Hænuungi að hætti Torfhildar

Ég er alltaf á höttunum eftir gömlum uppskriftum og er mikið að grúska á timarit.is. Þar er stundum hægt að finna þær á óvæntum stöðum og þessa fann ég í dag í tímaritinu Dvöl, sem skáldkonan Torfhildur Hólm, sú merkilega kona, gaf út á sínum tíma. Ég veit ekkert um matargerð Torfhildar en þar sem hún skrifaði sjálf eða þýddi mestallt efni í tímarit sín finnst mér trúlegt að þessi uppskrift sé frá henni. Kjúklingur var ekki algengur matur á þessum tíma en Torfhildur hafði búið vestanhafs og kynnst annars konar matargerð. En uppskriftin er reyndar nokkuð dæmigerð fyrir þennan tíma – já, ég gleymdi því, hún birtist árið 1904.

Hænuungi í karrí

Sker  hænuunga í stykki og sjóð hann svo við hægan eld í litlu af vatni, set svo í það 2 teskeiðar af karrí, dálítið af lauk, 4 únsur af smjöri og hálfan bolla af mjólk, eina únsu af rúsínum, sem búið er að taka steinana úr. Áður en sósan er svona búin til, er hænuunginn tekinn upp úr og brúnaður úr smjöri á pönnu. Síðan er hann settur ofan í sósuna og þá settur í hana jafnframt vökvi úr einni sítrónu. Þetta er ljúffengur réttur.

Ég stansaði fyrst við að það átti að sjóða kjúklinginn, svo brúna hann og svo setja hann aftur í sósuna. En svo mundi ég að þetta var nákvæmlega það sem ég gerði í upphafi búskapar míns, þegar ég hafði engan ofn en langaði í steiktan kjúkling – ég sauð bitana og steikti þá svo á pönnu. Og árið 1904 voru ofnar næstum jafnsjaldséðir á Íslandi og kjúklingar.

En allavega, ég ákvað að elda kjúkling að hætti Torfhildar, enda fullvissar hún mann um að þetta sé ljúffengur réttur.

Ég keypti bakka með 6 kjúklingabitum (2 upplæri, 2 leggir, 2 vængir), setti bitana í pott ásamt svo miklu köldu vatni að rétt flaut yfir (sá reyndar seinna að það hefði mátt vera ívið minna) og kryddaði með salti og smápipar. Torfhildur nefnir reyndar ekki salt og pipar en það er ekkert alltaf gert í uppskriftum á þessum tíma. Hitaði að suðu og sauð við hægan eld í 20 mínútur undir loki. Þá veiddi ég kjúklinginn upp úr, setti hann á disk og lét rjúka af honum.

Svo saxaði ég lauk (Torfhildur hefði örugglega saxað hann fínna) og setti í pottinn ásamt 2 tsk af karrídufti, 30 g af rúsínum (þurfti ekki að steinhreinsa þær, þetta voru steinlausar rúsínur), 100 ml af mjólk og 75 g af smjöri (hefði átt að vera rúmlega 100 en ég átti ekki meira, nema það sem ég þurfti til að steikja upp úr) og lét malla nokkra stund.

Svo bræddi ég dálítið smjör á pönnu og brúnaði kjúklingabitana vel. Kreisti hálfa sítrónu (þær sem ég átti voru örugglega mun stærri og safaríkari en sítrónur sem Torfhildur hefði getað fengið 1904) út í sósuna, hrærði og hellti í skál og setti svo kjúklingabitana út í.

Mér fannst að leirtauið og dúkurinn þyrftu að vera í réttum tíðaranda.

Sósan var þunn, meira eins og súpa, sem kom þó ekki að sök því hrísgrjónin sem ég sauð og hafði með drukku hana í sig. Rúsínurnar gerðu þennan rétt svolítið spes en hann var alveg ágætlega ljúffengur, það var rétt hjá Torfhildi blessaðri.

5 comments

  1. veistu hvort karríduft var vinsælt og vel þekkt krydd á Íslandi á þessum tíma, eða jafnvel fyrr? Furðulegt annars hvað það hljómar brútalt að ætla að elda „hænuunga“, þegar maður blæs ekki úr nös yfir að brasa sér kjúkling.

  2. Karrí var notað á Íslandi frá því um miðja 19. öld allavega, það er uppskrift að því í matreiðslubók Þóru Andreu Nikólínu Jónsdóttur frá 1858 og þá virðist það vel þekkt. – Það var ýmislegt til í búðum um aldamótin 1900 sem kemur fólki verulega á óvart að sjá.

  3. Svipaður kjúklingur í karrí var vel þekktur á mínu heimili, og ömmu, keypt var unghæna og matreidd sirka svona. Engar rúsínur samt, hvorki steinlausar né með steini…

  4. Gaman að sjá 100 ára uppskriftir nýttar í dag.
    Hefurðu eitthvað skoðað uppskriftir eins og t.d. „Kjöt í tómat“, mér sýnist það vera staðbundin skagfirsk eldun á lambi undir ítölskum áhrifum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s