Óformlega formkakan

Ég kom við í Bónus á heimleiðinni harðákveðin í að baka kúrbítsköku með súkkulaði. Það strandaði á því að það reyndist ekki vera til kúrbítur. Ókei, hugsaði ég, þá baka ég gulrótaköku með pekanhnetum.

En það voru ekki til gulrætur í Bónus heldur.

Þá mundi ég að ég átti lítinn butternut-kúrbít heima. Ssm er náttúrlega allt annar handleggur en venjulegur kúrbítur, sem er sumarkúrbítur en butternut-kúrbíturinn er vetrarkúrbítur og líkari graskeri, enda kalla sumir hann butternut-grasker. En þetta er sosum ekki grasker heldur.

En ég ákvað semsagt að baka úr butternut-kúrbítnum en sleppa súkkulaðinu. Halda pekanhnetunum og nota þurrkaðar apríkósur með þeim.

Image

Ég fór heim og vigtaði butternut-kúrbítinn. Hann var tæp 900 grömm, sem var of mikið svo ég skar hann í tvennt, skóf svo fræin úr öðrum helmingnum með matskeið, flysjaði hann með flysjunarjárni og skar hann í bita sem ég setti svo í pott og sauð í 15 mínútur. Ég hefði líka getað rifið hann eða látið matvinnsluvélina hakka hann í litla bita en þá hefði kakan orðið svolítið öðruvísi. Á meðan hitaði ég ofninn í 165°C.

Image

Ég hellti af bitunum í sigti þegar þeir voru meyrir og setti þá svo í matvinnsluvélina (já, það gat nú skeð að ég notaði hana …).

Image

Bætti við 150 ml af AB-mjólk (má vera súrmjólk eða jógúrt), 100 ml af ljósu sírópi, 75 g af púðursykri og 3 eggjum og hrærði þetta saman þar til butternut-kúrbíturinn var orðinn að mauki.

Image

Svo vigtaði ég 250 g af hveiti og 150 g af heilhveiti og blandaði saman við þetta 2 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 3/4 tsk af kanil, 3/4 tsk af engiferdufti, 3/4 tsk af kardimommum og svolitlu salti og hellti þessu saman við hveitið. Notaði púlshnappinn á matvinnsluvélinni og lét ganga mjög mjög stutt, bara rétt eins og þurfti til að blanda þurrefnunum saman við. Alls ekki hræra mikið, þá getur kakan orðið seig.

Image

Svo skar ég 100 g af þurrkuðum (eða reyndar hálfþurrkuðum) apríkósum og svona 50 g af pekanhnetum í bita og blandaði saman við með sleikju.

Image

Og hér kom böggið: þegar ég var búin að snúast þrjá hringi í kringum sjálfa mig að leita að jólakökuforminu sem ég ætlaði að baka kökuna í mundi ég að það var orðið ónýtt og ég henti því í vetur og hef ekki komið því í verk að kaupa nýtt. Ég átti bara silíkonform. Og ég vissi að það væri ekki nógu gott því hliðarnar á því eru ekki nógu stífar. Allt í lagi þegar maður er með frekar lítið deig í því, upp á miðjar hliðar eða minna, en þetta deig fyllti næstum formið. En það var ekki um annað að ræða og ég setti deigið í það og stakk því inn í ofninn á neðstu rim.

Image

Ég bakaði kökuna í klukkutíma. Hún leit vel út en eins og ég vissi svignuðu hliðarnar út og kakan varð dálítið tunnulaga. Ég hefði frekar viljað heldur mjórri og hærri köku.

Image

En þetta var nú mesta myndarkaka samt.

Image

Og bragðaist bara alveg ágætlega.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s