Pepperónísúpa með aðstoð jarðskjálftabirgðanna

Ég kom seint heim í dag af því að ég var á fundi vegna væntanlegs ættarmóts Djúpadalsættar og þegar ég var á leið upp stigann fór ég að reyna að rifja upp hvort það væri eitthvað til að borða. Mundi ekki eftir neinu nema einu bréfi af sterkri pepperónípylsu.

Ókei, ég geri bara pepperónísúpu, ákvað ég. Taldi víst að það væri til eitthvað af grænmeti þótt ég myndi það ekki fyrir víst og svo eru alltaf jarðskjálftabirgðirnar. Niðursuðudósaforðinn minn hefur löngum gengið undir nafninu jarðskjálftabirgðirnar í fjölskyldunni því að þegar einhverjir vinir barnanna ráku fyrir margt löngu augun í töluverðan slatta af niðursuðudósum í búrinu og fóru að spyrja hverju það sætti var þeim tilkynnt að húsmóðirin vildi vera viðbúin Suðurlandsskjálfta og vöruskorti í kjölfar hans. Það er nú ekki beint tilgangurinn en það er alltaf gott að eiga nokkrar dósir að grípa til.

Image

Satt að segja var nú ekki um auðugan garð að gresja í grænmetinu en þar var þó hálfur vænn blaðlaukur og ég skar hann og pepperónípylsuna niður og lét krauma í nokkrar mínútur í smávegis olíu (ekki of mikilli, það bráðnar fita úr pylsunni þegar hún fer að steikjast).

Image

Ég fann eina vesældarlega kartöflu og tómaturinn og kúrbítsbitinn voru litlu brattari. En rósmarínið var í lagi. Ég skar þetta frekar smátt og setti í pottinn. Bætti svo við hálfri teskeið af þurrkuðu timjani og hálfri teskeið af kummini og lét krauma aðeins lengur.

Image

Fór í jarðskjálftabirgðirnar og fann eina dós af niðursoðnum kirsiberjatómötum og eina af blönduðum baunum (pinto, cannellini og hvítar nýrnabaunir – svona dósir finnur maður í lífræna rekkanum í Nóatúni). Setti þær út í ásamt slatta af vatni, safa úr hálfri sítrónu og smáskvettu (matskeið kannski) af hlynsírópi.

Image

Ég lét súpuna malla í 8 mínútur eða svo, smakkaði hana, bætti við örlitlu salti og hellti henni svo í skál og skreytti með basilíku (en það er nú óþarfi).

Image

Þetta var alveg ágætis naglasúpa þótt enginn væri naglinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s