Já, og svo var það eftirrétturinn. Ég átti fullt af fallegum nektarínum í ísskápnum, hafði reyndar keypt þær áður en ég fór til Englands og ekki komið því við að nota þær en þær voru enn í fínasta standi.
Eru þær ekki fallegar? Ég ákvað að búa til ameríska nektarínu-,,cobbler“, sem ég veit ekki alveg hvað á að kalla á íslensku, þetta er eiginlega hvorki kaka né baka. Ekki heldur mylsnubaka, sem er þó svipuð nema deigið er mulið yfir; hér er því eiginlega frekar slett. Slettubaka er samt ekki gott nafn. Í þetta er auðvitað hægt að nota ýmiss konar ávexti, epli, perur, ber og fleira. En ég átti semsagt nektarínur (sem ég kallaði ferskjur í upphaflegri útgáfu af þessari færslu af því að ég var með einhverja meinloku í kollinum, kannski eru þetta elliglöp). Ég er ekki klár á hvað er í einum svona bakka, líklega tvö kíló eða svo.
Ég skar grunnan kross í hverja nektarínu, setti þær í skál og hellti sjóðandi vatni yfir. Lét standa í tæpa mínútu, hellti vatninu þá af og lét kalt vatn buna á þær. Það er mun auðveldara að flysja þær ef þetta er gert. En það má auðvitað líka nota bara hníf (eða hafa hýðið á þeim en það er svolítið seigt). En það má sjá að hýðið er aðeins að byrja að losna.
Venjulega má fletta hýðinu af með fingrunum en það geta líka verið blettir þar sem það situr fast og þá má nota hníf. Svo skar ég hverja nektarínu í báta og henti steininum.
Blandaði saman 4 msk af sykri, 4 msk af púðursykri, 1 1/2 msk af hveiti, 3/4 tsk af kanil og rifnum berki af 1 sítrónu í skál og blandaði svo nektarínubátunum saman við.
Hellti þessu í smurt form, frekar stórt, dreifði vel úr nektarínunum og bakaði þær við 190°C í 10 mínútur.
Á meðan blandaði ég saman í matvinnsluvélinni 125 g af hveiti, 75 g af köldu smjöri í teningum, 4 msk af púðursykri, 4 msk af sykri, 3/4 tsk af lyftidufti og örlitlu salti. Bætti svo við um 4 msk af heitu vatni – deigið á að vera það lint að það sé hægt að sletta því yfir ávextina með skeið. Sem ég gerði, tók formið úr ofninum og dreifði deiginu yfir. En það á ekkert að vera að reyna að jafna úr því eða slétta yfirborðið og það mega alveg vera stór göt á milli.
Svo setti ég þetta aftur í ofninn við sama hita í svona 20 mínútur. Þetta er svo borðað heitt eða volgt og það er voða voða gott að hafa vanilluís með. En ekki nauðsynlegt.
Eru þetta ekki nektarínur?
Jú, auðvitað … Einhver meinloka í kollinum á mér þegar ég var að skrifa, ég var að lesa langa grein um ferskjur áðan … Breyti því.
Ég gerði eiginlega alveg eins köku um daginn nema með rabarbara. Var dásamleg alveg.
Því trúi ég vel. Og rabarbari og nokkur jarðarber með, það er æði.
You have brought up a very excellent details , regards for the post. ckefecdededc