Hér er önnur uppskrift undir áhrifum frá Oxford – eða öllu heldur, mín útgáfa af uppskrift sem var uppistaðan í einkar skemmtilegum fyrirlestri á ráðstefnunni. Fræðikonan Laura Shapiro ræddi um Pillsbury Best Bake-Off bökunarkeppnina, sem hefur verið haldin árlega í yfir 60 ár. Framan af voru það venjulegar kökuuppskriftir sem voru sendar inn og unnu; tertur, smákökur, brauð, bollur og bökur. Allt bakað úr Pillsbury Best hveiti, auðvitað; einu sinni eða tvisvar voru sigurvegararnir með bökur þar sem notað var tilbúið Pillsbury bökudeig.
En árið 1969 vann Edna Walker frá MInnesota með uppskrift að Magic Marshmallow Crescent Puffs, sætum bollum gerðum úr tilbúnu gerdeigi (refrigerated crescent dinner rolls) og það var eins og flóðgáttir opnuðust – allar götur síðan hafa flestar uppskriftir sem berast í keppnina og flestir sigurvegararnir verið bakkelsi úr tilbúnu Pillsbury-deigi af ýmsu tagi eða kökublöndum úr pakka. Auðvitað er þetta svo bragðbætt á ýmsan hátt og sett á það alls konar krem og dúllerí – en kökur gerðar frá grunni eru orðnar afar sjaldséðar.
Ég ákvað að prófa að baka töfrasykurpúðahálfmánabollurnar, sem eru enn mjög vinsælar í Bandaríkjunum en eru gjarna kallaðar páskabollur eða upprisubollur, af ástæðu sem kemur í ljós á eftir. En ég bjó til gerdeigið sjálf. Og af því að mér sýndust þær alveg nógu sætar sleppti ég glassúrnum.
Ég byrjaði á að velgja 150 ml af vatni, setja í hrærivélarskál og strá 1 tsk af geri og 1/2 tsk af sykri yfir og láta standa í nokkrar mínútur, þar til gerið freyddi. Á meðan bræddi ég 75 g af smjöri og lét kólna dálítið.
Þá setti ég út í 400 g af hveiti (Pillsburys, nema hvað?), 1 1/2 msk af sykri, 1/2 tsk af salti, bráðna smjörið og 1 stórt egg.
Hrærði saman og hnoðaði vel, þar til deigið var orðið teygjanlegt, mjúkt og rakt. Ef það er of lint og klessist mikið við hendurnar má bæta við ögn af hveiti.
Deigið lyfti sér á hlýjum stað undir viskastykki í svona klukkutíma. Þangað til það hefur tvöfaldast, stendur gjarna í uppskriftum, en það getur nú verið erfitt að meta það. Nóg að það lyfti sér alveg slatta og þegar maður potar með fingrinum í það á það að vera svampkennt og fylla upp í holuna eftir fingurinn þegar hann er tekinn. Ef deigið virðist ekkert hafa lyft sér og holan heldur sér óbreytt er gerið ekki í lagi, annaðhvort var það of gamalt eða vatnið var of heitt.
En allavega: Ég hnoðaði deigið aðeins, lét það bíða í fáeinar mínútur (þá verður auðveldara að fletja það út) og stráði svo dálitlu hveiti á marmaraplötu og flatti deigið út í rétthyrning, kannski 25×35 cm, eitthvað svoleiðis. Ég nota þessa marmaraplötu mikið við bakstur, hún er einstaklega þægileg til að fletja út á og fleira. Mig var búið að langa í svona plötu í mörg ár en tímdi aldrei að kaupa hana. Fann svo þessa á útsölu í Húsasmiðjunni fyrir nokkrum árum, hræódýra til þess að gera, og var ekki sein að kaupa hana. Hef aldrei séð eftir því, þótt það væri ansi erfitt að drösla henni heim í strætó, kvikindið er níðþungt.
Ég snyrti kantana og skar deigið (með pítsuhjóli) í sex ferninga og hvern ferning svo í þríhyrninga.
Ég bræddi 60 grömm af smjöri og setti í skál og blandaði saman í annarri skál 3 msk af sykri, 1 1/2 msk af hveiti og 1 tsk af kanil. Og tíndi til tólf sykurpúða, stærri gerð.
Velti sykurpúða upp úr smjöri, svo úr kanelblöndunni og setti hann svo á deigþríhyrning, breiða hornið. Svo vafði ég þríhyrningnum utan um sykurpúðann og braut svo hin hornin inn yfir púðann til að loka hann inni.
Kleip brúnirnar mjög vel saman og reyndi að passa að engin göt væru á deiginu. Dýfði svo botninum á hverri bollu í afganginn af smjörinu (ef það er afgangur) og raðaði bollunum svo í silíkonklædd múffuform. Hitaði ofninn í 180°C og bakaði bollurnar í um 12 mínútur á næstneðstu rim.
Þessari hafði ég ekki lokað nógu vel …
… en það er reyndar alveg sama hve vel bollunum er lokað utan um sykurpúðana, þær eru alltaf holar að innan. Sykurpúðinn bráðnar nefnilega og verður að eins konar karamellusósu sem gengur inn í deigið. Og þarna er komin ástæðan fyrir nafninu upprisubollur (resurrection rolls), Bandaríkjamenn segja að þær séu eins og gröf Krists á páskadagsmorgun: tómar innan. Ég veit nú ekki …
En ágætis bollur, allavega. Upphaflegu bollurnar eru löðrandi í glassúr og stráð yfir þær hnetumylsnu en mér fannst þær alveg nógu sætar. Kannski prófa ég samt einhverntíma að velta sykurpúðunum upp úr fínmöluðum hnetum áður en þeim er pakkað inn.
Þetta er algjör snilld!
Var Pillsbury´s keppni haldin hér á landi?
Mig rámar í einhverjar Pillsbury uppskriftir sem fóru eins og eldur í sinu um Krókinn á sínum tíma.
Það var haldin Pillsbury’s-keppni hér tvisvar, 1964 og 1967. Sigurvegararnir fengu Bandaríkjaferð og voru heiðursgestir á úrslitum bandarísku keppninnar en tóku ekki þátt í henni. Hér er krækja á uppskriftirnar sem komust í úrslit 1967, gætu verið þær sem þú manst eftir: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1390470
Og hér eru vinningskökurnar frá 1964: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1359998
Þessi úr kókos, súkkulaði og ávöxtum hringir bjöllum hjá mér.
Annars athyglisvert að sjá hvað landsbyggðarkonurnar hafa verið duglegar að taka þátt.