Þríréttað og þjóðlegt í tilefni dagsins

Ég fékk góða gesti í mat og ákvað að vera í þjóðlegri kantinum í tilefni af kosningunum og það þýðir náttúrlega lambakjöt, er það ekki? Ég kom við í Krónunni á föstudaginn, var að hugsa um að kaupa lambalæri en sá svo hvað lambahryggirnir sem lágu við hliðina á lærunum voru álitlegir og það rann upp fyrir mér að mig langaði eiginlega meira að grilla hrygg; maður gerir það nú sjaldnar.

Ég tók hrygginn úr kæli klukkutíma áður en hann fór á grillið. Saxaði rósmarín og timjan og blandaði saman við nýmalaðan pipar og maldonsalt og kryddaði hrygginn neðanverðan, sneri honum svo við, skar nokkrar raufar í hann alveg upp við hryggbeinið báðum megin, og bætti villibráðarkryddblöndu (einiber, lárviðarlauf, kóríanderfræ og eitthvað fleira) við rósmarínblönduna og kryddaði hrygginn að ofan; setti dálítið af kryddinu í raufarnar. Lét svo hrygginn standa nokkra stund.

Ég ákvað að hafa kartöflugratín með. Ég á mandólín sem ég nota nú ekki oft en það er eiginlega ómissandi þegar maður þarf að skera mikið magn af kartöflum í þunnar sneiðar. Ætli þetta hafi ekki verið svona 1,2 kíló?

Svo raðaði ég sneiðunum í eldfast mót; þetta urðu fjögur lög og ég kryddaði á milli laga með timjani, vorlauk, pipar og salti.

Hellti svo hálfum lítra af matreiðslurjóma yfir og bakaði gratínið í 180°C heitum ofni í um klukkutíma.

Ég hitaði grillið og hafði það lokað á meðan. Þegar það var komið í 200°C slökkti ég á brennaranum í miðjunni (þetta er lítið Weber-grill, á tveggja brennara grilli má slökkva á öðrum brennaranum og setja hrygginn þar yfir). Lagði hrygginn á álpappírsörk sem var bara svolítið stærri um sig en hann sjálfur og braut aðeins upp á brúnirnar. Þetta er gert til að hann brenni ekki á jöðrunum. Lokaði svo grillinu, lækkaði aðeins hitann og grillaði hrygginn í svona 40 mínútur – tíminn fer annars eftir ýmsum aðstæðum, svo sem vindkælingu og fleiru.

Lét hann svo standa í svona 10 mínútur áður en hann var borinn fram.

Kartöflugratínið var tilbúið um leið og hryggurinn. Ég var með kryddsmjör (sama og í gær) og kryddjurtasósu (væn handfylli af basilíku, hálft knippi af steinselju, 1 hvítlauksgeiri, safi úr 1/2 sítrónu, 2-3 msk saxaðar möndlur, pipar, salt, allt maukað saman í matvinnsluvél og slatta af olíu (ólífuolía og Isio-4 í jöfnum hlutföllum) þeytt saman við þar til sósan var hæfilega þykk). Svo var salat með þessu líka.

Forrétturinn var bara litlar flatbrauðssnittur, annars vegar með hráu tvíreyktu rollukjöti úr Mývatnssveit (ekki eins gott og fimmtánreykta skagfirska hangikjötið sem ég fékk um daginn en fínt samt) og taðreyktum silungi.

Og eftirrétturinn nýbakaðar vöfflur með súkkulaðisósu og tvenns konar súkkulaðiís.

Alveg burtséð frá kosningaúrslitunum var maturinn hreint ágætur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s