Á laugardaginn eldaði ég fyrir rúmlega áttatíu manns (og hafði vissulega góða hjálp við það), í gær ekki neitt svo að í dag fannst mér mátulegt að elda fisk fyrir einn. Reyndar helltist um miðjan daginn yfir mig töluverð löngun í safaríkan hamborgara en ég sigraðist á henni í bili (og svo var ekki til hakk í Nóatúni og ég nennti ekki að bíða í fimm mínútur eftir að það væri búið að hakka meira og svo er heldur ekkert gas á grillinu og það var rigning þótt sólin skíni núna og komið fínasta grillveður). Svo að ég keypti dálítið þorskflak og birgði mig í leiðinni upp af grænmeti.
Svo þegar ég kom heim mundi ég eftir þessum fimm risarækjum sem ég fann í frystinum um daginn. Þær höfðu einhverntíma orðið eftir þegar ég hafði notað afganginn af rækjunum úr pokanum í eitthvað annað og svo hafði ég aldrei munað eftir þeim. Og líklega aldrei litið á dagstimpilinn þegar ég hef verið að taka til í frystinum eða affrysta. Ég ætla ekkert að segja hvenær ,,best fyrir“-dagurinn á þessum var …
Ég ákvað að hafa perlukúskús (ísraelskt kúskús) með fiskinum. Ég er dálítið hrifin af því og mjög ánægð með að það skuli loksins vera fáanlegt hér, allavega í einhverjum búðum. Það er eiginlega ekkert líkt venjulegu kúskúsi, meira eins og pasta, og er fínt meðlæti með ýmsum mat og ekki síður í salöt og súpur.
Ég hitaði saltvatn í potti, hellti kúskúsinu út í, hrærði í og sauð það rólega í svona tíu mínútur en hellti því svo í sigti og lét renna af því.
Svo tók ég þorskflakið – það var svona 250 grömm – og kryddaði það með pipar og salti á báðum hliðum, reif dálítið af sítrónuberki (lífrænt ræktuð sítróna) yfir aðra hliðina og stráði þurrkaðri basilíku yfir. Þessi basilíka varð óvart þurrkuð, ég gleymdi að vökva áður en ég fór norður á ættarmót. Þeir sem ekki eiga óvart þurrkaða basilíku geta sleppt því eða notað ferska eða eitthvað annað. Ekki nota þurrkaða basilíku úr búð.
Ég hitaði grillið í ofninum til að hafa það tilbúið og svo hitaði ég 2-3 msk af olíu vel á pönnu, setti flakið á hana með roðhliðina niður og dreifði í kring tveimur plómutómötum sem ég hafði skorið í báta. Ég steikti þetta í svona tvær mínútur við meðalhita og setti svo rækjurnar á pönnuna og stakk henni svo beint undir grillið.
Þetta var tilbúið eftir þrjár mínútur. Ég lagði sítrónubáta ofan á og bar þetta svo fram ásamt kúskúsinu, blönduðu söxuðum vorlauk, ólífuolíu, sítrónusafa, pipar og salti.
Sósan var bara grísk jógúrt, þynnt aðeins með köldu vatni og blönduð svolitlum afgangi af sósu sem ég gerði til að hafa með forréttinum á ættarmótinu (tvíreyktu hangikjöti, reyktum laxi og graflaxi) og var eiginlega hefðbundin graflaxsósa mínus dill.
Já, og aldurhnignu rækjurnar. Þeim var vissulega heldur farið að hraka, voru dálítið þurrar og ekki bragðmiklar, en sosum ekkert að þeim og þær spilltu þorskinum ekkert. En það má náttúrlega hafa splunkunýjar rækjur líka …