

Á meðan tók ég til 100 g af þurrkuðum apríkósum (hálfþurrkuðum reyndar, þær eru bestar í þetta), sirka 25 grömm af þurrkuðum trönuberjum (mættu líka vera rúsínur, gjarna ljósar) og nokkrar timjangreinar. Skar apríkósurnar í litla bita og saxaði timjanið smátt.

Image

Svo grófsteytti ég 3/4 tsk af svörtum pipar í mortélinu og blandaði saman við ávextina og timjanið í skál.

Image

Ég tók deigið, togaði það og teygði með hveitistráðum höndum í breiða lengju, lagði það á vinnuborð (eða í þessu tilviki mína ágætu marmaraplötu, sem oft kemuir sér vel) og stráði ávöxtum, timjani og pipar yfir.

Image

Svo rúllaði ég deiginu upp, braut það saman og hnoðaði aðeins.

Image

Rúllaði það svo út í lengju og reyndi að láta sem minnst sjást i ávextina því þeim hættir við að brenna. Ég setti brauðið svo á pappírsklædda plötu, breiddi viskastykki yfir og lét það lyfta sér á meðan ég hitaði ofninn í 225°C – en eftir á að hyggja hefði 210°C verið heppilegri hiti. Svo penslaði ég brauðið með vatni og bakaði á neðstu rim í um 25 mínútur.

Image

Svo tók ég brauðið út og lét það kólna. Skorpan var fín en botninn örlítið of dökkur (þó ekki brunninn) og þeir fáu ávextir sem sást í voru sumir svartir. Það er semsagt líklega betra að hafa hitann aðeins lægri og baka þá brauðið nokkrum mínútum lengur ef þarf.

Image

Volgt með smjöri. Namminamm. (En verður nú líklega ágætt á morgun líka.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s