Jæja, núna steikti ég hamborgarann sem mig langaði í í gær (og áfram í dag, mikil ósköp). Reyndar er grillið enn gaslaust svo að hann fór bara á grillpönnuna. Sem er hvort eð er minna vesen og munar ekki það miklu á bragði.
Góðir hamborgarar eru afbragðsmatur en ég er ekkert voðalega mikið fyrir hamborgarabrauð, allavega ekki þessi típísku íslensku. En það er nú engin ástæða til þess að sleppa hamborgurum fyrir það; einn möguleiki er að sleppa brauðinu barasta (en þá eru þetta náttúrlega buff en ekki borgarar) eða nota bara eitthvert annað brauð. Og það gerði ég.
Ég hafði ekki tíma til að fara í Nóatún svo að ég keypti hakk í Bónus. Þar fékkst það því miður ekki nema í 600 gramma umbúðum svo að ég notaði bara helminginn og geri kannski eitthvað annað úr hakki á morgun. Mig langaði í stóran borgara en 300 gramma hamborgari er nú fullstór fyrir mig þótt ég sé átvagl svo að þegar ég var búin að steikja hann tók ég þriðjunginn frá til að hafa í nestið á morgun.
Ég keypti nautgripahakk, 16-20% feitt, í borgarana, finnst það mun betra en magurt ungnautakjöt. Borgararnir verða bæði bragðmeiri og safaríkari. En allt er þetta nú smekksatriði.
En ég byrjaði á kartöflunum. Skar niður litlar, nýjar íslenskar kartöflur, hitaði olíu á pönnu, setti kartöflurnar á hana, stráði Maldon-salti yfir og steikti kartöflurnar í svona 10 mínútur. Hrærði oft í á meðan. Svo stakk ég þeim í ofninn, sem ég var búin að hita í 200°C, og hafði þær þar í svona 8 mínútur í viðbót, eða þar til þær voru orðnar meyrar.
Svo setti ég hakkið í skál, bætti við pipar, salti, nokkrum söxuðum timjangreinum og svona hálfri matskeið af hlynsírópi. Þetta með hlynsírópið var ég nýbúin að sjá í uppskrift einhvers staðar a netinu; sú uppskrift fékk svo mikið hrós að ég varð að prófa þetta. Blandaði öllu lauslega saman en reyndi að forðast að hnoða hakkið.
Ég mótaði stóran og þykkan hamborgara úr hakkinu og bar örlitla olíu á báðar hliðar með lófunum. Hitaði svo grillpönnuna vel og setti hamborgarann á hana ásamt þremur beikonsneiðum og steikti í svona fjórar mínútur við góðan hita. Sneri beikonsneiðunum einu sinni og tók þær af pönnunni þegar þær voru tilbúnar og lét renna af þeim milli tveggja eldhúspappírsblaða.
Á meðan tók ég súrdeigsbrauð sem ég átti og skar af því tvær sneiðar (á ská, því brauðið var ekki mjög stórt um sig). Setti þær á grillpönnuna og um leið og ég sneri borgaranum skar ég nokkrar sneiðar af kastalaosti og setti ofan á. Steikti svo borgarann í svona fjórar mínútur í viðbót og grillaði um leið brauðið á báðum hliðum.
Kartöflurnar voru tilbúnar og ég tók þær úr ofninum.
Setti aðra brauðsneiðina á disk, hamborgarann þar ofan á og svo beikonsneiðarnar og hina brauðsneiðina. Diskurinn er stór svo ég setti líka tvær litlar sósuskálar á hann með sósum sem ég hafði útbúið og svo salatblöð og kartöflur.
Þetta var bara akkúrat það sem mig hafði langað í. – Já, og með hlynsírópið – mér fannst bragðið af því skemmtileg viðbót en ef ég nota það aftur mundi ég sennilega aðeins minnka skammtinn (í uppskriftinni sem ég sótti hugmyndina í var þó miklu meira hlynsíróp, en hún var náttúrlega amerísk).
Gula sósan er grísk jógúrt, grófkorna sinnep, ögn af sætu sinnepi, pipar og salt. Rauða sósan er 1/3 Vals tómatsósa, 1/3 Heinz sæt chilisósa og 1/3 tómat- og paprikumauk frá Sacla.
Like it…er sammála þessu með hamborgarabrauðin…finnst þau þurr, leiðinleg og óspennandi
bakaðirðu súrdeigsbrauðið sjálf eða er það frá Sandholtsbakaríi? Ég er gersamlega fallin fyrir brauðunum frá þeim, verst hvað þau eru dýr 😦
(er ekki einu ‘ekki’ ofaukið, væntanlega forðaðistu að hnoða hakkið…)
Rétt með ekkið, laga það. – Brauðið er nú bara keypt í Nóatúni og er líklega ekki alveg vaskekta súrdeigsbrauð þótt það heiti það en það er fínt í svona.
Sæl Nanna. Nú finnst mér virkilega gaman að búa til mína eigin hamborgara og hef prófað ýmislegt þegar kemur að þeim. En mig langaði að spyrja þig hversvegna þú forðast að hnoða hakkið?
Þegar ég geri hakkið í mína hammara þá set ég það vanalega í skál ásamt því sem á að vera í buffinu og blanda því vel saman. Gott ef ég hnoða ekki hakkið 🙂
Sæll. Það er einfaldlega vegna þess að mér finnst borgararnir verða þéttari og þyngri í sér ef hakkið er hnoðað eitthvað að ráði eða meðhöndlað mikið. Ég vil helst bara blanda öllu hráefninu lauslega saman með höndunum án þess að hnoða og móta svo borgarana með blautum höndum og reyni að pressa þá ekki of mikið. Svona finnst mér þeir verða bestir.
Takk fyrir svarið Nanna, ég prófa þetta næst!
Og kærar þakkir fyrir síðuna, ég er að verða búinn að lesa hvern einasta staf 🙂