Er búin að vera í stanslausum veislum um helgina, brúðkaup í gær og ellefu ára afmæli í dag, svo það mætti halda að ég væri búin að fá nóg af kræsingum. En ég átti nektarínur (sko mig, kallaði þær réttu nafni núna) sem lá dálítið á að nota svo að ég ákvað að gera mylsnuböku, töluvert ólíka bökunni sem ég gerði um daginn. Ég átti líka nokkur hindber í poka í frystinum og tilvalið að hafa þau með.
Og svo notaði ég hafragrjón í deigið. Ég segi alltaf hafragrjón þótt sumir skilji jafnvel ekki hvað ég á við, það ólst ég upp við, það stendur havregryn á pakkanum og mér finnst mjöl vera eitthvað sem er malað. Sem hafragrjón eru ekki. Ef ég tala einhverntíma um haframjöl, þá á ég við hafragrjón sem ég hendi í matvinnsluvélina og læt hana ganga þar til þau eru orðin að mjöli. Bara svo það sé á hreinu …
Ég byrjaði á að bræða 100 g af smjöri. Svo vigtaði ég 75 g af púðursykri. Hann var harður svo ég braut hann í bita og lét hann mýkjast í smjörinu. Setti þetta svo í matvinnsluvél ásamt 25 g af sykri og lét vélina ganga þar til púðursykurinn var kekkjalaus.
Út í þetta setti ég 85 g af hveiti, 1/3 tsk af kardimommum (möluðum; hefði notað nýmalaðar ef ég hefði fundið heilu kardimommurnar sem ég veit að ég á og þá kannski aðeins minna) og ögn af salti og þeytti saman. Svo vigtaði ég 85 g af hafragrjónum og setti út í. Þar sem ég ætlaði að mota hafragrjón en ekki haframjöl ýtti ég aðeins örfáum sinnum á púlshnappinn á vélinni til að grjónin blönduðust saman við en möluðust ekki. Ég hefði líka geta hellt þessu í aðra skál og blandað saman með sleikju eða sleif.
Ég var búin að hita ofninn í 180°C og nú skar ég 6-7 nektarínur í báta (var ekkert að hafa fyrir því að afhýða þær að þessu sinni og blandaði þeim saman við tæplega 100 g af frosnum hindberjum og setti í léttsmurt eldfast form.
Dreifði deigmylsnunni jafnt yfir, setti svona 30-40 g af mjúku smjöri yfir í smáklípum og hellti svo 2-3 matskeiðum af hlynsírópi (eða öðru sírópi) yfir.
Svo setti ég formið í ofninn og bakaði þetta í svona 30-35 mínútur, eða þar til mylsnuþekjan hafði tekið góðan lit og var stökk.
Bakan er best heit eða volg.
Ég tala nú ekki um með ís. – Þarna má auðvitað líka nota ýmsa aðra ávexti eða ber, til dæmis epli, plómur, jarðarber, bláber, rababara (sykraðan) og fleira. Og það má nota kanil í staðinn fyrir kardimommur.
Þessi baka er ekki sérlega sæt og það má vel vera að einhverjum finnist að það mætti vera meiri sykur í henni. Og þá er það bara allt í lagi. Það mætti nota meiri hvítan sykur (alls 50 eða jafnvel 75 g) í deigið. Og blanda smásykri saman við ávextina líka. Mér finnst hún fín svona en það er minn smekkur.