Það var ekkert til í ísskápnum nema beikon. Sem er ágætt en mig langaði ekki beint í beikon og egg og svo var heldur ekkert brauð til. Svo ég ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og baka beikonbrauð. Fljótlegt, einfalt og gott. Ég er eins og alkunna er á því að allt sé betra með beikoni (eða næstum allt) …
Byrjaði á að setja nokkrar beikonsneiðar (svona 130 g) á þurra, þykkbotna pönnu og steikja þær þangað til þær voru orðnar brúnar á báðum hliðum og stökkar.
Þá raðaði ég þeim á eldhúsrúllublað, lagði annað blað ofan á og setti farg ofan á það og lét standa nokkra stund. Þetta er til að pressa sem mest af fitunni úr beikoninu.
Svona.
Á meðan tók ég fram matvinnsluvélina, setti í hana 100 g af hveiti, 40 g af köldu smjöri í bitum, 1/2 tsk af lyftidufti, 3/4 tsk af þurrkuðu timjani, slatta af pipar og ögn af salti (muna að beikonið er salt). Setti vélina af stað og lét hana ganga þar til þetta var orðið að mylsnu.
Þá bætti ég við einu eggi og lét vélina ganga þar til deigið hnoðaðist í kúlu. Ef það gerist ekki er það of þurrt og þá má bæta við svolitlu vatni. Ef það er hins vegar of blautt til að hægt sé að fletja það út má bæta við dálitlu hveiti.
Svo staflaði ég beikonsneiðunum upp og saxaði þær, og tók lófafylli af basilíku og saxaði hana líka. Það má nota aðrar ferskar kryddjurtir í staðinn, eða þá þurrkaðar.
Blandaði beikoni go basilíku saman við deigið. Ég gerði það í matvinnsluvélinni og notaði púlshnappinn til að þetta saxaðist ekki of smátt en það má líka hnoða það saman við í höndunum. Svo skipti ég deiginu í tvennt því ég ætlaði að gera stórar flatkökur; það má líka hafa þær minni.
Ég flatti deigið þunnt út á hveitistráðu borði (eða marmaraplötu í þessu tilviki). Strauk mestalla beikonfituna af pönnunni sem ég steikti beikonið á með eldhúsrúllublaði og hitaði hana aftur en hafði hitann vægan.
Setti flatkökuna á pönnuna, pikkaði hana með gaffli og steikti hana í svona 2-3 mínútur. Þá sneri ég henni og steikti hana í svona mínútu á hinni hliðinni.
Tók flatbrauðið af pönnunni og setti það á disk. Setti salatblöð og tómata ofan á. Það mætti hafa hvað sem er, alls konar grænmeti, sósur (t.d. pestó eða kryddaða jógúrtsósu).
Ég hafði ætlað að gera vefjur úr brauðinu en það var of stökkt til þess og rifnaði. Svo ég borðaði það bara eins og það kom fyrir. Það var nú bara ágætt líka.
Þetta brauð mætti líka skera í geira eða bita og bera fram sem snarl, annaðhvort með smjöri og jafnvel osti eða t.d. með hummus eða annarri ídýfu.