Dukkah-bleikja undir múmíuáhrifum

Ég hef verið að frílysta mig í útlöndum að undanförnu, fór á einstaklega skemmtilega matarráðstefnu í Oxford, þar sem margir helstu matarnördar heimsins voru samankomnir – þetta er þriðja árið í röð sem ég fer þangað og reikna með að halda því áfram. Þarna er talað um alls konar matartengda hluti – undarlegustu hráefni, matreiðsluaðferðir, matarsögu, matarvenjur, sérkennilega hluti tengda mat og allt sem fólki dettur í hug, satt að segja, þótt alltaf sé eitthvert þema.

Þemað í fyrra var Feasts og þá var ég ásamt öðrum með erindi um þorrablót og gaf fólki að smakka þorramat. Þetta gerði mikla lukku og ég hef verið beðin um að tala meira um íslenskan mat seinna – það getur vel verið að ég geri það en sleppti því þó í ár. Það hefði svosem alveg verið hægt að finna ýmislegt, þemað í ár var Wrapped and stuffed og þar var meðal annars fjallað um haggis, allskyns pylsur, beinlausa fugla, Pillsbury Best-bökunarkeppnina, matargerð ástralskra frumbyggja, múmíur og ansi margt fleira.

Ég fékk fullt af hugmyndum og það er ekki ólíklegt að eitthvað af þeim komi fram hér á næstunni. En þó ekki í dag – jæja, og þó, það eru viss tengsl, ég var að hugsa um múmíurnar og þá datt mér í hug egypskt dukkah og fór að langa í það. Og tilvalið að nota það í matinn, sem ég ákvað við fiskborðið í Nóatúni að yrði bleikja.

Mig langaði í pistasíudukkah og ætlaði að spara mér smáfyrirhöfn og kaupa skurnlausar pistasíur en fékk áfall þegar ég sá verðið og þegar ég reiknaði út hvað ég mundi græða á að skurnfletta pistasíurnar sjálf var það ágætis tímakaup. Svo að ég tók slatta af pistasíum og skurnfletti þar til ég var komin með svona 40 grömm. Það er svosem afskaplega einfalt og fljótlegt. – Skurnin af þessum 40 grömmum var um 35 grömm svo að nýtingin er rúmlega 50%.

Svo mældi ég 25 grömm af ljósu sesamfræi, 1 tsk af kóríanderfræi, 1 tsk af kummini (möluðu því ég átti ekki heilt) og 1 tsk af Maldonsalti. Og 1 tsk af grófmöluðum piparkornum en var ekki búin að finna þau þegar ég tók myndina.

Hitaði þykkbotna pönnu og ristaði allt saman við meðalhita í nokkrar mínútur. Hrærði oft í á meðan; þetta á alls ekki að brenna, bara rétt að byrja að taka lit og varla það.

Hellti öllu í matvinnsluvélina og lét hana ganga þar til komin var mylsna, ekki allt of fín.

Ég var ekkert að þrífa pönnuna sem ég hafði notað til að rista kryddið, hitaði bara smávegis smjör og olíu á henni, kryddaði roðhliðina á bleikjunni með pipar og salti, setti flakið á pönnuna, stráði góðum skammti af dukkah á það og steikti það við meðalhita í svona 4 mínútur  …

… eða þangað til það var nærri steikt í gegn, eins og sést hér; bleikjan er bara glær efst. Þá sneri ég því (hægt að nota t.d. pönnukökuspaða) og steikti í svona mínútu í viðbót.

Setti flakið á salatblöð og bar það fram með tómat- og sítrónubátum, meira dukkah, olíu og brauði.

Bara alveg ágætt, sko.

Og svo er nóg eftir af dukkah og ólífuolíu og brauði.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s