Kryddað og grillað

Mér skilst að veðrið sé að fara að versna og kannski verður lítið um grillveður á næstunni. Svo ég notaði tækifærið og grillaði lambalæri.

Image

Undur og stórmerki, það fékkst ófrosið, ókryddað lambalæri í Bónus. Og það í júlí. Um þetta leyti í fyrra fékkst þar ekkert ókryddað af lambi nema svið. Og ég kaupi ekki kryddað lambakjöt, punktur. ,,Ég vil nú hafa mínar konur sjálfur“ sagði Ólafur á Oddhóli – jæja, ég vil nú krydda mitt kjöt sjálf, það er á hreinu. – Og ég sker alltaf stimpilinn af kjötinu, get ekki annað, það var hamrað svo rækilega inn í mig hér um árið að það yrði maður að gera.

Image

Og ég byrjaði á að setja krydd í mortélið – 1 msk af allrahandaberjum, 1 msk af kóríanderfræi, 2 tsk af svörtum piparkornum, 2 tsk þurrkað timjan, 1 msk salt – og grófsteyta það.

Image

Bætti við 1 tsk af kummini, 1 tsk af paprikudufti (reyktu, en má vera bara venjuleg paprika) og cayennepipar á hnífsoddi og blandaði saman við.

Image

Svo dreifði ég kryddblöndunni á allar hliðar á lærinu og nuddaði því vel inn í kjötið. Lét lærið standa við stofuhita í svona tvo tíma. Hitaði grillið, setti svo lærið á það (lagði olíuborinn álpappírsbút undir, litlu stærri um sig en lærið sjálft, svo það brynni ekki), slökkti á brennaranum undir lærinu, lokaði grillinu og grillaði lærið í um 1 klst. Eftir um hálftíma skar ég kartöflur í tvennt, velti þeim upp úr kryddaðir olíu, raðaði þeim í kring með hýðið niður, lokaði grillinu aftur og lét kartöflurnar grillast í svona hálftíma.

Image

Grilltíminn er auðvitað misjafn, fer bæði eftir aðstæðum og hvað maður vill hafa lærið mikið steikt. Ég og mitt fólk viljum hafa kjötið bleikt í miðju og þess vegna miða ég oftast við að kjöthitamælir sýni 65°C. Ég reyni að hreyfa sem minnst við grillinu, opnaði það bara til að setja kartöflurnar á það og svo til að mæla hitann þegar ég hélt að það væri tilbúið – sem reyndist vera. Svo læt ég lærið standa (á lokuðu grillinu, nema það sé kalt úti) í svona 10 mínútur eftir að ég er búin að slökkva. – Ef maður passar að brjóta alls staðar aðeins upp á álpappírinn svo hvergi geti runnið af honum safnast soð og fita á hann og ef maður fer varlega má hella öllu saman í skál og bera fram með kjötinu eða nota í sósu.

Image

Með þessu hafði ég bara gott salat með ferskum ananas, vel þroskuðu mangói og kíví en það hefði líka mátt hafa  t.d. bakað eða grillað grænmeti.

2 comments

  1. Óli á Oddhóli kunni líka vel að meta hrossakjöt, því feitara, því betra. Alveg þar til einn bóndinn í sveitinni ætlaði nú virkilega að gera vel við karlinn, bauð honum í mat og þar var á borðum vel feitt hross. Karlinn vissi ekki hvert hann ætlaði, hvurslags óæti væri verið að bera fyrir hann!

    Lambið lítur vel út, ég legg aldrei í að grilla heilt læri á litla kolagrillinu mínu.

  2. Kannski svipað með kvenfólkið og hrossin … Þetta var lítið læri, skorið eins og ég vil hafa það; hefði ekki þurft stórt grill fyrir það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s